Ómótstæðilega góð ommeletta toppuð með sprettum

Ómótstæðileg ommeletta toppuð með ferskum sprettum.
Ómótstæðileg ommeletta toppuð með ferskum sprettum. Ljósmynd/Aðsend

Ef þig langar að galdra fram morgunverð eða hádegisverð á örskammri stundu sem er bæði saðsamur og góður er ommeletta málið. Hægt er að leika sér með alls konar ljúfmeti í ommelettu og hver og einn getur valið það sem honum finnst best í ommelettu. Hér er ein ómótstæðilega góð ommeletta þar sem grænmetið fær að leika aðalhlutverkið. Svo er galdurinn að setja nógu mikinn ost á ommelettuna, en bráðinn ostur er veislukostur. Til að toppa ommelettuna þá eru ferskar sprettur ómótstæðilega góðar á ommelettu auk þess sem þær gera ommelettuna svo fallega. Uppskriftin miðast við eina stóra ommelettu.

Ommeletta með grænmeti og ferskum sprettum

  • 3 egg
  • ¼ dl rjómi (má sleppa)
  • ½ rauð paprika, smátt skorin
  • ½ græn paprika, smátt skorin
  • 1 stk. vorlaukur, smátt skorinn
  • Rifinn mozzarella ostur eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Ólífuolía eða smjör til steikingar
  • Ferskar sprettur að eigin val, ef ekki er hægt að fá sprettu má nota ferska steinselju (fást hjá Vaxa og Aldingróðri)

Aðferð

1. Byrjið á að hita ólífuolíu eða smjör á meðal stórri pönnu.

2. Pískið saman egg ásamt rjóma ef vill. Má sleppa rjómanum.

3. Setjið papriku og vorlauk á heita pönnuna og létt steikið.

4. Hellið eggjablöndunni yfir grænmetið á pönnunni og látið steikjast.

5. Sáldrið yfir ommelettuna mozzarella osti eftir smekk á meðan hún er að steikjast.

6. Steikið þar til ommelettan hefur tekið sig.

7. Brjótið ommelettuna í hálfmána og setjið á disk.

8. Toppið ommelettuna með ferskum sprettum að eign vali

9. Berið ommelettuna fallega fram og upplagt er að bjóða upp á franskt Dijon sinnep með.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert