„Ef þú þekkir ekki innihaldsefnin skaltu ekki borða það“

Karen Jónsdóttir eða Kaja eins og hún er alltaf kölluð.
Karen Jónsdóttir eða Kaja eins og hún er alltaf kölluð. Eggert Jóhannesson
Karen Jónsdóttir eða Kaja eins og hún er alla jafna kölluð fagnar miklum tímamótum í ár þegar fyrirtækið hennar, Kaja Organic, fagnar tíu ára afmæli. Undanfarinn áratugur hefur að sögn Kaju verið mikill umbrotatími og margt hafi breyst til hins betra. Það er þó ýmislegt sem Kaja myndi vilja breyta þegar kemur að hugmyndum okkar um hollustu og hvað sé raunverulega gott fyrir heilsuna.

„Fyrirtækið varð eiginlega til af því að ég vildi skapa atvinnu fyrir sjálfa mig. Ég var orðin þreytt á að keyra stöðugt á milli og langaði til að búa til mitt eigið hér á Akranesi,“ segir Kaja um orsök þess að hún stofnaði fyrirtækið. Ástríða hennar fyrir heilnæmri fæðu hófst þó löngu fyrr eða þegar hún greindist með krabbamein þegar hún gekk með annað barn sitt. „Ég var 28 ára gömul og eðlilega í miklu áfalli. Faðir minn hafði látist úr krabbameini ári fyrr og ég var staðráðin í að gera allt til að ná heilsu. Ég sökkti mér því í mikla rannsóknarvinnu á mataræði og varð heilluð af því sem ég las. Við erum það sem við borðum og því skiptir öllu máli hvað við látum ofan í okkur.“

Miklar breytingar

Kaja segir að reksturinn undanfarinn áratug hafi einkennst af miklum og stöðugum breytingum. „Maður hefur þurft að vera mjög lausnamiðaður til þess að lifa af þegar maður er með lítið fyrirtæki á stórum markaði enda hefur Kaja Organic tekið miklum breytingum allt frá því að vera einungis innflytjandi sem seldi lífræna matvöru yfir í að reka litla verslun, kaffihús og framleiðsludeild. Ég hef alltaf haldið í grunnhugsunina en það er að vera lífrænt vottuð, huga að gæðum, góðri næringu og stuðla að heilsusamlegra líferni enda er það sem skiptir mestu máli í lífinu að vera við góða heilsu.“

„Íslenski markaðurinn hefur líka gjörbreyst. Þegar ég byrjaði í rekstri voru þrjár verslanir; Lifandi markaður, Heilsuhúsið auk annarra einyrkja og lífræni geirinn var það sem taldist vera heilsugeirinn. Í dag finnst mér öllu vera snúið á hvolf. Nú eru það iðnaðarframleiddu fæðubótarefnin sem hafa tekið við hlutverki heilsufæðis auk tískubylgja. Fólk almennt er orðið mjög ruglað í hvað er hvað. Sumir halda að lífrænt sé vegan eða bara eitthvað sem er sykurlaust. Svo það vantar mikið upp á skilgreiningar hvað er hvað og hvað er hollt.

Maður fær fyrir hjartað og signir sig þegar erfðabreytt matvara með ágætis magni af iðnaðarframleiddum E-efnum er auglýst sem heilsuvara. Þá spyr maður sig: Hvar er heilsugeirinn á Íslandi staddur?“

Hollusta ekki persónulegt mat

„Í mínum huga er það ekki persónulegt mat hvað er heilsusamlegt og hvað ekki. Mikið unnin matvara, með efnum sem enginn veit hver eru, er ekki heilsuvara. Því segi ég að ef þú þekkir ekki innihaldsefnin, skaltu ekki borða það. Þess vegna vel ég lífrænan lífsstíl því hann hefur skilgreindan ramma utan um það sem má og má ekki. Lífrænt vottuð matvara er einungis unnin úr náttúrulegum hráefnum, engin eiturefni eru notuð við ræktun og því telst varan umhverfisvænni á allan hátt. Einnig er dýravelferð höfð að leiðarljósi þar sem við á. Þess vegna er lífrænt vottuð matvara alltaf hollari og betri valkostur.“

Fyrstu vörurnar sem Kaja setti á markað voru hráterturnar. „Í dag fást þær einungis í Matarbúri Kaju og Veganbúðinni. Í upphafi framleiddi ég fjórar tegundir fyrir kaffihúsið. Þar var engin eldhúsaðstaða svo það eina sem hægt var að gera voru hrákökur.“

Í dag framleiðir Kaja milli 25 og 30 vörutegundir sem framleiddar eru bæði til sölu í verslunum og til annarra, svo sem skóla og leikskóla. Sumar vörur eru árstíðabundnar og aðrar fara eingöngu í verslanir.

Kaja segir að fólk sé vissulega meðvitaðara um mataræði en það sé ekki meðvitaðara um hvað hollt mataræði sé. Þar vanti mikið upp á. „Því miður þá erum við mjög aftarlega á merinni hvað varðar heilsusamlegt mataræði enda sést það á aukningu á lífsstílssjúkdómum. Við erum miklu nær Bandaríkjamönnum í mataræði heldur en Evrópubúum - því miður.

Evrópa er langt á undan okkur hvað varðar lífrænan lífsstíl og kannski ekki skrítið þegar ráðamenn stofnana hér á landi neita að girða sig í brók og fara að kynna sér lífrænt. Við þá segi ég: Hættið að finna upp hjól sem getur ekki snúist.“

Aðspurð að því hverju Kaja myndi breyta ef hún mætti ráða stendur ekki á svari. „Ég myndi vilja að stjórnvöld feti í fótspor danskra og franskra stjórnvalda og setji reglur fyrir mötuneyti með það að markmiði að auka vægi lífræna hráefni í matnum. Danir segja 75% af allri fæðu í mötuneytum skuli vera lífrænt vottuð, Frakkar eru með 20% svo það væri flott ef Íslendingar yrðu þarna á milli til að byrja með. Þetta myndi auka eftirspurn eftir lífrænum hráefnum og styrkja lífrænan búskap.“

Auglýsir eftir fjárfesti

„Næst á dagskrá er að fara á fjárfestahátíðina Norðanátt því ég er að leita mér að fjárfesti svo ég geti farið í magnframleiðslu á jurtamjólk og útvíkkað þannig starfsemi Kaju. Í dag er ég að framleiða byggmjólk úr íslensku byggi í litlu magni en þar sem grundvöllur er kominn til þess að gera það hérlendis, þá finnst mér ekki annað hægt en að reyna það. Vélbúnaðurinn er fundinn og allt klárt. Það vantar bara peninga.“

Fagnað með nýjum umbúðum

Kaja segist hafa tekið þá ákvörðun að fagna afmælinu með nýjum umbúðum.

„Við fengum Prentmet Odda til að hanna með okkur nýjar umbúðir en auk þess að skipta um umbúðir þá settum við söluhæstu vörurnar okkar í íslenskan búning með nýju útliti. Með þessum breytingum náum við miklum árangri í umhverfisvernd auk þess sem viðskiptavinir okkar fá að njóta hagræðingar.“

„Við förum úr pokum úr niðurbrjótanlegum efnum sem framleiddir voru á erlendri grundu í einfalda pappaöskju með plastglugga. Með þessum breytingum náum við að minnka kolefnisspor okkar, aukna sjálfbærni, nota umbúðir úr hreinni og endurnýtanlegri orku, nota pappír úr nytjaskógum og styðja við íslenskt atvinnulíf.

Þessar breytingar gera okkur einnig kleift að lækka verð á tveimur vörutegundum og koma í veg fyrir aðrar verðhækkanir sem einnig er mikilvægt á þessum skrítnu tímum.

Við fengum jafnframt góða Skagakonu til liðs við okkur en það er jógakennarinn Guðrún Dögg Rúnarsdóttir sem verður andlit Kaju.“

Guðrún Dögg með nýju umbúðirnar.
Guðrún Dögg með nýju umbúðirnar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »