33 ára þriggja barna móðir leggur heiminn að fótum sér

Camilla Schram
Camilla Schram

Við hittum fyrir Camillu Schram, eiganda danska fyrirtækisins Humdakin. Camilla var stödd hér á landi og í heimsókn í versluninni Epal, ásamt fjölskyldu sinni sem naut þess að eiga frí á nýjum og spennandi slóðum í fyrsta sinn hér á eldfjallaeyjunni. Sjálf er hún rétt 33 ára gömul með þrjú lítil börn og hefur skotið Humdakin á stjörnuhimininn, hraðar en mörg önnur fyrirtæki ná á svo stuttum tíma.

Humdakin er stofnað og í eigu Camillu Schram, sem hefur áralangan bakgrunn í ræstingum. Hún saknaði þess að finna ekki vörur á markaði sem voru sjálfbærar og að sama tíma ofnæmisvænar – sem nú sex árum síðar hefur skilað sér í einum vinsælustu hreingerningarvörum síðari ára, þar á meðal hér á landi.

Náttúruleg hráefni – salvía og rabarbari

Það mætti segja að Humdakin sé fyrirmynd nútímaþrifa og hugmyndin á bak við vörumerkið var að hanna hreinsivörur sem fjarlægja bakteríur og óhreinindi, en á sama tíma er fagurfræðin allsráðandi.

Camilla hafði í mörg ár starfað við ræstingar og leitaðist eftir að finna hreingerningarvörur sem væru ekki fullar af skaðlegum efnum og ilmum, sem reyndist erfitt að finna og því fór hún sjálf út í það verkefni að framleiða vörur sem uppfylla þau atriði sem hún sóttist eftir. Hjá Humdakin finnur þú hreinsiefni fyrir eldhúsið, baðherbergið, handklæði og annan textíl sem og vinsælu sápuna þeirra „Anti smell“, sem er fullkomin við eldhúsvaskinn – því hún tekur alla lykt af höndum eftir sterkan mat eins og lauk, fisk og annað sem við handleikum í eldhúsinu daglega. Eitthvað sem ætti að vera til á hverju heimili ef þið spyrjið okkur á matarvef Morgunblaðsins.

„Humdakin býður upp á alhliða úrval fyrir fagurkera sem vilja sjá árangur í þrifum en á sama tíma nota vörur þar sem virkni og fagurfræði haldast í hendur. Vörurnar innihalda náttúruleg og hrein hráefni sem sótt eru í skóga og strandir á Norðurlöndunum – hráefni eins og salvíu, rabarbara, rautt þang og hafþyrni, sem gefa einstakan ilm og eru skaðlaus húðinni og náttúrunni,“ segir Camilla.

„Humdakin er hreingerningar-konsept, við vorum þau fyrstu til að útfæra þrif í eldhús og bað á nútímalegan og smartan máta. Þar sem hreinsivörurnar koma í fallegum umbúðum og auðvelt er að stilla þeim upp á eldhúsborði eða inni á baði og fullkomna þar af leiðandi heildarútlitið. Við viljum ekki að hreinsivörurnar liggi í felum, heldur standi upp á borðum svo auðvelt sé að grípa til þeirra,“ segir Camilla og bætir við að það séu margir sem leggi mikið upp úr því að eiga falleg heimili, þar sem hönnunarvörur prýða rýmin – en það eru þvi miður ekki svo margir sem eru jafn metnaðarfullir í að hafa hreint í kringum sig. „Og það var það sem fékk mig til að starta þessari hugmynd – að hanna hreinsivörur sem fólk væri til í að láta standa uppi á borðum,“ segir Camilla.

Eftirspurn eftir slíkum vörum er til staðar

Humdakin var stofnað árið 2016 og það eru ekki meira en þrjú ár síðan hún réð inn sinn fyrsta starfsmann – í dag starfa um tuttugu manns hjá fyrirtækinu sem á höfuðstöðvar sínar í Árósum og skrifstofur víðar um heim. Síðustu tvö árin hefur Humdakin tvöfaldað lagerplássið sitt með aukinni sölu og vöruúrvali, og því óhætt að fullyrða að eftirspurnin eftir slíkum vörum er til staðar.

„Fyrir þremur árum síðan var það ég sem keyrði út vörurnar í verslanir, og stóð fyrir allri sölu og öðru sem þurfti að sinna í fyrirtækinu – svo það er óhætt að segja að Humdakin hefur stækkað hratt á stuttum tíma. Við höfum verið starfandi í fimm ár og ef við höldum áfram á sömu braut næstu fimm árin, þá áfram með sömu vörur og í nýjum útfærslum, þá er það draumur að verða hluti af danskri hönnun – klassísk og vönduð,“ segir Camilla í samtali.

Í dag má finna Humdakin í 49 löndum, víðs vegar um heiminn og þar á meðal hér á Íslandi. „Danmörk er einn af okkar stærstu mörkuðum, en Svíþjóð, Noregur og Þýskaland eru þar einnig á lista og Þýskaland mun brátt taka fram úr Danmörku ef marka má nýjustu tölur. Það eru í kringum 500 verslanir sem selja vörurnar okkar. Og allar verslanirnar selja Humdakin sem vörulínu, það er að segja, þú finnur alltaf fleiri en eina vörutegund í verslunum sem selja Humdakin. Margir hafa verið með okkur frá upphafi, og því vaxið saman í gegnum árin sem okkur þykir mjög vænt um,“ segir Camilla.

Frumkvöðull á sínu sviði

Camilla var rétt um 13 ára gömul er hún stóð ábyrg fyrir eigin verslun, og hefur alla tíð vitað að hún muni vera sjálfstætt starfandi í framtíðinni. „Fjölskyldan mín er nánast öll með sinn eigin rekstur. Ég var 18 ára þegar ég stofnaði mitt fyrsta fyrirtæki, hreingerningarfyrirtæki, og út frá því fæðist Humdakin. Það er mjög krefjandi að vera sjálfstætt starfandi, það krefst aga og mikillar vinnu en er þess virði þegar maður fær að starfa við það sem maður brennur fyrir,“ segir Camilla.

Fyrsta teikningin var skissuð upp á pappír

Vöruþróunin og hönnunin hjá Humdakin hefur alfarið verið í höndunum á Camillu í gegnum árin, en hún hefur nú fengið hönnuði til liðs við sig og getur því áfram séð um skapandi hlutann en kastað boltanum áfram þegar þarf að þróa vörurnar enn frekar. Hún er ekki menntaður hönnuður og segir það ómetanlegt að starfa nú með faglærðu fólki á sínu sviði. Allra fyrsta teikningin sem hún sendi til framleiðanda á Indlandi var rissuð upp á pappír, síðan tók hún mynd af teikningunni með símanum og sendi áfram í tölvupósti. Engar tölvuteikningar eins og þau vinna með í dag – því einhvers staðar verður að byrja.

„Við byrjuðum með 25 vörur til sölu og í dag hlaupa þær yfir 300 talsins. Við erum að bjóða upp á meira úrval í vörutegundum sem og aðrar vörulínur sem eru að stækka. Mikið af þeim vörum sem við byrjuðum með upphaflega, eru söluhæstu vörurnar okkar í dag,“ segir Camilla.

Komin inn í dönsku konungsstofnunina

Camilla segist gjarnan vilja komast inn á stærri stofnanir eins og spítala, hótel og veitingastaði. Þau eru komin inn á nokkra staði, en ekki í stóru magni eins og er – en það kemur. Á síðasta ári rötuðu fyrstu vörurnar þeirra í danska konungshúsið sem þau eru afar þakklát fyrir og setja Humdakin á þann stall sem þau vilja vera á.

Bestu þrifráðin frá Camillu

Við getum ekki setið á okkur að spyrja Camillu hvort það sé alltaf hreint heima hjá henni? „Nei, alls ekki. Ég er mjög góð í að þrífa, en börnin taka sitt pláss og fá leyfi til þess. Ég reyni að halda húsinu hreinu eins vel og hægt er hverju sinni, en ég er ekki óð með tuskuna á lofti upp um alla veggi alla daga. En það er eflaust meira hreint heima hjá mér en hjá mörgum öðrum, því þetta er það sem ég elska að gera. Ef það er allt of mikið drasl heima, þá næ ég illa að halda einbeitingu og verð að taka til. En ég verð aldrei reið ef krakkarnir teikna á gólfið eða álíka, það er allt hluti af því að eiga börn og reka heimili,“ segir Camilla.

Hvert er þitt besta ráð í þrifum? „Við erum með Universal Cleaner sem þú setur rétt um 5 ml af í spreybrúsa og fyllir upp með vatni. Í hverjum Cleaner nærðu um 200 áfyllingum og sparar þar af leiðandi mikið af búðarkeyptum efnum í ótal brúsum, sem er afar umhverfisvænt. Og þú getur notað hreinsiefnið á allt! Gler, við, marmara og allt annað sem þarf að þurrka af og hreinsinn er að finna með ýmsum ilmefnum sem hreinsa loftið,“ segir Camilla í samtali.

Asíumarkaðurinn stækkar

Við spurðum Camillu út í framtíðina sem er jú, alltaf óráðin en það má dreyma stórt og hugsa fram í tímann. „Við erum alltaf að verða stærri í Asíu, í Kína og Japan og þar vil ég stækka enn frekar. Við erum að þróa nýja þrif vörulínu fyrir asískan markað, því það er allt önnur menning þar en hér. Til dæmis er stelpunærfatnaður þveginn í höndunum í Kína – því þarf að vera sérstök blanda til að þvo allar bakteríur úr fatnaðinum. Sama gildir um karlmannssokka, þeir þurfa sérstaka meðhöndlun. Það er því gaman að fá þessa áskorun með að þróa og hanna efni sem henta fyrir markað eins og í Asíu,“ segir Camilla og bætir við: „Eins erum við að þróa hreinsiefni fyrir ávexti, því þeir eru oftar en ekki með alls kyns eitri og öðrum óhreinindum sem við viljum ekki taka með í matargerðina. Ef við tölum saman eftir fimm ár, þá er ég nokkuð viss um að geta fullyrt að við séum búin að stækka um helming frá því sem við erum í dag – þá vonandi með 1000 söluaðila í yfir 70 löndum,“ segir Camilla og blaðamaður tekur viðmælanda sinn á orðinu og segist ætla heyra í henni eftir fimm ár til að fara þá aftur yfir stöðuna.

Það eru spennandi tímar fram undan hjá Humdakin og þá sérstaklega í haust er þau kynna stærstu vöruínu sína til þessa og þá einnig fyrir jólin. Nýr uppþvottalögur, líkamsskrúbbur, baðbombur, baðkrem o.fl. – eða rétt um 75 nýjar vörur. Fyrstu vörurnar koma á markað í ágúst og við fylgjumst spennt með.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »