Fetabakan uppáhaldsrétturinn hennar Nönnu matgæðings

Fetabakan er nýstárlegur og frumlegur réttur sem kemur úr smiðju …
Fetabakan er nýstárlegur og frumlegur réttur sem kemur úr smiðju Nönnu Kristjánsdóttir matgæðings með meiru. Samsett mynd

Á dög­un­um skoraði Atli Sigurðarson, matgæðingur, á vinkonu sína Nönnu Kristjánsdóttur, sagn­fræðing­inn og sögu­kenn­ar­a, að taka við kefl­inu af sér og ljóstr­ar upp sín­um upp­á­halds­rétti. Nanna tók áskor­un­inni vel og sviptir hér hulunni af sín­um upp­á­halds­rétti sem er með grísku ívafi og í grunninn kominn frá eldhúsgyðjunni miklu Nigellu Lawson. 

Dýrmætustu stundirnar í eldhúsinu og við matarborðið

Nanna er þrítug og starfar sem sögukennari við Verzlunarskóla Íslands og eitt að hennar helstu áhugamálum er að elda fyrir sig og kærastann. „Ég bý með kærastanum mínum og kisunni okkar í lítilli íbúð í Vesturbænum, Ég hef sérstaklega gaman af ítalskri, danskri, þýskri og grískri matargerð, en elda þó allt milli himins og jarðar. Bestu helgarnar hjá mér og kærastanum mínum felast í því að ég eldi helst morgunmat, hádegismat og kvöldmat fyrir okkur, og jafnvel að ég baki líka. Það getur þó verið áskorun að elda fyrir tvo, það er yfirleitt mjög mikill afgangur hjá okkur en mamma og pabbi fá þá bara að njóta góðs af því og fá afganginn. Kisa fær líka alltaf að smakka ef það er fiskur, kjúklingur eða nautakjöt í matinn. Allar okkar dýrmætustu stundir á heimilinu fara fram í eldhúsinu og við matarborðið. Mér þykir líka best að sýna fólki væntumþykju með því að gefa því að borða, ef ég fengi að ráða væri fólk í mat annað hvert kvöld,“ segir Nanna. 

Hefur þú ávallt haft gaman að því að matreiða og baka?

Ég hef alltaf verið mikill matgæðingur, og man ekki eftir mér öðruvísi en að hjálpa mömmu í eldhúsinu. Ég var því frekar ung þegar ég byrjaði að elda sjálf fyrir mömmu og pabba, líklega um fermingu. Fyrir það var ég farin að baka ýmislegt sætt sem ég hafði lært í heimilisfræði, en ég var sennilega ekki nema um fimmtán, sextán ára gömul þegar ég var búin að taka við öllum jólabakstri á heimilinu. Jólin eru mjög mikilvægur tími fyrir mér, og ég baka á hverju ári í það minnsta sex sortir sem ég býð svo upp á eða færi vinum og ættingjum. Í fyrra byrjaði ég að gera mitt eigið laufabrauð, það kom mjög vel út og ég hlakka til að prófa aftur í ár. Jólin mega svo varla koma án þess að ég fái humarsúpuna hennar mömmu, eða aðventubrauð tengdamömmu minnar, en ég á enn eftir að fullkomna þá rétti eins vel og þær gera þá.

Ferðalög hafa mikil áhrif á matargerðina

Hvar færðu innblásturinn?

Fyrst og fremst frá fólkinu í kringum mig, mömmu minni og pabba, hann hefur kennt mér að kunna að meta skötu, hamsatólg og kjöt í karrí. Svo fæ ég líka innblástur frá systkinum mínum og tengdaforeldrum. Ég er líka umkringd fólki sem þykir gaman að borða og það gerir matreiðsluna skemmtilegri. Ferðalög hafa líka haft mikil áhrif á mig, ég bjó á Ítalíu sem barn og það mótaði mig afar mikið. Við bjuggum í borginni Siena í Toskana-héraði, en maturinn þar er að mörgu leyti ólíkur hugmyndum okkar um ítalskan mat, mikið af súpum, grilluðu grænmeti og kjöti og kássum með kanínukjöti eða villigelti. Þegar ég fer til Danmerkur þykir mér ómissandi að fá mér smurbrauð, og nýti innblásturinn af því til að gera smurbrauð fyrir vini mína. Eitt það besta sem ég fæ er snitzel og bjór í Þýskalandi. Ég fór með fjölskyldunni minni til Krítar árið 2017 og uppgötvaði þar snilli grískrar matargerðar, sem er að mínu mati mjög vanmetin. Ég fékk þar grískt salat í hvert mál, en eftirminnilegasta máltíðin var klárlega hjá gömlum hjónum á sveitabæ, en þau elduðu fyrir okkur kássu með grísakjöti, grænum baunum og kartöflur. Heiðarlegri mat er varla hægt að hugsa sér, en þetta er ein besta máltíð lífs míns. Ég elska einfaldan mat úr vönduðu hráefni, og draumurinn er einn daginn að geta ræktað mitt eigið grænmeti og jafnvel að halda hænur,“ segir Nanna dreymin á svip. 

Innblásin af ást minni á grískum fetaosti

Hvað er uppáhaldsrétturinn þinn?

Það er alvöru áskorun að velja eftirlætisrétt, en ég ákvað á endanum að fara grísku leiðina. Þetta er uppskrift sem er innblásin af ást minni á grískum fetaosti, en á ferðalögum mínum um Grikkland hef ég fengið allskonar bökur og bakkelsi með fetaosti. Þegar ég kom heim fór ég á stúfana og fann uppskrift að fetaböku frá drottningunni sjálfri Nigellu Lawson, sem á sjálf þátt í því að móta mig sem kokk þar sem ég horfði mikið á þættina hennar sem barn. Ég breytti uppskriftinni aðeins og bætti við og býð yfirleitt upp á bökuna með einföldu grísku salati og reyktum silungi. Þessi uppskrift er engan vegin ósvikin grísk uppskrift, en hún minnir mig engu að síður á góðar stundir við Miðjarðarhafið.“

Á hvern viltu skora næst til að taka við kefl­inu af þér og svipta hul­unni af sín­um upp­á­halds rétti fyr­ir les­end­um mat­ar­vefs­ins?

Ég skora á tengdaforeldra mína, Svavar Þór Guðmundsson og Hildi Elísabetu Pétursdóttur að taka við keflinu af mér.“

Fetabaka

Fyrir 4-6

  • 400 g filo-deig (fæst t.a.m. í Istanbul Market á Grensásvegi)
  • 350 - 400 g grískur fetaostur
  • 190 g brætt smjör
  • Rifinn pecorino romano-ostur eftir smekk (hægt að nota parmesan eða grana padano í staðinn)
  • 3 stór egg
  • 225 ml mjólk
  • Ferskt timian eftir smekk
  • Sesamfræ eftir smekk
  • Hunang eftir smekk
  • Chili-flögur ef vill 

Aðferð:

  1. Setjið lag af filo-degi í botninn á eldföstu móti (u.þ.b. 25x35 cm) og dreypið 2-3 matskeiðum af smjöri yfir.
  2. Myljið þriðjung af fetaostinum yfir, ásamt pecorino romano og fersku timian eftir smekk. Krumpið saman þriðjung af filo-deiginu sem eftir er og raðið ofan á ostinn.
  3. Passið að hafa deigið ekki of þétt pakkað, annars bakast það ekki í gegn.
  4. Endurtakið leikinn tvisvar sinnum þar til allt deig og ostur er komið í mótið.
  5. Síðasta lagið á að vera lag af filo-deigi.
  6. Hrærið saman egg og mjólk.
  7. Stingið 15-20 göt á bökuna með beittum hníf og hellið eggjablöndunni yfir.
  8. Passið að blandan renni í götin en liggi ekki ofan á deiginu.
  9. Dreifið sesamfræjum yfir bökuna og látið bökuna standa í u.þ.b. hálftíma áður hún er látin bakast í 200 °C heitum ofni í 30-45 mínútur, eða þar hún hefur tekið á sig gullin lit.
  10. Látið kólna í 10 mínútur og berið svo fram með hunangi og chili-flögum fyrir þá sem vilja.

Grískt salat

  • 4 vel þroskaðir tómatar
  • 1 agúrka
  • ½ hvítur laukur
  • 1 græn paprika
  • 4 msk. bragðmikil ólífuolía
  • 2 msk. rauðvínsedik
  • Salt eftir smekk
  • 1 msk. oreganó 

Aðferð:

  1. Laukurinn skorinn þunnt og látinn liggja í köldu vatni.
  2. Á meðan er restin af grænmetinu skorin í grófa bita.
  3. Laukurinn þerraður og öllu blandað saman í skál ásamt ólífuolíu, ediki, salti og oreganó. Borið fram kalt með heitri bökunni og reyktum silungi. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert