Siggi’s býður sjö milljónir fyrir Íslandsferð

Skyrframleiðandinn Siggi’s Skyr í Bandaríkjunum býður nú einum heppnum að fara til Íslands og kynna sér þar leyndardóminn á bak við lífstíl landans.

Fyrirtækið segist á undanförnum árum hafa hvatt fólk til að endurskilgreina hvað skipti það mestu máli. Lífstíll fólks sé að breytast og margir leiti að einfaldari tilveru sem byggi á frelsi og sveigjanleika.

Nýrri herferð hafi nú verið hrundið af stað sem ber titilinn "less sets you free" sem boðar aukin lífsgæði með einfaldeika í fyrirrúmi. Hluti af herferðinni sé að bjóða upp á einstakt tækifæri fyrir áhugasaman á Íslandi.

Sá sem fyrir valinu verður mun hljóta titilinn Chief of Simplicity Offi-Skyr sem er amerískur orðaleikur en viðkomandi fær ferð til Íslands til að kynna sér lífstíl heimamanna sem samkvæmt heimasíðunni er besti staður í heimi. Þar séu heimamenn óðum að tileinka sér fjögurra daga vinnuviku, lífsgæði séu mikil, fólkið vinalegt, náttúran falleg og öflugt menningarlíf.

Sá sem fyrir valinu verður þarf að vinna heilmikla rannsóknarvinnu á því hvað hægt sé að læra af Íslendingum, leggja til nýjar bragðtegundir fyrir skyrið sem endurspegla Ísland auk þess að búa til efni fyrir samfélagsmiðla fyrirtækisins.

Allur kostnaður verður greiddur auk þess sem allt að sjö milljónir séu í boði til að ráðstafa í ferðinni.

Áhugasamir geta sótt um HÉR.

mbl.is/Ómar
mbl.is