„Stolt af því að vera kölluð Áslaug gella“

Áslaug Ragnarsddóttir hér með myndarlega skötu.
Áslaug Ragnarsddóttir hér með myndarlega skötu. Arnþór Birkisson

Lykt af kæstri skötu hefur verið eitt af helstu einkennum aðventunnar lengur en elstu menn muna og hjá Djúpinu fiskvinnslu á Grandagarði bíða um sjö tonn af góðgætinu eftir að fara á diska landsmanna. „Við bjóðum ferska skötu allt árið og erum sennilega með þeim öflugri í kæsingunni,“ segir Áslaug Ragnarsdóttir, eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Kæst skata verður ekki til á einni nóttu. Fiskverkendur safna allt árið birgðum fyrir verkunina, sem felst í því að láta fiskinn gerjast áður en hann er skorinn í bita. Við gerjunina brotna þvagefni niður og þaðan kemur sterka lyktin og bragðið. Hitastigið fer hækkandi eftir því sem á líður verkunina og endar í stofuhita. „Síðustu sex vikurnar fyrir jól er erfitt að vera inni í vinnslunni, maður fær tár í augun vegna ammoníakslyktarinnar, en það góða við hana er að hún berst ekki í annan fisk,“ segir Áslaug.

Fær svigrúm hjá körlunum

Röð tilviljana varð til þess að Áslaug varð fiskverkandi. „Maðurinn minn var viðloðandi fiskvinnslu, eitt leiddi af öðru og í febrúar 2019 stofnaði ég fyrirtækið, sem hefur vaxið jafnt og þétt.“ Hún segir það hafa vakið athygli enda fáar konur í þessum rekstri. „Það var svolítið sérstakt að stíga inn í þetta umhverfi sem ung kona og ég þurfti að læra á það en þessir skemmtilegu karlar og karakterar í bransanum hafa verið góðir við mig og gefið mér svigrúm.“

Áslaug kaupir fisk á markaði og selur afurðirnar einkum til veitingastaða, mötuneyta og stofnana á höfuðborgarsvæðinu. „Þekktir staðir sem bjóða upp á skötu eins og til dæmis Múlakaffi kaupa hana af okkur og það er vísbending um að við séum að gera hlutina rétt.“ Áslaug bætir við að hún merki aukna ásókn ungs fólks í bæði kæsta og ferska skötu. „Fersk skata er orðin fastur liður á matseðli nokkurra veitingahúsa allt árið og fólk af minni kynslóð tekur hefðina upp á aðventunni í auknum mæli. Kæsta skatan er því ekki að deyja út eins og öskupokinn.“

Veitingastaðir hafa þurft að takmarka fjölda gesta vegna kórónuveirufaraldursins og fyrirtæki og fjölmennir skötuhópar eins og til dæmis Hið íslenska skötufélag aflýstu skötuveislum í fyrra og aftur núna í desember. Áslaug hefur brugðist við þessu með því að bjóða fjölskyldum og fámennari hópum, sem vilja halda skötuveislu í heimahúsum, að kaupa skötuna í Djúpinu. „Það er slæmt til þess að hugsa að fólk missi af skötuveislunni,“ segir hún. „Kæst skata var til dæmis hefð hjá ömmu heitinni og vinkonum hennar í byrjun aðventunnar og þá fékk hún sér hvítvín með en annars drakk hún lítið áfengi. Þetta var fastur liður sem hún vildi aldrei missa af.“

Skötulyktin fellur ekki öllum í geð og Áslaug segist hafa fundið fyrir því. „Ég þarf stundum að skreppa úr vinnunni og fara í búðir og á þessum tíma tek ég eftir því að fólk snýr sér við til að sjá hvaðan lyktin kemur. Sjálfsagt kemur mörgum á óvart að hún komi frá ungri og myndarlegri konu en lyktin fylgir starfinu og ég er stolt af því að vera kölluð Áslaug gella.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert