„Michelin-stjarna jafngildi um fimm milljörðum króna“

Bragi Skaftason (t.h) ásamt Ragnari Eiríkssyni og Ólafui Erni Ólafssyni …
Bragi Skaftason (t.h) ásamt Ragnari Eiríkssyni og Ólafui Erni Ólafssyni hér á góðum degi að standsetja húsnæðið sem hýsir Tíu Sopa. Haraldur Jónasson/Hari

„Ég hef alltaf sagt að ein Michelin-stjarna jafngildi um fimm milljörðum króna fyrir ferðabransann, þótt ég hafi engin vísindaleg rök mér til stuðnings,“ segir Bragi Skaftason, eigandi veitingastaðarins 10 dropar og fulltrúi í veitinganefnd Samtaka ferðaþjónustunnar, SAF.

Hann segir veitingastaði gædda Michelin-stjörnu breyta miklu, ekki bara fyrir matarmenningu þjóða heldur líka fyrir ferðaþjónustuna. Margir ferðist með það fremst í huga hvar sé hægt að fá gæðaþjónustu.

Talsverður fjöldi ferðamanna líti ekki við áfangastöðum sem hafi ekki Michelin-stjörnustað. „Það að bæta við stjörnu eru frábærar fréttir fyrir íslenskan matvælaiðnað, það dregur fleiri ferðamenn til landsins og gefur einnig til kynna að enn meiri gæði séu á næsta leiti.“

Nú eru tveir íslenskir veitingastaðir með Michelin-stjörnu, Dill og Óx, og segir Bragi það undirstrika hve mikið Íslendingar hafi þróast sem matarþjóð. „Stærstu áhrifin verða líklegast á staðina sem starfa í því umhverfi þar sem svona gæði og hæfileikar fá að skína, og mér finnst ekki ólíklegt að fleiri staðir fái stjörnu á næstu árum.“

mbl.is