Fyrirliði kokkalandsliðsins sviptir hulunni af matarvenjum sínum

Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins er mikill matgæðingur og …
Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins er mikill matgæðingur og elskar að gera vel við sig í mat og drykk. mbl.is./Eyþór Árnason

Ísak Aron Jóhannsson fyrirliði íslenska kokkalandsliðsins sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni.Hann vinnur við ýmis verkefni sem matreiðslumeistari, aðallega þó að elda prívat fyrir erlenda ferðamenn. Ísak hefur mikla ástríðu fyrir starfi sínu og nýtur þess að dekra við matargesti sína.

Hann er mikill matgæðingur og elska að gera vel við sig í mat. „Matarvenjur mínar ganga út á það að ég reyni að borða sem hreinast, mér líður best þegar ég borða mat sem er ekki mikið unninn. Engu að síður leyfi ég mér stundum að fá mér nammi eða eitthvað álíka, en dags daglega borða ég ávexti, hreinar mjólkurvörur, kjöt, fisk og pasta,“ segir Ísak.

Undirbúningur fyrir Ólympíuleikana

Miklar annir eru hjá Ísaki þessa dagana. „Haustið verður annasamt þar sem við í kokkalandsliðinu erum að keppa á Ólympíuleikunum í Stuttgart í febrúar, undirbúningurinn er mikill og reynir maður að halda jafnvægi með því og einnig vinnu. Mér hlotnaðist sá heiður að vera fyrirliði liðsins þetta tímabil svo ég er mjög spenntur að fara út og keppa fyrir Íslands hönd.“ 

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Á morgnana fæ ég mér hreint skyr, hunang og ávexti en ef ég á rólegan dag og vil gera vel við mig þá fæ ég mér 5 egg „sunny side up“og nokkrar sneiðar af beikon.“

Borðar þú oft á milli mála og þá hvað helst?

„Á venjulegum degi tek ég með mér skorna niður ávexti líkt og appelsínur, perur og banana en stundum þegar ég er nýbúinn á æfingu fæ ég mér harðfisk.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Nei, alls ekki fyrir mig, ég sleppi oft hádegisverð því maður er oft á hlaupum en ég bæti það upp með stórum morgunmat og kvöldverð, engu að síður finnst mér gott að gera vel við mig og fá sér góðan hádegisverð.“

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Ég á alltaf til kjöt og fisk, hvort sem það er lax, kjúklingur, naut, lamb eða þorsk. En það mest mikilvægasta er íslenska smjörið, það má ekki vanta.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að elda heima?

„Ég er nýkominn með pítsaofn heim svo það er í miklu uppáhaldi að henda í súrdeigspítsu.“

Lúðusteik með brenndu smjöri

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„6 daga „dry aged“ lúðusteik, að leyfa heilli lúðu að hanga inn á þurrum kæli í 6 daga og grilla síðan steikur með nóg af brenndu smjöri á miklum hita er sturlað. Með því að leyfa henni að hanga kemur heslihnetu keimur og áferðin verður unaðsleg.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig í mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„OTO er klárlega heitasti staðurinn þessa stundina, Siggi Lauf og teymið hans eru að gera frábæra hluti, hann er heitasti staðurinn til að fara áog eiga gott kvöld.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Frantzén, 3 stjörnu Michelin-staður í Stokkhólmi, Svíþjóð. Ég bíð bara eftir því að einhver nenniað fara með mér þangað.“

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Þær eru margar en ein sú minnisstæðasta er að fara á Slippinn í Vestmannaeyjum hjá Gísla Matt, hann og teymið hans eru að gera frábæra hluti þar. Hugsunin bak við upplifunina er miklu meira en bara matur.“ 

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Versta sem ég hef smakkað er líklega sjóeldis lax.“ 

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Uppáhaldið mitt er alltaf Gordon Ramsay, ólst upp við að horfa á efni frá honum og ég hef alltaf haft hann sem fyrirmynd. En kokkurinn sem ég lít upp til er Viktor Örn Andrésson, hann kenndi mér margt og mikið.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Creamy lemonade, ertu að grínast hvað það er gott. En ef ég er að fara hella í mig þá er það gin og tonic.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert