Nói Síríus sendir frá sér yfirlýsingu

Bíó kropp er ný vara hjá Nóa Siríus.
Bíó kropp er ný vara hjá Nóa Siríus.

Mikill styr hefur staðið um heitið á Nóa kroppinu sem kallast Butter & salt, eftir að Ei­rík­ur Rögn­valds­son, pró­fess­or emer­it­us í ís­lenskri mál­fræði við Há­skóla Íslands, gerði athugasemd við enskt heiti vörunnar. Forsvarsmenn Nóa Síríus hafa viðurkennt að ákvörðunin hafi verið klaufaleg eftir á að hyggja og þakkar jafnframt fyrir að viðskiptavinir komi athugasemdum sínum á framfæri. Í yfirlýsingu, sem fyrirtækið hefur sent frá sér, kemur fram að fyrirtækið muni huga betur að nafngiftum í framtíðinni en Nóa kroppið sem um ræðir er tímabundin sumarvara.

Yfirlýsingin er svohljóðandi.

Okkur í Nóa Síríus er mjög umhugað um íslenskt málfar og höfum við ávallt haft það að leiðarljósi í okkar störfum.

Þegar þessi hugmynd að Nóa kroppi kom upp, þá var horft meira til þess að tengja vöruna við þá stemmningu sem hún á að skapa, sem er bíó, popp og auðvitað bragðið á vörunni. Sú ákvörðun að vísa í heitið á kexinu Butter & salt var því hugsanlega ekki hugsuð alla leið.

Þessi vara er ein af sumarvörunum okkar í ár og var framleidd í takmörkuðu magni. Við erum búin að dreifa nánast öllu magninu í verslanir og náum við þar af leiðandi ekki að breyta umbúðunum að þessu sinni.

Við erum virkilega þakklát fyrir þær frábæru viðtökur sem Bíó kroppið hefur fengið en um leið erum við þakklát okkar viðskiptavinum sem gefa sér tíma til að senda okkur ábendingar um það sem betur má fara og munum við huga betur að þessum málum hjá okkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert