Íslenskur hafragrautur kominn á markað

Nú er loksins hægt að kaupa tilbúinn íslenskan hafragraut í boxum en hingað til hefur eingöngu verið um innfluttan hafragraut að ræða. Það er íslenski frumkvöðullinn Karen Jónsdóttir, hjá Kaja Organic, sem stendur að framleiðslunni. Karen segir að varan hafi verið talsvert lengi í þróun enda vandað til verka en vöru sem þessa hafi vantað. Umbúðirnar séu umhverfisvænar og grauturinn að sjálfsögðu lífrænn eins og öll hennar framleiðsla. Einungis þarf að setja sjóðandi vatn ofan í og bíða í eina til tvær mínútur. Hægt er að nota jurtamjólk og geyma í ísskáp yfir nótt. 

Það gefur því augaleið að um mikla byltingu er að ræða fyrir neytendur sem vilja huga að hollustunni og geta gripið sér einfaldan morgun- eða hádegisverð með einföldum hætti. Fyrirhöfnin sé nánast engin, kolefnissporið í lágmarki og gæðin eins og best verður á kosið. Þrjár bragðtegundir eru í boði og inniheldur grauturinn engan viðbættan sykur né nein aukaefni auk þess sem hann er vegan. 

Hafragrauturinn var frumsýndur á matarmarkaðinum í Hagkaup sem nú stendur sem hæðst en þar hafa íslenskir smáframleiðendur kynnt vörur sínar fyrir neytendum. Mikil gróska er í frumkvöðlastarfseminni hér á landi og eru neytendur hvattir til að leggja sín lóð á vogarskálarnar og styðja við innlenda frumkvöðlastarfssemi.

mbl.is