Bjórhátíð Ölverks haldin um helgina

mbl.is/Mynd aðsend

Brugghúsið Ölverk mun opna dyrnar og halda bjórhátíð þessa helgina – en þetta er í þriðja sinn sem hátíðin fer fram. Hér fara saman veigar í fljótandi og föstu formi í bland við hressandi tónlistaratriði. 

Á bjórhátíðinni í ár verða í heildina 35 framleiðendur, en síðast í gær var Qajaq Brewing frá Grænlandi að staðfesta komu sína í Hveragerði. Íslensku framleiðendurnir koma alls staðar af landinu og framleiða allskyns ljúffenga drykki. En það eru ekki einungis bjórframleiðendur á hátíðinni, því einnig verður hægt að smakka ýmislegt annað eins og viskí, gin, landa, líkjöra, mjöð, kokteila, Kombucha, gos, bjórís, súkkulaði, osta og fleira.

Við náðum tali af Laufeyju Sif Lárusdóttur sem rekur Ölverk ásamt manni sínum Elvari Þrastarsyni bruggmeistara og hafði þetta að segja. 

„Hann er skemmtilegur hinn semí-norræni vinkill sem hefur skapast í kringum þessa hátíð, en í ár koma framleiðendur frá Íslandi, Grænlandi, Færeyjum og Bretlandi. Hver veit nema við náum að sannfæra eitthvað brugghús frá Álandseyjum til þess að mæta á næsta ári,“ segir Laufey í samtali. 

Bjórhátíð Ölverk fer fram um helgina.
Bjórhátíð Ölverk fer fram um helgina. mbl.is/Mynd aðsend

Paco er það nýjasta á matseðli

Gestir bjórhátíðarinnar geta svo sannarlega farið að hlakka til, því fyrir utan línulega dagskrá í mat og drykk - þá mun Ölverk kynna til leiks nýjung á matseðli sem kallast 'Paco', en það er soft taco pítsa sem Elvar hefur verið að þróa undanfarna mánuði og er sannkallaður bragðlauka rússibani að sögn Laufeyjar. 

„Í sölu verða fjórar mismunandi tegundir af Paco sem koma allar ferskar úr pítsofninum okkar. Kínverskt chorizo Paco þar sem Spánn og Mexíkó mætast í pítsu/taco. Síðan er það kínverskt (vegan) chorizo Paco, en á báðum réttunum verðum við með Ölverk ananas salsa sem fæst í mildri og sterkri útgáfu. Einnig má finna Eldtungu sósuna Gosi, en hún líkt og aðrar sósur úr okkar framleiðslu er framleidd á Ölverk úr íslenskum chili sem við fáum frá Oddi frænda á Brautarhóli sem ræktar allt það chili sem við notum í sterku sósunum okkar. Þeir sem vilja aukalegan hita geta þá skvett duglega af Eldtungum sósunum okkar á alla rétti. Eins bjóðum við upp á Kimchi túnfisk bræðings Paco sem sérlöguðu kimchi túnfisk salati. Eftirréttur bjórhátíðarinnar verður PJ Paco, sem er himneskt soft taco með hnetusmjöri og hindberjasultu,“ segir Laufey og við fáum vatn í munninn. 

mbl.is/Mynd aðsend

Bratwurst pylsur og tónlistarveisla

Það er ekki allt upptalið, því eins verða til sölu Bratwurst pylsur og sérgerðar pretzels frá GK bakarí á Selfossi, en báðum réttunum fylgja sérgerðar Ölverk sósur. Eftir klukkan átta um kvöldið, báða dagana, hætta allir framleiðendur að gefa bjórhátíðargestum að smakka af sinni framleiðslu og hefst þá í ylræktar gróðurhúsinu þar sem hátíðin fer fram - hefðbundin barsala og tónlistarveisla sem stendur til klukkan eitt um nóttina. Eftirfarandi tónlistarflytjendur munu koma fram á hátíðinni - hljómsveitin Sykur, BlazRoca, hljómsveitin Gosi, Herbert Guðmundsson, FM Belfast (DJ sett), DJ Yamaho, Atli Kanill og DJ Ewok. Það er augljóst að stuðið verður í hámarki þessa helgina í Hveragerði, en aðgangur að aðaltónlistarveislunni fylgir að sjálfsögðu öllum þeim pössum sem keyptir eru. Öðrum gefst tækifæri að greiða sig inn eftir klukkan 21:30 og er hægt að nálgast miðakaup HÉR. Það er engin ástæða til annars en að mæta og lyfta sér upp þessa helgina. 

Það var mikið lagt upp með skreytingar á síðust hátíð.
Það var mikið lagt upp með skreytingar á síðust hátíð. mbl.is/Mynd aðsend
Laufe Sif, annar eigandi Ölverk.
Laufe Sif, annar eigandi Ölverk. mbl.is/Mynd aðsend
mbl.is