Íslenska selleríið loksins komið í búðir

Hið margrómaða og góða íslenska sellerí er komið í verslanir en það er Garðyrkjustöðin Gróður, sem ræktar sellerí á bökkum Litlu-Laxár, sem ríður á vaðið. Íslenska selleríið er afar bragðmikið og hentar vel í fjölbreytta matargerð, þeytinga og safa. 

Stilksellerí eða blaðsilla líkist steinselju enda sömu ættar. Sá þarf fræinu í mars í gróðurhúsi og er plantað út í byrjun júní. Til að ná góðri uppskeru er best að planta henni í upphitað land og undir dúk sem er síðan tekinn af þegar plönturnar eru komnar í góðan vöxt.

Besti geymsluhitinn er 0-2°C. Sellerí er mjög geymsluþolið og sé það geymt í réttu hitastigi getur það geymst í rúmlega tvær vikur við kjöraðstæður. Selleríi hættir mjög til að tapa vatni og þar með þyngd og þarf því að vera í miklum raka. Passið því að geyma það í plasti eða þeim umbúðum sem það er selt í.

Sellerí hentar í allar gerðir af hrásalati, meðal annars er það mikilvægt hráefni í waldorfsalat. Auk þess má sjóða eða smörsteikja en þannig bragðast það afar vel með lambakjöti eða fiski. Sellerí hefur þó nokkuð verið notað í ídýfur nú í seinni tíð. Borða má alla hluta sellerísins.

mbl.is