Íslenskt kóralkál og blátt blómkál á Bændamarkaðnum

Ljósmynd/Aðsend

Íslenskt kóralkál og heirloom-tómatar verða á Bændamarkaði Krónunnar nú um helgina. „Kóralkálið lítur út fyrir að vera frá öðrum heimi og heirloom-tómatar eru eins og tómatarnir litu út áður en þeir urðu allir eins; hnöttóttir og sléttir. Þeir eru allskonar,“ segir Jón Hannes Stefánsson, vöruflokkastjóri ávaxta- og grænmetis hjá Krónunni.

Rúm tíu tonn af íslensku grænmeti hafa selst á þessum árstíðabundna markaði um hverja helgi nú í september – umbúðalaust. „Við erum með blátt og appelsínugult blómkál, það vekur alltaf athygli og selst fljótt upp. Erum einnig með regnbogasalat. Það geymir salatblöð sem eru ekki ósvipuð grænkáli en lituð í leggjum og út í blöðin. Litríkt og skemmtilegt og allt ræktað á Íslandi,“ segir Jón Hannes. Þetta er sjötta haustið sem Bændamarkaður Krónunnar er haldinn og aðeins ein helgi eftir af fjórum.

Ásta S. Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar og forstjóri móðurfélagsins Festi, segir Bændamarkaðinn eina skemmtilegustu og mikilvægustu hátíð Krónunnar. En þar er brakandi ferskt grænmeti beint frá íslenskum bændum í boði án umbúða.

„Við viljum ýta undir áhugann hjá bæði börnum og fullorðnum á árstíðabundinni ræktun hér á landi og gefa þeim færi á að upplifa og njóta grænmetis í sinni allra ferskustu mynd,“ segir hún.

„Á sama tíma styður Bændamarkaðurinn við okkar sýn um að minnka plastumbúðir eins og mögulegt er og bjóða vörur með sem minnstu kolefnisspori. Ekki skemmir fyrir stemningin sem myndast á markaðnum en hún er í anda þess sem margir þekkja erlendis frá,“ segir Ásta.

Bændamarkaðurinn er settur upp í samvinnu við Sölufélag garðyrkjumanna. Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri þess, segir hann frábært tækifæri fyrir þá 65 bændur sem leggja inn til félagsins að prófa nýjar tegundir í sölu.

„Við kynnum það sem bændur eru að gera tilraunir með. Allskonar tegundir sem enn er lítið ræktað af hér á landi og henta því sérstaklega inn á Bændamarkaðinn. Þá þarf ekki að hugsa um pakkningar og umbúðir. Það er gaman að geta boðið upp á tímabundnar nýjungar,“ segir hún.

Jón Hannes segir fyllt á Bændamarkaðinn, allt nýuppskorið, á morgun, laugardag. „Fólk lætur vel af þessu og við finnum að sala á káli og grænmeti eykst á meðan á þessu stendur. Þetta er upplifun og gaman að koma í búðirnar og fylgjast með viðskiptavinum kynnast þessu nýja íslenska grænmeti sem það hefur jafnvel aldrei áður séð.“

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is