Nýr veitingastaður á besta stað í miðbænum

Steinþór Helgi Arnsteinsson, Glódís, Ásgeir og Davíð.
Steinþór Helgi Arnsteinsson, Glódís, Ásgeir og Davíð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er eiginlega heiður að fá að vera á besta stað á Laugavegi með splunkunýjan stað. Við erum búin að hafa opið í tvær vikur og það er því sem næst búið að vera fullt hérna öllum stundum,“ segir Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn aðstandenda veitingastaðarins Skreiðar sem nýverið var opnaður á Laugavegi 4.

Staðurinn er á þekktum bletti þar sem Reykjavíkurborg keypti lóðir Laugavegar 4 og 6 árið 2008. Mikill styr stóð um kaupin á sínum tíma og engin starfsemi hefur fest sig í sessi þar síðan. Laugavegur 4, þar sem Skreið er að finna, hefur staðið tómur síðustu sex ár hið minnsta en þar var miðstöð ferðamanna í nokkur ár á undan og ísbúð á jarðhæðinni.

Framkvæmdir í rúmt ár

„Þetta hús kom bara upp í hendurnar á okkur og það var næstum því fokhelt. Við höfum því verið í framkvæmdum í rúmt ár,“ segir Steinþór en hann og Ásgeir Guðmundsson, einn meðeigenda hans, hafa rekið skemmtistaðinn Röntgen við Hverfisgötu við góðan orðstír í rúm þrjú ár. Áður starfaði Ásgeir til að mynda á Bryggjunni brugghúsi og Steinþór sá um rekstur Vagnsins á Flateyri eitt sumar. Þar buðu hann og samstarfsfólk hans upp á spænskt eldhús rétt eins og er að finna á Skreið núna. Steinþór er hæstánægður með að hafa fengið Davíð Örn Hákonarson matreiðslumann með þeim í lið á nýja staðnum. Davíð hefur starfað mikið erlendis og komið fram í sjónvarpsþáttum síðustu ár.

„Ég var búinn að vera að nöldra í Davíð Erni meistarakokki um að mig langaði að gera eitthvað með honum og við náðum fljótt saman varðandi matinn. Hann þekkir vel matarhefðirnar í Baskalandi og nær að reiða fram einfalda og þægilega rétti úr góðu hráefni. Það er ekkert of mikið skraut og útkoman er frekar næs.“

Dýrka stemninguna í Baskahéraði

Spænskur andi svífur yfir vötnum á matseðlinum á Skreið enda segir Steinþór að eigendurnir séu hugfangnir af matarmenningunni þar í landi. „Ég hef farið nokkrum sinnum og dýrka stemninguna. Baskahérað er stærsta matarhérað á Spáni og liggur að Atlantshafinu svo það er öðruvísi fiskmeti þar en víða annars staðar,“ segir Steinþór en þar um slóðir er algengt að fólk fari á milli staða og smakki mismunandi baskneska tapasrétti, svokallaða pintxos.

Réttir á Skreið kosta frá 700 krónum upp í 2.500 krónur og ræðst það af stemningunni hjá hverjum og einum gesti hversu marga rétti hann fær sér. „Þú kemur og færð þér kannski drykk og nokkra rétti. Við lítum eiginlega ekki á þetta sem veitingastað, miklu fremur samkomustað fyrir fólk til að njóta sín í mat og drykk og hafa gaman í fallegu umhverfi.“

Bjartsýnn á gott gengi

Mikil umræða hefur verið undanfarið um erfitt umhverfi fyrir veitingafólk. Verðhækkanir á hráefni og launakostnaður hefur leitt til þess að margir veitingastaðir hafa hækkað verð. Auk þess má búast við að fólk þurfi að halda vel um budduna í því árferði sem nú er. Steinþór kveðst þó bjartsýnn á gott gengi Skreiðar. „Við sjáum ákveðna hagkvæmni varðandi skammtastærðir og hráefniskaup. Annars tel ég að ef staðurinn er næs, úrvalið, hráefnið og varan er góð þá komi fólk. Og ef svo er þá gengur þetta.“

Allir þurfa að leggjast á eitt

Ljóst er þó að allir þurfa að leggjast á árarnar. „Já já, Glódís eiginkona mín er verslunarstjóri í lítilli búð sem við erum með á jarðhæðinni og hún þjónar líka á staðnum. Svo hefur Katrín Steinunn kærasta Davíðs meðal annars verið í uppvaski. Það eru allir í öllu og hoppa í þau störf sem þarf.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »