Nýi staðurinn fullbókaður alla daga

Gunnar Karl Gíslason opnaði nýverið nýjan veitingastað á Akureyri, er …
Gunnar Karl Gíslason opnaði nýverið nýjan veitingastað á Akureyri, er kallast North. mbl.is/

Nýverið opnaði veitingastaðurinn North á Akureyri, undir handleiðslu Gunnars Karls Gíslasonar meistarakokks með meiru - en hann rekur Michelin veitingastaðinn Dill í Reykjavík. Staðurinn þykir hinn glæsilegasti, enda ekki við öðru að búast er Gunnar Karl og hans teymi koma saman. 

Það hefur ekki verið lognmolla í kringum Dill þetta sumarið, því veitingastaðurinn lokaði tímabundið í sumar og færði sig yfir á danskar slóðir - nánar í Tívolíið í Kaupmannahöfn. Þar hafa þau eldað fyrir gesti frá öllum heimshornum og munu áfram gera fram um miðjan september. Og svona í millitíðinni opnaði Gunnar Karl nýjan stað á Akureyri, er kallast North. 

Við náðum tali af Gunnari sem staddur var í Kaupmannahöfn, en hann kom hingað til lands við opnun staðarins í þarsíðustu viku. Hann flaug beint frá Köben til Akureyrar, og sagði það hafa verið mjög þægilegan kost - sem við vitum að fleiri hafa tekið undir eftir að flugumferðin var opnuð þarna á milli. 

Færri réttir á seðli og ódýrari
Hvernig hafa viðtkökurnar verið? „Það hefur gengið ótrúlega vel, og staðurinn verið meira og minna fullbókaður alla dagana. Heimamenn hafa verið mest að sækja staðinn en túristinn er þarna að sjálfsögðu líka. North er aðeins minni í sniðum en Dill í Reykjavík, eins færri réttir á matseðli og ódýrari“, segir Gunnar Karl í samtali og bætir við; „Við reynum að notast við hráefni að norðan og viljum gera bændum þar hátt undir höfði - enda fyrsta flokks hráefni sem maður gengur þar að“, segir Gunnar Karl að lokum. Þeir sem vilja kynna bragðlaukana fyrir nýrri upplifun, geta heimsótt North á Hafnarstræti 67 – Akureyri.

mbl.is/North.is
mbl.is/North.is
mbl.is
Loka