Elenora með Bollu Pop-Up á Kokku

Elenora Rós Georgsdóttir bakari kemur heim frá London full af …
Elenora Rós Georgsdóttir bakari kemur heim frá London full af nýjum innblæstri í bollubaksturinn og verður með Pop-Up á nýja kaffihúsinu á Kokku. Samsett mynd

Í tilefni þjóðhátíðardags bakara, bolludagsins sem fram undan er, ætlar Elenora Rós Georgsdóttir bakari að vera með Bollu Pop-Up á Kokku sunnudaginn 11. febrúar næstkomandi klukkan 10.00 og þjófstarta bolludeginum. Nýtt kaffihús er að opna í lífsstíls- og eldhúsversluninni Kokku að Laugavegi 47, í hjarta miðborgarinnar og þar mun Elenora fara á kostum og töfra fram sælkerabollur meðan birgðir endast.

Elenora er líka bókarhöfundur og hefur gefið út tvær bækur þar sem baksturinn er í forgrunni og vakið verðskuldaða athygli fyrir verk sín og persónuleikann sinn. Hún gefur mikið af sér til samfélagsins og kemur til dyranna eins og hún er klædd og hefur unnið hug og hjörtu þjóðarinnar.

Ást í fyrstu sýn

Hvernig kom það til að þú verður með Bollu- Pop-Up á nýja kaffihúsinu hjá Kokku?

„Ég hef verið aðdáandi Kokku í mörg ár og hef átt í góðu sambandi við teymið hjá Kokku síðastliðin ár. Þegar ég spurði fylgjendur mína á samfélagsmiðlum hvort þeir væru með hugmyndir af stöðum til að halda viðburðinn á hafði Anna Marín Bentsdóttir starfsmaður hjá Kokku, sem sér um nýja kaffihúsið, samband við mig. Hún benti mér á rýmið sem er til staðar á kaffihúsinu og sendi mér myndband af aðstöðunni og það var bókstaflega ást við fyrstu sýn. Rýmið er bjart og stórkostlega fallegt og ég gæti ekki ímyndað mér fallegri stað fyrir þennan viðburð. Ég heyrði því í Guðrúnu sem var meira en til að taka þátt í þessu með mér og við slógum til í að láta Bollu Pop-up-ið verða að veruleika,“ segir Elenora og lætur sig dreyma. 

Girnilegar bollurnar hennar Elenoru Rós.
Girnilegar bollurnar hennar Elenoru Rós. Ljósmynd/Elenora Rós

Allur ágóðinn rennur til Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar

Allur ágóðinn á Pop-Up-inu mun renna til Hinsegin félagsmiðstöðvarinnar en Elenora er iðin við að láta gott af sér leiða og tók þá ákvörðun að þangað færi ágóðinn.

Hvað kom til að þú ákvaðst að styrkja Hinsegin félagsmiðstöðinni?

„Í öll þau skipti sem ég hef verið með einhvers konar bakstursviðburð eða tekið að mér baksturverkefni líkt og þetta, hef ég gefið ágóðann til góðgerðarmála. Í upphafi þegar ég ákvað að setja af stað Bollu Pop-Up var ekkert endilega dagskránni að gera það í þetta skiptið líka. Ég flutti til London í febrúar á síðasta ári og hef verið umkringd hinseginleika frá a-ö. Hér er mjög auðvelt að vera ég sjálf enda hinsegin kaffihús, viðburðir, klúbbar og fleira hér allt í kring. Ég kom sjálf út úr skápnum fyrir 5 árum síðan og hefur sú vegferð verið mis falleg. Í fyrra eða sumarið 2023 var mikið bakslag í hinsegin baráttunni á Íslandi. Fáfræði og ljót umræða réði ríkjum og fyrir mína litlu sál reyndist það virkilega erfitt. Mig langaði til að rétta hjálparhönd og láta gott af mér leiða og þá datt mér strax í hug að láta ágóðann af þessum viðburði renna til hinsegin málefnis. Ég hafði samband við fólk innan íslenska hinsegin félagsins og eftir smá umræðu var mer bent á Hinsegin félagsmiðstöðina. Hún veitir hinsegin ungmennum á Íslandi örruggan stað til að koma og vera  þau sjálf, sem óendanlega dýrmætt í samfélagi þar sem það er ekki alltaf hægt að koma til dyranna eins og maður er klæddur. Þar er veittur stuðningur, fræðsla, öruggt rými og jákvætt viðmót sem byggir um einstaklinga. Þetta er rekið af dásamlegu fólki og fleiri hundruð börn sem sækja félagsmiðstöðina vikulega. Þarna er verið að sinna mikilvægu og óeigingjörnu starfi sem mér finnst mikilvægt að blómstri áfram. Með þessu höldum við áfram að veita jákvætt öruggt umhverfi fyrir hinsegin börn á Íslandi og höldum áfram í rétta átt að betra samfélagi,“ segir Elenora. 

Elskar bolludaginn

Hvers vegna ákvaðst þú að velja bolludaginn til að koma heim frá London og vera með Pop-Up?

„Ég hef elskað bolludaginn frá bernskuárunum mínum og man eftir árlegu bollukaffi hjá mömmu og að fá að fara með bollu í nesti í skólann. Eftir að ég kláraði námið og varð bakari hefur áhugi minn á bollum ekkert minnkað og ástin á bolludeginum hefur bara vaxið, sérstaklega eftir að hafa fengið að taka þátt í deginum með DEIG. Ég hef nú starfað í bakaríi á bolludaginn í átta ár. Í fyrra lenti ég í því að þurfa að fara í skyndilega í hjartaaðgerð og var með blóðtappa. Þar af leiðandi gat ég ekki tekið þátt í bolludeginum eins og ég hef venjulega gert. Það var mjög erfitt, ég var búin að hlakka svo til. Þrátt fyrir álagið þá saknaði ég þessa. En þegar bolludagurinn stendur sem hæst eru við sem störfum í bakaríum að því að vakna langt fyrir allar aldir og hlaupum um í marga klukkutíma að framleiða mörg hundruð bollur. Þetta er trylltasta helgi ársins í öllum bakaríum en það er eitthvað við stemninguna sem er það allra besta í heimi. Ég vissi því strax að á ári liðnu langaði mig að koma sterk til baka og gera eitthvað skemmtilegt yfir bolluhelgina. Þessa dagana er ég að vinna sem bakari í London þar sem ég hef lært margt nýtt, bæði skemmtilegt og spennandi og fannst tilvalið að koma heim núna og vera með Pop-Up. Ég hef heldur ekki verið með Pop-Up í tvö ár og því alveg komin tími til,“ segir Elenora sem orðin mjög spennt að koma heim að baka bollur.

Þar sem Elenora er þrælvön að baka bollur og þekkir vel hvað er mikilvægt að hafa við höndin liggur beinast við að spyrja hana hvaða áhöld sé mikilvægt að hafa við höndina við bollubaksturinn?

„Góð sleif, góður pottur, Ankarsrum hrærivélin hjá Kokku steinliggur fyrir bollubaksturinn, sprautupokar og sprautustútar er mikið þarfaþing,“ segir Elenora með bros á vör. 

Bollur bakaðar af ástríðu alla leið

Elenora bakar bollurnar af mikilli ástríðu og nostrar við þær eins og enginn sé morgundagurinn. Bollurnar og bragðtegundirnar sem Elenora Rós ætlar að bjóða upp á, á nýja kaffihúsinu hjá Kokku eru eftirfarandi:

Vatnsdeigsbollur með eftirfarandi fyllingu:

  • Ástaraldin- og pistasíubolla: Ástaraldincurd, pistasíu praline, saxaðar pistasíur og crem diplomat (vanillurjómi).
    Ástaraldin- og pistasíubollan hennar Elenoru Rós.
    Ástaraldin- og pistasíubollan hennar Elenoru Rós. Ljósmynd/Elenora Rós

  • Lakkrís- og hindberjabolla: Pipardjúpur kurl frá Freyju, lakkrís karamella, hindberja compote og þeyttur súkkulaði ganache.
    Lakkrís- og hindberjabolla að hætti Elenoru Rós.
    Lakkrís- og hindberjabolla að hætti Elenoru Rós. Ljósmynd/Elenora

  • Kaffi- og pekanhnetubolla: Karamella, kaffi ganache, pekanhnetu praline, þeyttur súkkulaði ganache
    Kaffi- og pekanhnetubolla að hætti Elenoru Rós.
    Kaffi- og pekanhnetubolla að hætti Elenoru Rós. Ljósmynd/Elenora Rós

Gerdeigsbollur (vegan) með eftirfarandi fyllingu:

  • Sænsk semla með tvisti: Marsipan fylling, vanillurjómi og hindberja- og jarðarberjasulta.
    Sænsk semla með tvisti en hún er vegan og sprottin …
    Sænsk semla með tvisti en hún er vegan og sprottin af hugviti Elenoru Rós. Ljósmynd/Elenora Rós

Markmiðið hjá Elenoru Rós er einnig að bjóða upp á súrdeigsbrauð og annað sælkerabakkelsi eins og súkkulaðibitakökur ef tími og tækifæri gefst.

Elenora Rós er iðin við að deila með fylgjendum sínum öllum sínum verkum og hugleiðingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert