Stækkuðu Jómfrúna á aðeins 12 tímum

Starfsmenn staðarins gerðu sér lítið fyrir og gerðu stækkunina svona …
Starfsmenn staðarins gerðu sér lítið fyrir og gerðu stækkunina svona glæsilega á aðeins tólf klukkustundum. Ljósmynd/ Jakob E. Jakobsson

Tilkynnt var um hertar samkomutakmarkanir í gær í kjölfar fjölgunar smita síðustu daga. Ljóst er að aðgerðirnar valda töluverðum usla innan veitingageirans og veitingamenn þurfa að aðlaga rekstur sinn að nýjum takmörkunum. Eigandi Jómfrúarinnar brá á það ráð að stækka staðinn á aðeins tólf klukkustundum.

Jakob E. Jakobsson, eigandi og rekstrarstjóri Jómfrúarinnar, segir í samtali við mbl.is að staðið hafði til að nýta húsnæðið sem er við hlið veitingastaðarins á Lækjargötu sem jólabar í aðdraganda jóla, þar sem sá tími er gríðarlega annasamur á veitingastaðnum. Eftir fréttir gærdagsins var hins vegar horfið frá þeirri hugmynd í bili.

Jakob segist ekki hafa í hyggju að afboða einn einasta …
Jakob segist ekki hafa í hyggju að afboða einn einasta gest á aðventunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Við ætluðum í rauninni að nýta húsnæðið þannig að af því að við erum svo bókaðir í aðdraganda jóla á Jómfrúnni, með yfir ellefu þúsund pantaða, þá var hugsunin sú að geta leyft fólki að fara í einn drykk fyrir eða eftir á og á meðan borðið er ekki tilbúið og svoleiðis,“ segir Jakob.

„Svo voru settar á okkur þessar auknu kvaðir í gær, þannig að við erum í rauninni að nýta þetta rými sem við höfðum hugsað sem bar og bara breyttum aðeins um stefnu og erum í rauninni að hafa hérna þriðja hólfið okkar.“

„Við viljum ekki afboða kúnnana okkar“

Jakob segir að yfirmenn og starfsfólk staðarins hafði drifið í því að umbreyta húsnæðinu í veitingastað til þess að bæta við þriðja hólfinu. Hann segir stækkunina strax komna í notkun og að hún gerir gæfumun, þar sem ekki þurfi að grípa til þess að afboða gesti eins og þurfti að gera fyrir ári.

Ljósmynd/ Jakob E. Jakobsson

„Við höfum ekki í hyggju að afboða einn einasta gest eins og við þurftum að gera í fyrra sem var náttúrulega algjörlega hræðilegt fyrir okkur. Það er ekki planið núna og þá ætlum við frekar að geta verið með þrjú hólf í staðinn fyrir tvö.“

„Við viljum ekki afboða kúnnana okkar, maður gerir það bara ekki,“ bætir hann við.

Undrar sig á reglugerðinni

Að sögn Jakobs var það töluverður skellur að tilkynnt var um hertar takmarkanir í gær en hann undrar sig á því að ekki séu heimildir í reglugerðinni fyrir veitingageirann eins og eru í lista- og menningargeiranum, þar sem horft er til hraðprófa og slíks.

„Við þurfum bara að díla við fimmtíu manns í hólfi,“ segir hann.

Jakob segir að það sé virkilega þétt bókað á staðnum alveg til 1. desember og að frá þeirri dagsetningu og alveg að Þorláksmessu sé fullbókað á staðnum á öllum tímum.

Ljósmynd/ Jakob E. Jakobsson
Ljósmynd/ Jakob E. Jakobsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert