Matarmarkaður smáframleiðenda hefst á morgun

Kristinn Magnússon

Það er alltaf spennandi þegar smáframleiðendur matvæla á Íslandi fá sviðið til að kynna afurðir sínar. Þar kennir ýmissa grasa enda nýsköpun í matvælaframleiðslu hér á landi mikil.

Matarmarkaður Hagkaups hefst formlega þann 6. október en annað kvöld verður riðið á vaðið í Hagkaup Smáralind þar sem blásið verður til mikillar veislu þar sem framleiðendur munu mæta og kynna vörur sínar. Að auki munu kokkarnir í Sælkerabúðinni, sem nýlega opnuðu kjötborð í Hagkaup Kringlu og Garðabæ, standa vaktina og bjóða gestum og gangandi upp á ljúffengt smakk auk þess sem Ragnheiður Gröndal flytur ljúfa tóna milli 19-20.

Að sögn Evu Laufeyjar Hermannsdóttur, markaðs- og upplifunarstjóra Hagkaups, skiptir það sköpun að stór fyrirtæki á borð við Hagkaup styðji við bakið á smáframleiðendum en fyrirtækið hefur ávallt verið í fararbroddi við að taka vörur smáframleiðenda í sölu en slíkt getur reynst afar snúið fyrir smáframleiðendur. Eins séu Hagar, móðurfyrirtæki Hagkaups, með sérstakan styrktarsjóð fyrir frumkvöðla á matvælasviði en styrkþegar ársins í ár munu einmitt kynna vörur sínar á matarmarkaðinum.

Það er því nánast skyldustopp í Hagkaup Smáralind annað kvöld enda ætti enginn að láta markaðinn fram hjá sér fara.

Markaðurinn hefst formlega í verslunum Hagkaups þann 6. október og stendur til 16. október.

mbl.is