Aþena býður upp á guðdómlega sítrónuostaköku með „toffeepops“ botni

Aþena Þöll Gunnarsdóttir matreiðslumaður og bakaranemi býður upp á guðdómlega …
Aþena Þöll Gunnarsdóttir matreiðslumaður og bakaranemi býður upp á guðdómlega sítrónuostaköku með „toffeepops“ botni og dulce de leche sem steinliggur um páskana. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þá er komið að upp­skrift fyr­ir helg­ar­bakst­ur­inn sem er fast­ur liður hér á mat­ar­vefn­um á föstu­dags­morgn­um og kem­ur að þessu sinni úr smiðju Aþenu Þallar Gunnarsdóttur Hafnfirðings og bakaranema hjá bakaríi Gulla Arnars í Hafnarfirði. Í tilefni þess að páskarnir nálgast óðfluga ætlar Aþena að bjóða lesendum upp á páskalega uppskrift að sítrónuostaköku með „toffeepops“ botni og dulce de lache. Kakan hentar öllum allan ársins hring en sérstaklega um páskana.

Guðdómlega falleg og freistandi sítrónuostakaka með páskaívafi.
Guðdómlega falleg og freistandi sítrónuostakaka með páskaívafi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Smitaðist að veitingahúsabakteríunni í uppvaskinu

Aþena hefur ávallt heillast að matargerð og bakstri enda búin að vera á kafi í hvoru tveggja í langan tíma. „Ég hef verið á námssamning hjá Gulla í rúmt ár. Ég útskrifaðist matreiðslumaður vorið 2022. Ég var jafnframt matreiðslunemi hjá Fiskfélaginu og starfaði þar áfram eftir útskrift til ársins 2023. Síðan ákvað ég skyndilega snemma árið 2023 að skella mér í bakarann þar sem ég hef alltaf haft mikinn áhuga bakstri og þá sérstaklega eftirréttum. Upphaflega stefndi ég reyndar að því að fara í arkitektanám en það breytist. Með fram náminu vildi ég vinna og þá kom upp uppvaskarastaða hjá Fiskfélaginu sem mér hlotnaðist og þar smitaðist ég af veitingahúsabakteríunni,“ segir Aþena glettin á svip.

Hefur unnið brons og silfur í baksturs- og matreiðslukeppni

Keppnisskapið er líka til staðar hjá Aþenu og hún hefur þegar tekið þátt í nokkrum matreiðslukeppnum. „Ég hef ávallt haft mikið keppnisskap og finnst gaman að læra eitthvað nýtt. Þegar ég var nýbyrjuð á matreiðslunemasamningnum var mér bent á kokkalandsliðið og að það væri tilvalið að keppa þar fyrir hönd Íslands. Það finnst mér afar heillandi kostur og hikaði ekki við að kanna málið. Síðan þá hef ég verið aðstoðarmaður kokkalandsliðsins og er mjög stolt af því. Ég hef farið tvisvar með kokkalandsliðinu í keppni erlendri grundu. Árið 2019 keppti ég í minni fyrstu keppni sem var Eftirréttur ársins og hreppti þar þriðja sætið. Í mars árið 2022 tókum við, Sveinn Steinsson, þátt í Nordic Green Chef og unnum þar silfrið. Þegar ég lít til baka þá hefði mér aldrei dottið í hug að geta þetta allt,“ segir Aþena og brosir.

Annaðhvort bakstur og fótbolti eftir skóla

Baksturbakterían hefur blundað í Aþenu frá því að hún man eftir sér. „Frá því að ég man eftir mér hef ég alltaf verið að aðstoða mömmu í eldhúsinu. Um leið og foreldrar mínir treystu mér fyrir bakaraofninum var annaðhvort farið heim að baka beint eftir skóla eða spila fótbolta. en allur frítíminn minn fór í annað hvort bakstur eða fótbolta. Þegar ég var lasin heima þá var bakað.“ Aðspurð segir Aþena að áhugasvið hennar liggi fyrst og fremst í því að gera eftirrétti. Mér finnst mér ávallt gaman að prófa nýjar uppskriftir og aðferðir þegar það kemur að eftirréttum. En öll eldamennska og bakstur finnst mér spennandi,“ segir Aþena og er farin að hlakka til að geta bakað og notið sín í eldhúsinu um páskana.

Uppáhaldshráefnið sítróna

Hún er búin að ákveða hvaða eftirrétt hún ætar að bjóða upp á í ár og deilir hér með lesendum matarvefs mbl.is uppskriftinni að réttinum góða. „Í ár ætla ég að bjóða upp á sítrónuostaköku með „toffeepops“ botni og dulce de lache. Kakan hentar öllum allan ársins hring en sérstaklega um páskana. Mitt uppáhaldshráefni er sítróna og er ég mikið fyrir góðar ostakökur. Uppskriftin er einföld en vert er að hafa í huga að byrja þarf að gera þessa sítrónuostaköku daginn áður en bera á hana fram,“ segir Aþena.

Mikill kraftur er í Aþenu og finnst henni mikilvægt að þegar hver og einn er að leita sinni hillu haldið ótrauður áfram og láti drauma sína rætast. „Mig langar að segja gerðu það sem þú vilt, láttu ekkert stoppa þig í að prófa þig áfram og að gera nýja hluti. Seinustu mánuði hef ég verið að vinna með að gera það sem mig hefur verið að dreyma um. Ekki láta þig dreyma of lengi,  heldur gerðu bara hlutina, framkvæmdu þá, þú munt ekki sjá eftir því,“ segir Aþena að lokum full sjálfstraust og gleði.

Þeir sem hafa dálæti af ostakökum mega ekki láta þessa …
Þeir sem hafa dálæti af ostakökum mega ekki láta þessa framhjá sér fara. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sítrónuostakaka með „toffeepops“ botni og dulce de leche

Toffeepops“ botn

  • 2 pk toffeepops kex eða 16 stk
  • 50 g smjör

Aðferð:

  • Myljið toffeepops kexið fínt í matvinnsluvél og bræðið smjörið.
  • Blandið síðan saman kexmulningum og brædda smjörinu.
  • Setjið í form sem þið viljið nota fyrir kökuna og þéttið vel í botninn.
  • Sítrónuostakaka
  • 400 g rjómaostur
  • 200 g flórsykur
  • 400 g rjómi
  • Börkur af  2 sítrónunum
  • 1-2 safi úr sítrónu

Aðferð:

  1. Blandið saman rjómaosti og flórsykri í hrærivél og setjið til hliðar.
  2. Léttþeytið rjómann og blandað varlega saman við rjómaostablönduna með sleikju í þremur hollum.
  3. Bætið við sítrónuberkinum og safa úr einni sítrónu.
  4. Bætið síðan við sítrónusafa eftir smekk.
  5. Setjið deigið fyrir kökuna í formið og kælið yfir nótt í ísskáp.

Dulce de leche

  • 1 dós Condensed milk

Aðferð:

  1. Takið pappírinn af dósinni og sjóðið innihaldið í lokaðri dósinni í potti í 4 klukkustundir. Passið að það sé alltaf vatn yfir allri dósinni og vatni bætt við ef þarf.
  2. Látið mjólkina kólna í dósinni í ísskáp yfir nótt.
  3. Setjið karamelluna í pott og hitið upp á lægsta hita.
  4. Hellið karamellunni yfir kökuna og kælið kökuna í um það bil 20 mínútur.
  5. Takið að lokum kökuna úr forminu.
  6. Upplagt að skreyta kökuna með súkkulaðikanínu og litlu súkkulaðieggjum.
  7. Berið kökuna fram með þeyttum rjóma, berjum eða því sem hugurinn girnist.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert