Hildur breytti gömlum ísskáp á ótrúlegan hátt

Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt.
Hildur Gunnlaugsdóttir arkitekt. mbl.is/Facebook

Það eru fáir sem standa Hildi jafnfætis er kemur að því að vera úrræðagóð og hugmyndarík - en hér klæðir hún gamlan ísskáp í glimmerbúning, og útkoman er engu lík.

Hildur Gunnlaugsdóttir er arkitekt og hefur sannarlega áður ratað inn á matarvefinn með sniðuguar hugmyndir fyrir heimilið. Við heyrðum í Hildi sem sagði okkur aðeins nánar frá nýjasta verkefninu sínu, en hún deildi ferlinu á Instagram síðu sinni í vikunni.

Eldhúsið er 70 ára gamalt
Systir Hildar var að festa kaup á íbúð í Hlíðunum og hefur Hildur og fjölskyldan verið að hjálpa henni að koma íbúðinni í stand. „Eldhúsið í íbúðinni er yfir 70 ára gamalt, en systir mín ákvað að halda því öfugt við það sem örugglega margir myndu gera. Innréttingar frá þessum tíma eru gerðar úr gegnheilum við sem hægt er að pússa og það getur verið svo gaman að gera þær upp ef þær eru heilar. Ég get klárlega mælt með því að fólk skoði þann möguleika í stað þess að rífa strax út gömul eldhús,” segir Hildur í samtali.

Ísskápurinn er keyptur á Bland en hann reyndist mun beyglaðari þegar hann kom á staðinn en sást á myndunum svo eitthvað varð að gera. „Við systurnar vorum í Bauhaus og sáum þessa glimmer filmu og hún heillaði okkur strax. Þá datt mér í hug að filma ísskápinn! Við hefðum örugglega aldrei tímt því að filma glænýjan ísskáp þannig að þessi gamli ísskápur með sínum beyglum var í raun himnasending. Gulnaða plastið á honum var síðan pússað, grunnað með heftigrunni og lakkað í sama lit og eldhúsinnréttingin,” segir Hildur.

Er þetta flókið verk að filma ísskáp?
„Þetta er í raun ekki flókið, en krefst mikillar einbeitingar og þolinmæði. Við tókum filmuna af neðri hlutanum og settum hana á aftur. Í seinna skiptið settum við vatn með sápu á ísskápinn áður en við filmuðum og það var mun auðveldara. Við endum síðan á að nota restina í að filma líka uppþvottavélina - og nú erum við bara að leita að öðru sem hægt er að filma. Okkur líður smá eins og við séum með okkar eigin Extreme Makeover Home Edition þátt á instagrammninu mínu og reynum að hafa gaman af,” segir Hildur að lokum.

Hér fyrir neðan má sjá nánar hvernig þær systur mastera þetta verkefni og gera það vel.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert