Íslenskt borðstofuborð vekur athygli

Við rákumst á þetta geggjaða borðstofuborð á grúppunni Skreytum hús á Facebook, en það er Hallgerður Kata Óðinsdóttir sem á heiðurinn að smíðinni.

Hallgerður segir í samtali að hún hafi verið með borðstofuborð sem nýttist illa á heimilinu og hafi langað í hringlaga borðplötu sem myndi passa rýminu betur. „Borðið sem ég átti áður tók mikið pláss og þar voru fæturnir alltaf fyrir þegar ég lagði á borð fyrir fleiri en fjóra,“ segir Hallgerður en hún starfar sem arkitekt/járnsmiður hjá fjölskyldufyrirtækinu Járnsmiðja Óðins. „Ég á mjög auðvelt með að komast í góða aðstöðu til að smíða og svo finnst mér skemmtilegt að gera hluti sjálf í höndunum“, segir Hallgerður.

Sótti innblástur á Pinterest
Eins og svo margir, þá leitaði Hallgerður að fyrirmynd á Pinterest – þar sem uppsprettu af hugmyndum af öllum toga er að finna. Hún vildi að borðfóturinn myndi ekki trufla neinn sem sæti til borðs og datt að lokum niður á mynd frá fyrirtækinu Knoll þar sem hún sá fyrirmyndina eftir Warren Platner frá árinu 1966.

Úr hverju er borðið smíðað?Borðið er smíðað úr mismunandi stærðum af teinum. Notaði mest 10 mm teina sem ég beygði í höndunum, en valsaði svo 16 og 6 mm fyrir botnstykkið og milli hringina. Fóturinn er 71 cm á hæðina og ofan á liggur svo borðplatan”, segir Hallgerður og bætir því við að smíðin hafi tekið um þrjá daga, og síðan hafi hún sent fótinn til Helgu í Pólýhúðun.

Hvernig stólar verða við borðið? „Ég er ekki komin með stólana en langar að hafa fæturna á þeim sem einfaldasta til að taka ekki athyglina frá borðfætinum. Ég er svo sjúklega ánægð með hvernig hann heppnaðist,” segir Hallgerður að lokum og þar erum við hjartanlega sammála.

Hallgerður Kata smíðaði sitt eigið borðstofuborð.
Hallgerður Kata smíðaði sitt eigið borðstofuborð. mbl.is/Mynd aðsend
Lokaútkoman er glæsileg!
Lokaútkoman er glæsileg! mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is