Ekki nóg að taka mataræðið í gegn

Instagram/David Beckham

Það er ekki sjálfgefið að vera með fituprósentu undir stofuhita og halda sér í góðu formi. Það hefur Victoria Beckham hins vegar gert frá því hún var ung og það er ekki að sjá að hún sé rétt að verða fimmtug.

Sjálfsagi hennar er umtalaður en hún passar vel upp á mataræði sitt og vill helst fitusnauðan og hollan mat á borð við fisk og grænmeti. Hún segist þó ekki vera alheilög og gæðir sér á góðum vínum og stöku tekíla skoti.

Það er þó ekki nóg að passa upp á mataræðið þó það sé lykilatriði. Það þarf að halda skrokknum í lagi og hefur Beckham alltaf verið dugleg að hreyfa sig. Það hefur þó breyst á undanförnum árum og hefur hún horfið frá brennsluæfingar og einbeitt sér að styrktaræfingum. Æfir hún fimm sinnum í viku – líka þegar hún er í fríi. Hér má sjá mynd af henni sem eiginmaður hennar, David Beckham, birti á Instagram þar sem hún sést í bakgrunninum gera æfingar um borð í snekkju þeirra hjóna.

Við getum ekki annað en dáðst að henni enda sjálfsagi hennar aðdáunarverður.

En að öllu gamli slepptu er það þekkt að vöðvamassi fari að rýrna þegar líkaminn nær ákveðnum aldri og því afar mikilvægt að bæta góðum styrktaræfingum við eða skipta alfarið yfir í slíkar æfingar.

Instagram/Victoria Beckham
mbl.is