43 ára í besta formi lífs síns

Magnea sigurreif eftir frábæran árangur.
Magnea sigurreif eftir frábæran árangur. Ljósmynd/Aðsend

Magnea Karlsdóttir, er 43 ára doktor í matvælafræði og afrekskona í fitness. Hún náði þeim tímamóta árangri á móti á Spáni að ná öðru sæti í svokölluðum opnum flokki þar sem hún keppti við helmingi yngri en slíkur árangur er fáheyrður í þessari íþróttagrein.

Magnea segir að breytingar á lífsstíl séu langhlaup og hún sé búin að vera í mörg ár að þróa hann. Í dag séu allir verkir í stoðkerfi horfnir og hún sé í betra formi, bæði andlega og líkamlega, en fyrir tíu árum. 

Magnea og Ingvar.
Magnea og Ingvar. Ljósmynd/Aðsend


Nú ertu 43 ára og í gríðarlega góðu formi – hvernig ferðu að því?

„Í fyrsta lagi þá finnst mér fátt skemmtilegra en góð og krefjandi æfing, hvort sem það er þung lyftingaæfing eða hjólasprettir. En þetta kallar á gott skipulag og setja heilsuna alltaf í forgang. Sama hversu þéttir dagarnir eru þá passa ég alltaf að ná æfingu og næra mig vel. Ég er mjög dugleg að undirbúa nesti ef ég sé fram á þéttan dag. Einnig er ég búin að læra að velja rétt ef ég þarf að grípa mér eitthvað í búðinni á hraðferð,” segir Magnea og fagnar því um leið hvað það hefur orðið mikil vitundarvakning í þjóðfélaginu hvað varðar hollustu og úrvalið orðið miklu betra en það var fyrir nokkrum árum.“ 

Hvaða mót var þetta sem þú varst að keppa á og hvaða árangri náðir þú?

„Ég var að keppa á Ben Weider Cup í Alicante á Spáni, en gaman að segja frá því að Ben Weider er einn af upphafsmönnum þess að gera „bodybuilding“ að íþróttagrein. Það eru yfirleitt nokkur Ben Weider-mót haldin á hverju ári úti um allan heim.

Á þessu móti náði ég 1. sæti í Masters flokki (+35 ára), 1. sæti í Novice og 2. sæti í opnum flokki en þar var ég að keppa við konur helmingi yngri en ég og fannst mér það sætasti sigurinn.

Ég keppti líka fyrir skemmstu  út í Birmingham á Arnold Classic og landaði þar 4 sæti í mínum flokki.“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig er að keppa á svona móti?

„Það er eiginlega ólýsanlegt. Þvílík lífsreynsla. Að stíga á svið með þessum flottu konum alls staðar að úr heiminum er algjört adrenalín rush.

Ég fer alltaf með það hugarfar að njóta mín og hafa gaman. Auðvitað eru stressfiðrildi í maganum en gleðin að stíga á svið og sýna niðurstöður erfiðisins undanfarna mánuði og ár er mun sterkari.“

Hvernig borðar þú venjulega – og æfir?

„Venjulega lyfti ég sex sinnum í viku auk þess að fara daglega með hundinn í göngur. Ég verð alveg ómöguleg ef ég næ ekki að æfa, en ég er með það sem kallast scoliosis (hryggskekkju) og ef ég næ ekki að æfa stífna ég öll upp og verð alveg ómöguleg.

Ég borða mjög hreina fæðu og sneiði eins og hægt er frá hvítum sykri, hveiti og mjólkurvörum þar sem þær fara ekki vel í magann á mér. Meginuppistaðan í mínu venjulega mataræði eru góðir próteingjafar eins og fiskur, fuglakjöt, egg og naut. Til að fá góða fitu fæ ég mér til dæmis lax, avókadó, hnetur og þess háttar og ekki má gleyma kolvetnum, en þau eru nauðsynleg til að byggja upp vöðva og fyrir heilastarfsemina. Mínir kolvetnagjafar eru til dæmis hrísgrjón, hafrar og rúsínur. Svo borða ég mjög mikið af grænmeti. Margir halda að ég borði mjög einhæft en það er alveg ótrúlega margt hægt að gera úr hollu hráefni. Til dæmis bý ég mér oft til pizzu úr eggjahvítum og huski, eða úr blómkáli, geri líka stundum mini-pizzur úr eggaldin en hef ekki borðað „hefðbundna pizzu“ í örugglega 5-6 ár og sakna þess ekki neitt. Minn go-to matur er kjúklingasalat, sem samanstendur af salatblöndu, papríku, agúrku, avokadó, eplum, trönuberjum og kjúklingabringu eða smoothie-skál með ýmsum frosnum berjum, vatni, og próteini frá Leanbody, toppað með haframjöli, trönuberjum og möndlum. Stundum sker ég niður gott próteinsúkkulaði til að fá bragðarefsfílinginn.

Þar sem ég er að borða mjög hreina fæðu þá getur það verið „challenge“ að ná að innbyrða nógu mikið af kaloríum til þess að byggja upp vöðva, en það hef ég verið að bæta upp með fæðubótarefnum eins og próteindrykkjum.“

Efst á myndinni er Magnea ásamt eiginmanni sínum, Ingvari Tryggvasyni …
Efst á myndinni er Magnea ásamt eiginmanni sínum, Ingvari Tryggvasyni og fjárhundinum Freyju. Þar fyrir neðan eru börn þeirra Eva María, Tryggvi og Erla. Og fremst er dóttir þeirra Ástrós ásamt manni sínum, Snorra Þórarinssyni og hinum sex mánaða Marínó Rökkva. Ljósmynd/Aðsend

En í aðdraganda móts?

„Þar sem ég borða venjulega mjög hreint þá er mataræðið mjög svipað í grunninn allan tímann, eina sem breytist er magnið (færri kaloríur) og hlutfall próteins, kolvetna og fitu. Sem dæmi um þetta þá er hlutfall kolvetna í mataræðinu að lágmarki 50% þegar ég er á uppbyggingar tímabilinu. En þegar líður að móti getur það hlutfall alveg farið niður í 30-35% hjá mér. Ég á mjög auðvelt með frá náttúrunnar hendi að losa mig við fitu en erfitt að byggja upp og viðhalda vöðvamassa, því skiptir mig miklu máli að samsetning matarins sé rétt svo að ég nái mínum markmiðum.

Svo þegar það eru um tvær  vikur í mót þá tek ég öll fæðubótarefni út og annað sem inniheldur sætuefni, bragðefni og þess háttar.

Æfingalega séð þá er það svipað og venjulega fyrir utan að ég tek kannski 1-2 brennsluæfingar í viku.“

Er erfitt að vera svona agaður?

„Í dag er það ekki erfitt. Í dag er þetta normið mitt. Minn lífsstíll.

Það var ekki alltaf þannig. Áður fyrr pældi ég ekki allt of mikið í heilsunni, tók henni sem sjálfsögðum hlut. Það var ekki fyrr en ég lauk doktorsnáminu að ég setti heilsuna í fyrsta sæti. Þannig að ég er búin að vera að þróa með mér þennan lífsstíl hægt og rólega síðustu sjö árin eða svo. Og sé svo ekki eftir því, líðaninn svo miklu miklu betri og allir krónískir stoðkerfisverkir horfnir.“

Hvaða ráð myndir þú gefa þeim sem eru að reyna að breyta mataræðinu eða lífsstílnum almennt?

„Þetta er langhlaup. Ekki taka of stór skref og ekki gera miklar breytingar í einu. Þetta kemur smátt og smátt. Horfa á stóru myndina, og setja sér mini-markmið á leiðinni.“

Hver eru næstu skref hjá þér?

„Nú er bara að jafna sig eftir keppnistímabilið, og sigla síðan í góða uppbyggingu þar sem ég bæti á mig fitu og vöðvamassa. Stefnan verður svo  væntanlega tekin á einhver mót næsta haust eða vetur ef allt gengur áfallalaust fyrir sig.“

Hvað starfar þú við dags daglega?

„Ég starfa sem yfirmaður QA og verkefnastjóri hjá Akraborg á Akranesi, sem er stærsti framleiðandi á niðursoðinni þorsklifur í heiminum. En ég er doktor í matvælafræði frá Háskóla Íslands. Þannig að mín vinna kallar á mikla setu fyrir framan tölvu, en þá er nauðsynlegt að hreyfa sig reglulega.“

 

Lifir þú mjög virkum lífsstíl? En fjölskyldan?

„Við erum þannig séð ósköp normal fjölskylda. Ég og maðurinn minn elskum að hjóla og höfum hjólað mikið saman, meðal annars farið í hjólaferðir til Spánar. Við eigum fjögur börn, á aldrinum 14-26 ára sem hafa engan sérstakan áhuga á að hanga með foreldrunum þannig að hundurinn á heimilinu sér um að viðra þau.“

Ætlar þú að keppa aftur?

„Klárlega, þetta er bara svo gaman. Gaman að sigra sjálfan sig. Eitthvað svo fullnægjandi að setja sér markmið og ná þeim.“

Er aldurinn afstæður?

„Já, það finnst mér klárlega. Ég er 43 ára og er í miklu betra formi líkamlega og andlega en ég var fyrir 10 árum. Held líka að hér skipti máli að ég hef mun meiri tíma en áður þar sem börnin eru orðin sjálfbjarga, námi lokið og við búin að koma okkar nokkurn veginn vel fyrir í lífinu.“

mbl.is