Gefur afgangsmatinn á kvöldin

mbl.is/Margrét Þóra

„Við setjum matinn út í bakka hér fyrir utan kaffihúsið á milli klukkan 6 og 7 á kvöldin og það er yfirleitt allt farið þegar við mætum kl. 8 næsta morgun. Þörfin er greinilega mikil,“ segir Silja Björk Björnsdóttir en hún rekur kaffihúsið Barr í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Starfsfólk hefur undanfarið gengið frá þeim mat sem ekki hefur selst yfir daginn í handhæga matarbakka og skilið þá eftir fyrir utan húsið. Hún lætur vita hvað er í boði á fésbókarhópnum Matargjafir á Akureyri og nágrenni.

„Viðtökur eru gríðarlega góðar, það er greinilegt að þörfin er mikil, þau sem þurfa á þessari mataraðstoð að halda eru að nýta sér þetta, sem er mjög gott,“ segir Silja Björk. Hún tók við rekstri kaffihússins í Hofi í byrjun júní en hefur um langt skeið starfað innan þjónustu- og veitingageirans í Reykjavík. „Þeir sem starfa innan þess geira taka fljótt eftir því hversu miklu er hent af matvælum, það sem ekki selst yfir daginn endar yfirleitt í ruslinu. Það er því miður lenska í þessum bransa. Ef þú getur ekki selt matinn, þá á að henda honum. En það er svo mikil tímaskekkja og óþarfi. Fyrir sunnan tókum við okkur til og fórum að keyra afganga út, t.d. í Kvennaathvarfið og til Rauða krossins og fleiri samtaka, en það eru engin samtök hérna á Akureyri sem taka við svona matargjöfum, ekki svo ég viti,“ segir Silja Björk.

Stór hópur býr við sára fátækt

Fyrir ekki löngu hóf kaffihúsið Barr í Hofi að bjóða upp á rétt dagsins til viðbótar við samlokur, kökur og annað léttmeti. Eins og verða vill selst ekki allt sem er útbúið. Hún hafi ekki fundið neinn sem gat tekið við því, en rekist á fésbókarsíðuna Matargjafir á Akureyri og nágrenni þar sem verið er að aðstoða þau sem þurfa á mataraðstoð að halda.

Í fyrstu fór hún með brauðmeti og annað að heimili umsjónarmanns síðunnar. Þegar við bættist heiti maturinn var það ekki gerlegt þannig að þá bjó hún um matinn í bakka og setti fyrir utan húsið.

„Það er greinilega stór hópur sem er í mikilli þörf og á kannski ekki fyrir mat út mánuðinn. Þetta er auðvitað óþægileg umræða en ég held að við verðum að svipta hulunni af þessari staðreynd að fátækt er til í íslensku samfélagi og ræða þessi málefni. Við höfum áður tekið óþægileg málefni og rætt þau og þurfum að gera það líka varðandi mataraðstoð,“ segir hún.

Grátlegt að henda matvælum

Silja Björk lítur á það sem samfélagslega skyldu sína að henda ekki matvælum heldur láta þau ganga áfram til þeirra sem á þurfa að halda. Henni svíður að sjá þá miklu matarsóun sem er til staðar, það kosti mikla orku bæði að framleiða matvæli og eins að farga þeim, hvort tveggja skilur eftir sig mikið kolefnisspor. Loftslagsmálin hafi verið í brennidepli og verði áfram. „Við þurfum að hugsa þessi mál upp á nýtt, það er grátlegt að henda matvælum sem ekki eru skemmd á meðan til er hópur fólks sem á ekki mat handa sér og börnunum sínum og á meðan matarsóun er einn stærsti valdur loftslagsbreytinga.

Silja Björk hvetur aðra til að hugsa áður en þeir henda, reyna frekar að láta afgangsmatvæli ganga áfram, „en það segir sig sjálft að við þurfum að finna betri leið til að deila þessu út, það gengur ekki á köldum vetrarkvöldum að geyma matvæli hér fyrir utan húsið. Það er óskandi að einhver samtök eða félög gætu tekið þetta samfélagsverkefni að sér,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »