Safa sviptir hulunni af matarvenjum sínum

Safa Jemai sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni …
Safa Jemai sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni en hún er mikill matgæðingur og elskar að borða kryddaðan mat. Ljósmynd/Gróska

Safa Jemai sviptir hulunni af matarvenjum sínum að þessu sinni. Safa er fædd og uppalin á Túnis en flutti til Íslands árið 2018 til að læra hugbúnaðarverkfræði. Safa er hugbúnaðarverkfræðingur sem lætur verkin sannarlega tala en meðfram framkvæmdastjórastöðu í hugbúnaðageiranum stofnaði hún fyrirtækið Mabrúka í kringum heimagerð krydd frá heimalandi sínu sem móðir hennar gerir. Safa er mikill matgæðingur og elskar að snæða kryddaðan mat.

„Ég hef mikinn áhuga á tækni og mat og mér fannst alltaf gaman að elda fyrir vini mína með kryddinu sem ég fæ frá mömmu minni. Eftir fimm ár á Íslandi, hef ég náð að stofna fyrirtæki úr áhugamálum mínum. Mabrúka sem býr til handgert og sólþurrkað krydd frá Túnis svo Víkonnekt sem er hugbúnaðarfyrirtæki.“

Elskar krydd

Safa elskar að snæða ljúffengan mat og þá skiptir bragðið hana miklu máli. „Eitt sem ég get sagt þér strax og það er að ég elska krydd! Ég bæti við krydd á allt, ég veit að það hentar ekki alltaf en smá cayennepipar eða pipar hjálpar til að gera bragðið enn betra. Annað sem mér finnst spennandi að gera eftir að Mabrúka byrjaði að flytja inn handgerða Harissa er að setja Harissa til hliðar á disknum mínum eða á brauð eða í sósu. Algjört sælgæti.“

Hvað færðu þér í morgunmat?

„Ég hef náð að breyta matarvenjum mínum í morgunmatnum gegnum tíðina. Loksins í Covid tókst mér að byrja að borða heimagerðan hafragraut. Við setjum vatn, banana og haframjöl saman og hita í smá tíma. Setjum svo grautinn í skál og skreyti hann með rúsínum, kókosflögum goji berjum og hnetusmjöri. En þegar ég vakna snemma til að fara í Pilates tíma um klukkan 6.20 þá næ ég ekki að fá þennan dekur morgunmat. Þá finnst mér best og mest praktískt að fá orkuþeyting með prótein til að ná að taka alla morgunfundi. Mér finnst rosalega gaman að vakna snemma og taka morgunæfinguna áður en vinnan hefst. Það er mikilvægt fyrir mig að styrkja hugann með að vakna snemma, æfa, taka kalda sturtu. Þetta allt hefur áhrif á líkamann og hugann sem hjálpar mér að eiga góðan vinnudag með skilvirka með teyminu okkar.“

Borðar þú oft á milli mála og hvað þá helst?

„Ég er háð kaffi, þannig að ég byrja ávallt á því fá mér kaffi með fyrsta fund dagsins sem er klukkan átta á morgnana. Gaman að segja frá því að ég elska að fá svart kaffi úr Sjöstrand kaffivélinni. Það hjálpar mér mikið með einbeitinguna. Ég fæ mér ekkert á milli morgunmatar og hádegismatar. En eftir hádegismatinn, í kringum klukkan þrjú finnst mér ljúft að fá súkkulaði eða karamelludöðlur.“

Finnst þér ómissandi að borða hádegisverð?

„Stundum gleymi ég mér í vinnunni og þá gleymi ég að borða. Ég er meðvituð um að þetta er ekki góð venja og veit að margir frumkvöðlar upplifa hið sama. Hins vegar er ég oftast með snakk á skrifstofunni sem ég get gripið ef ég finn að mig vantar meiri orku til að brenna.

En þegar ég er hef tíma þá fer ég út að borða í hádeginu og fæ mér þá gjarnan fisk með vinum í miðbænum.“

Á alltaf til egg í ísskápnum

Hvað áttu alltaf til í ísskápnum?

„Það eru alltaf egg í ísskápnum. Það er svo margt sem hægt að gera úr eggjum. Maður getur bakað köku, eldað Shakshuka eða bara soðið eggin. Við eigum líka oft grænmeti af því okkur finnst mikilvægt að bæta grænmeti í alla réttina okkar.“

Uppáhaldsgrillmaturinn þinn?

„Okkur finnst rosalega gaman að fá gott kjöt, krydda það með blöndu fyrir lamb frá Mabrúka og bæta við smá salti. Ég elska líka að grilla grænmeti með smá kryddi og ólífuolíu. Hins vegar er líka skemmtilegt að grilla brauð og bæta við zaatar.“

Þegar þú ætlar að gera vel við þig mat og drykk og velur veitingastað til að fara á hvert ferðu?

„Þetta er erfið spurning! Ég á marga uppáhalds veitingastaði hér heima og kokka sem við erum í samstarfi við í Mabrúka. Ég elska að fara að Duck & Rose með vinkonum mínum, aðalkokkurinn á Duck and Rose tekur ávallt vel á móti okkur og þau eru með frábæra þjónustu. Mér finnst rosalega gaman að fara á Sumac, gæðin í matnum eru alltaf eins þarna, þjónustan er frábær. Sumac er „my go-to place“ ef ég er að bjóða til að mynda einhverjum í kvöldmat í tengslum við vinnuna.“

Er einhver veitingastaður úti í heimi sem er á bucket-listanum yfir þá staði sem þú verður að heimsækja?

„Ég er mjög spennt fyrir því að fara til Japans og upplifa matarmenninguna þar. Matarmenning Japans er mjög sterk og fjölbreytt. Þar er einn veitingastaður sem er í óskalistanum mínum. Það er Wagyumafia. Hann býður upp á Wagyu japanskt naut.“

Matarupplifunin á Óx stendur upp úr

Hvaða matarupplifun stendur upp úr í lífi þínu?

„Ég mun aldrei gleyma þegar ég fór á Óx í fyrsta sinn. Það var þegar Óx var enn í sama húsi og Sumac. Ég hef farið á marga Michelin-stjörnustaði en Óx stendur upp úr. Þráinn sem er aðalkokkurinn og stofnandi Óx var þarna á vaktinni, hann talaði við alla gesti, ekki bara um mat heldur líka sýndi þeim áhuga og spurði hvaða þeir voru koma eða hvað þeir gera og svo framvegis. Við ræddum alls konar þetta kvöld. Eitt af umræðuefni okkar var hugmyndin um að stofna krydd brand. Það var í nóvember 2020. Ég sagði Þránni að ég væri að hugsa um að stofna fyrirtæki með mömmu minni sem býr til handgert og sólþurrkað krydd. Hann var mjög spenntur fyrir því og sagði já, endilega, okkur vantar góð krydd á Íslandi! Þessi jákvæð svör sem ég fékk frá honum hvatti mig til að halda áfram að hafa samband við aðra kokka og finna hvort hugmyndin væri raunhæf.“ 

Hvað er það versta sem þú hefur bragðað?

„Kanínukjöt! Þegar ég var lítið, keypti afi minn einu sinni kanínukjöt til að elda í súpu. Þetta er sætt kjöt, sem ég mun aldrei borða það aftur. Það var mjög skrítið bragð af kanínukjötinu, ég bjóst ekki við að kjötbragðið væri svona sætt.“

Uppáhaldskokkurinn þinn?

„Margrét Ríkharðs, yfirkokkurinn á Duck & Rose. Hún er dugleg, ákveðin og hvetjandi. Það eru fáar konur í matargeiranum sem starfa sem kokkar. Það er alltaf gaman að sjá hvað Margrét og aðrar konur að standa sig vel í þessum geira.“

Uppáhaldsdrykkurinn þinn?

„Íslenska vatnið! Bara svona einfalt af því ég elska einfalt og „basic“. Maður gleymir oft hvað vatn er góður og nauðsynlegur drykkur. En líka íslenska vatnið er best í heimi!“

Ertu góður kokkur?

„Stundum þegar ég hef tíma. Mér finnst gaman að elda um helgar. Það er gaman að elda íslenskan mat og bæta við smá túnisku bragði með kryddi eða Harissu frá Mabrúka Ég nýt þess líka að elda túniskan mat eins og Shakshuka, Tajina eða kúskús. Ég mæli með að kíkja á heimasíðu Mabrúka og panta Harissu maukið okkar. Harissa er chilli paste sem passar fullkomlega fyrir kjúkling, súpu, vegan rétti og margt fleira, bragðið mun koma ykkur á óvart.“

mbl.is