Svívirðilega góðar kjötbollur fylltar með osti

Girnileg kjötbolluuppskrift er það sem við þurfum þessa dagana.
Girnileg kjötbolluuppskrift er það sem við þurfum þessa dagana. Mbl.is/Snorri Guðmundsson

„Skotheldar ostafylltar ítalskar kjötbollur í bragðmikilli pestósósu. Þetta er réttur sem getur ekki klikkað og smellpassar með góðu rauðvínsglasi,“ segir Snorri Guðmunds um þennan rétt sem við bjóðum upp á í dag.

Ostafylltar kjötbollur og tagliatelle í pestósósu (fyrir 4)

 • Blandað hakk, 500 g
 • Panko brauðraspur, 4 msk./fæst í asísku deildinni
 • Fennelduft, 1 tsk.
 • Egg, 1 stk.
 • Mozzarella ostur rifinn, 40 g
 • Hvítlauksrif, 4 stk.
 • Laukur, 150 g
 • Hvítvín, 1 dl
 • Nautakraftur, 1 teningur
 • Tagliatelle, 300 g
 • Niðursoðnir tómatar, 2 dósir/San Marzano helst
 • Rautt pestó, 90 g
 • Ítalskt pastakrydd, 1 msk.
 • Parmesan ostur, 30 g + meira eftir smekk
 • Breiðblaða steinselja, 20 g
 • Basilíka, 5 g

Aðferð:

 1. Saxið helminginn af steinseljunni og pressið 2 hvítlauksrif. Setjið hakk, pressuð hvítlauksrif, saxaða steinselju, egg, fennelduft, mozzarellaost, pankó rasp og 0,5 msk. af flögusalti í skál og blandið vel saman. Takið smá af kjötblöndunni, steikið og smakkið. Bætið svo við saltmagnið í blöndunni ef þarf.
 2. Mótið litlar bollur úr blöndunni. Gott er að nota t.d. 15 ml/1 msk. mæliskeið svo allar bollurnar verði jafn stórar og steikist því jafnt. Sömuleiðis er gott að bleyta hendurnar ögn á milli þess sem hver bolla er mótuð en þannig verður áferðin á bollunum sléttari.
 3. Saxið lauk og pressið restina af hvítlauknum.
 4. Brúnið bollurnar vel á öllum hliðum við frekar háan hita og hreyfið þær reglulega í steypujárnspotti eða á stórri pönnu. Lækkið svo hitann í miðlungshita og steikið áfram þar til bollurnar eru steiktar í gegn, sirka 5 mín. Þetta skref er best að gera í 2 skömmtum svo bollurnar steikist sem best. Setjið bollurnar til hliðar á disk og geymið.
 5. Bætið söxuðum lauk út í pottinn og steikið í nokkrar mín þar til laukurinn fer að mýkjast. Bætið hvítlauk út í og steikið áfram í stutta stund. Bætið hvítvíni út í pottinn og sjóðið niður um helming. Bætið San Marzano-tómötum út í pottinn ásamt pestó, ítölsku pastakryddi og nautateningi. Kremjið tómatana vel og látið sósuna malla í 20 mín. og sjóða ögn niður.
 6. Setjið vatn í pott með ríflegu magni af salti og náið upp suðu. Sjóðið tagliatelle eftir leiðbeiningum frá framleiðanda.
 7. Bætið bollum í pottinn með sósunni þegar nokkrar mín eru í pastað. Rífið helminginn af parmesan ostinum saman við og látið malla a vægum hita.
 8. Hellið vatninu frá pastanu og blandið saman við sósuna og kjötbollurnar. Saxið steinselju og basilíku. Rífið restina af parmesan. Hrærið steinselju, basilíku og parmesan osti saman við pastaréttinn og berið fram.
Mbl.is/Snorri Guðmundsson
mbl.is
Loka