Frumkvöðull sem hóf starfsferilinn 39 ára og hætti 61 árs

Hjördís Gísladóttir var alltaf staðráðin í að gefa sér tíma …
Hjördís Gísladóttir var alltaf staðráðin í að gefa sér tíma fyrir börnin og dýrin þegar hún byrjaði að vinna. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Athafnakonuna Hjördísi Gísladóttur þekkja eflaust margir en hún stofnaði og rak vinsæla grænmetisstaðinn Grænan kost í yfir 15 ár ásamt Sólveigu Eiríksdóttur. Hjördís er komin af léttasta skeiði en hún mun fagna 77 ára afmæli sínu í mars á þessu ári.

Hjördís er þó langt frá því sitja auðum höndum enda hraust og hress að eigin sögn. Morgunblaðið heimsótti hana í hesthúsið hennar í Víðidal á dögunum þar sem hún var í óðaönn að undirbúa hestana fyrir veturinn en hún eldist einkar vel enda alltaf á fullu. Hjördís á Grænum kosti að þakka að hún gat hætt snemma að vinna en hver er þessi sniðuga kona og hver er galdurinn á bak við heilbrigðan líkama og sál?

Byggði einbýli í Garðabænum 19 ára á víxlum

Formlega menntun aðra en gagnfræðapróf hlaut Hjördís ekki þar sem hún byrjaði snemma að eignast börn og stofna heimili eins og var algengt þegar hún var ung. „Því miður fór ég ekki menntaveginn en ég varð ófrísk 18 ára og gifti mig 19. Þá var nú lítið um það að hægt væri að fara í nám með barneignum og lítið um barnapössun. Við fórum bara að byggja einbýlishús í Garðabænum, það var nú bara ekkert minna í þá daga,“ segir hún glettin. „Það var svo mikil verðbólga á þessum tíma að maður gat bara endalaust verið að fá víxla, þeir bara fuðruðu upp það var svo mikil verðbólga. Við hentum smávegis aur inn á þá og svo bara borguðum við þá upp í bankanum. Margir öfunda okkar kynslóð af þessum tíma, verðtryggingin var ekki til þarna. Þannig gátum við auðveldlega byggt þetta litla hús sem var 150 fermetrar. Við höfðum það bara mjög gott, maðurinn minn var flugmaður og við áttum þrjú börn saman.“ 

Heimavinnandi húsmóðir til 39 ára

Þegar Hjördís var 39 ára gekk hún í gegnum erfiðar breytingar en þá skildi hún við eiginmann sinn til 20 ára. „Þegar þarna var komið hafði ég alltaf verið heimavinnandi húsmóðir með þrjú börn, þau fóru aldrei á leikskóla heldur léku sér bara úti í móa enda var Garðabær á þessum tíma eins og lítið þorp.“ Hún bætir við að börnin hafi leikið lausum hala úti allan daginn og það telur hún hafa verið besta leikskólann. „Ég stóð frammi fyrir því að þurfa að fara að vinna fyrir mér og börnunum en ég hélt öllu sem var lifandi, börnunum, hestunum og hundinum. Þetta var erfiður tími, en svona var þetta bara. Ég ákvað að fara að vinna á skrifstofu enda ágætlega fær í slíka vinnu. Ég var með gagnfræðapróf sem var vel metið á þessum tíma. Auk þess var ég líka svo lánsöm að hafa náð, áður en ég fór að eiga börnin, að fara í skóla á Englandi í nokkra mánuði til að læra ensku og einnig lærði ég dönsku í Danmörku. Þessi þekking kom sér vel þegar ég fór út á vinnumarkaðinn.“

Hjördís og Sólveig Eiríksdóttir tóku töluverða áhættu þegar þær fóru …
Hjördís og Sólveig Eiríksdóttir tóku töluverða áhættu þegar þær fóru af stað með Grænan kost. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Hét því að vinna aldrei til fimm á daginn og stóð við það

Fyrsta vinnan sem Hjördís fékk var á skrifstofu en þá setti hún það skilyrði að vinna ekki nema til þrjú því hún vildi geta átt gott líf með börnunum sínum og dýrum. Hún segist hafa reiknað út að ef hún hefði unnið meira þá myndi hún bara borga meiri skatt. „Ég hét því að ég ætlaði aldrei að vinna til fimm á daginn. Ég hafði líka komið ágætlega út úr skilnaðinum þar sem við áttum þetta hús í Garðabænum og gat keypt mér lítið raðhús þar sem ég hafði pláss fyrir börnin og hundinn. Ég fór að vinna hjá tímaritaútgáfunni Frjálsu framtaki þar sem ég sá um áskriftir en strax þarna gekk ég alltaf með þann draum í maganum að stofna mitt eigið fyrirtæki.“

Réð Sollu Eiríksdóttur sem kokk í Náttúrulækningafélagið

Eftir u.þ.b. 5 ár hjá blaðaútgáfunni Frjálsu framtaki færði Hjördís sig yfir til Náttúrulækningafélags Íslands og var boðið að sjá um að halda utan um allt námskeiðahald í Heilsuskólanum sem var rekinn á vegum félagsins. „Á þessum tíma var verið að hvetja almenning til að hreyfa sig og borða meira grænmeti. Ég fann strax hvað það var mikill áhugi á heilsu og hollu mataræði. Það var í mínum verkahring að ráða inn fólk til að halda námskeið, ég réð til dæmis inn hjúkrunarfræðing sem sá um stafagöngur í Öskjuhlíðinni, auk þess þurfti ég að ráða góða matreiðslumenn til að elda fínan grænmetismat. Þarna réð ég Sólveigu Eiríksdóttur til mín sem kokk og við kynntumst.“ 

Þótti ekki boðlegt að taka út mjólkurvörur og kjöt og fisk

Námskeiðin segir Hjördís hafa gengið mjög vel og þau hafi verið vel sótt. „Ég sá algerlega um bókhaldið og það var rekstrarafgangur af Heilsuskólanum. Síðan voru ráðnir inn næringarfræðingar sem bentu stjórn Náttúrulækningafélagsins á að það væri kannski ekki alveg boðlegt að taka út mjólkurvörur og kjöt og fisk, það væri ekki í takt við stefnu félagsins. Í kjölfarið var ákveðið að leggja námskeiðin niður, ég varð alveg rosalega leið yfir þessu því ég var virkilega ánægð þarna, var með eigin skrifstofu, fullt af fólki í kringum mig og það voru u.þ.b. 200 manns á biðlista til að komast á námskeiðin.“ Í framhaldinu hafi hún og Solla ákveðið að halda áfram með námskeiðin og bjóða öllu þessu fólki sem var á biðlista upp á fræðslu varðandi grænmetisfæði og heilsu. „Við tókum þetta bara, fundum okkur húsnæði og héldum námskeiðin í tvö ár.“

Þegar Hjördís seldi fór hún að njóta afraksturs vinnu sinnar.
Þegar Hjördís seldi fór hún að njóta afraksturs vinnu sinnar. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Veðsetti húsið til að gera Grænan kost að veruleika en þurfti að verja það

Hjördís segir að þá hafi þær ákveðið að fjárfesta í húsnæðinu á Skólavörðustíg þar sem Grænn kostur var starfræktur í 20 ár. „Mörgum fannst ég vera frekar djörf að vera að fara út í þessar fjárfestingar en ég var alveg ákveðin, þetta vildi ég gera. Ég veðsetti bara húsið mitt og tók lán, Solla átti ekki hús til að taka veð í svo hún tók veð í mínu,“ bætir hún við og segir að sumum hafi fundist hún vera að taka áhættu en hún benti á að þetta væri fjárfesting sem hefði heldur betur borgað sig. „Þegar við keyptum þetta pínulita húsnæði þá var það eingöngu hugsað til að vera með námskeið og í raun var það allt of lítið fyrir námskeiðahald. Við lentum svo endalaust í því að fólk var að banka upp á og vildi bara fá að kaupa hjá okkur mat. Kúnnarnir ráða alltaf öllu á endanum.“ Hún bætir við að Guðjón Bjarnason, arkitekt staðarins, hafi bent henni á að raða ekki upp borðunum inni á staðnum, því kúnnarnir myndu færa þau eftir sínu höfði. Einnig væru það þeir sem myndu ákveða hvenær hún ætti að opna og loka staðnum. „Ég trúði þessu ekki en svona er þetta nú samt.“

Var ákveðin í að hafa þetta ekki í hippagraslegt

Þegar þær voru að innrétta húsnæðið sem veitingastað segist Hjördís hafa verið ákveðin í því að hafa hönnunina smart og nútímalega. „Ég sagði við Sollu að ég vildi ekki að okkar staður væri einhver hippagrasstaður. Þetta átti að vera smart og þetta átti að vera „take away“-staður líka. Við fórum saman til London að skoða veitingastaði og sækja okkur hugmyndir fyrir veitingastaðinn Grænan kost sem við opnuðum árið 1995 og rákum saman farsællega til ársins 2004 en þá keypti ég Sollu út. Fleiri kokkar höfðu starfað með okkur sem héldu áfram og ég rak staðinn ein til 2008. Mér fannst frábært að halda áfram og gera þetta ein. Þá blómstraði ég eiginlega enn meira því mér finnst gaman að ráða,“ skýtur hún inn í og segir að sér finnist gaman að ráða öllu. „Ég naut frelsisins og setti inn nýja rétti og tók út aðra sem ég var lítið hrifin af. En svo fannst mér bindingin erfið, það er að segja að það var enginn annar eigandi til að stýra eða leysa mig af þegar ég fór til dæmis í ferðalög og þarna var líka byrja að kreppa að í samfélaginu. Eftir að hafa rekið veitingastaðinn ein í um fjögur ár ákvað ég að selja bæði fyrirtækið og húsnæðið.“ 

Seldi vel rétt fyrir hrun

Hjördís segist hafa verið heppin því hún seldi í febrúar hið fræga hrunár, 2008. „Ég var í raun mjög heppin, ég átti fyrirtækið ein og fékk mjög gott verð, fékk traustan kaupanda og var búin að fá allt greitt áður en hrunið skall á. Þegar ég var búin að selja fór ég í raun ekki að gera neitt sérstakt, kannski var það samt of snemmt. Ég fór reyndar svo aðeins að vinna með Sollu aftur, þá var hún búin að opna Gló.“ Hún bætir við að þær hafi alltaf verið miklar vinkonur og góðar samstarfskonur. „Mér hefur alltaf þótt mjög vænt um Sollu, við hefðum aldrei getað gert neitt hvor í sínu í lagi á þessum tíma. Ég sagði oft við hana að hún væri svo hugmyndarík, frjó og voguð. Ég kallaði hana meira að segja stundum Veigu voguðu, hún þorði að prufa og gera og græja. Stundum lýsti ég sambandi okkar þannig að hún væri blautt sápustykki sem mínar hendur næðu ekki alveg að halda utan um.“

Ekki pína ykkur segir Hjördís sem er alæta og stundar …
Ekki pína ykkur segir Hjördís sem er alæta og stundar þá hreyfingu sem henni finnst skemmtileg. mbl.is/Hanna Ingibjörg Arnarsdóttir

Hestarnir halda henni í formi og gefa henni mikið

Þegar hún seldi reksturinn var hún ekki nema 61 árs og fór þá að njóta afraksturs vinnu sinnar. „Ég hafði keypt mér lítinn sumarbústað í Grímsnesinu árið 2000 sem var á 6 hektara lóð og þar gat ég haft hestana mína. En ég er búin að vera í hestum frá því ég var rúmlega þrítug, þá fór ég á námskeið og fékk bakteríuna. Ég keypti minn fyrsta hest raunar á námskeiðinu og hef eiginlega alltaf átt 3-4 hesta þar til núna, en ég á tvo. Hestarnir hafa haldið mér í formi og gefið mér gríðarlega mikið alla tíð. Í gegnum þá hef ég kynnst landinu meira enda verið dugleg að fara í sumarferðalög ríðandi og það er einstaklega gefandi, bæði fyrir líkama og sál. Þetta er líka ákveðinn lífsstíll, eitthvað sem maður þarf að sinna allan ársins hring. Það er mikil hreyfing og útivera sem fylgir hestastússinu og líka áskorun, maður þarf alltaf að fá sér númeri stærri hest heldur en þann sem maður er orðinn vanur. Þegar ég var á fyrsta námskeiðinu hélt ég að ég myndi aldrei þora út úr skemmunni,“ segir hún brosandi. „Ég hef líka verið heppin með hestana mína, sumir þeirra hafa til dæmis komist inn á Landsmót.“

Félagsskapurinn ekki síður mikilvægur

Hestamennskan heldur Hjördísi greinilega í góðu formi en hún segir að félagsskapurinn í kringum hestamennskuna sé líka mikill. „Ég er í félagsskap sem heitir Skallagrímur og samanstendur af níu konum sem allar eru í hestunum. Við höfum haft það fyrir reglu í mörg ár að við keyrum með hestana okkar út á land í kerrum þangað sem við ætlum að fara í hestaferðalag. Iðulega leigjum við okkur bústað saman til að gista í eða erum í bústað hver hjá annarri. Við ríðum svo út frá gististöðunum, enda mikið af skemmtilegum reiðleiðum víða á landinu.“ 

Hefur farið til Pakistan og Balí

Í kringum árið 2000 kynntist Hjördís öðrum manni sem deilir hestaáhuganum með henni og saman hafa þau ferðast töluvert. „Okkur finnst mjög gaman að ferðast þótt mér finnist samt hvergi eins gott að vera og hér heima. Ég nýt þess mest nú orðið að fara í borgarferðir hér í Evrópu og best ef þær eru með einhverju þema eins og arkitektúr. Ég hef mikinn áhuga á fallegum byggingum og listum svo fátt eitt sé nefnt. En ég hef líka komið á fjarlægar slóðir, ég fór til dæmis til Lahor í Pakistan fyrir mörgum árum, það var verulega áhugavert. Í fyrra fór ég til Bali í þrjár vikur sem var einstakt en best finnst mér að vera í útlöndum í svona tvær vikur í senn. Ferðalög gera mikið fyrir sálina og andlegu hliðina.“

Æfir badminton með konum yfir áttrætt og þarf að hafa sig alla við

Þrátt fyrir að hafa hætt að vinna fremur snemma þá segir Hjördís að hún hafi alla tíð haft nóg fyrir stafni. „Við fórum að sinna sumarbústaðnum sem ég hafði keypt árið 2000 af kappi, fengum heitt vatn, settum pott og grisjuðum mikið. Nú og svo hef ég stundað badminton frá því ég var tuttugu og átta ára gömul. Ég hjálpaði til við að setja TBR-höllina í stand á sínum tíma, málaði og fleira. Um tíma æfði ég meira að segja með unglingunum,“ bætir hún glottandi við. „Ég stunda badminton enn í dag með nokkrum konum sem eru allar komnar yfir áttrætt og í fantaformi. Þær eru svo góðar að ég hef þurft að koma mér í enn betra form til að halda í við þær og það hef ég gert með því að synda skriðsund í svona 15-20 mínútur á dag.“

Brýnt að halda heilanum í æfingu

Hjördís segir einnig að hún hafi dottið inn í mjög skemmtilegan bókaklúbb fyrir u.þ.b. tíu árum. „Það hefur gefið mér gríðarlega mikið að vera í þessum bókaklúbbi en hann er þannig að við lesum eina bók í mánuði og svo hittumst við til að ræða innihaldið. Það er mjög örvandi og góð heilaleikfimi auk þess að vera frábær félagsskapur. Þessar konur voru búnar að starfrækja þennan klúbb í tugi ára áður en ég datt inn í þetta, virkilega nærandi og hollt.“

Mikilvægast að gera allt í hófi og hafa gaman

Hjördís er góð fyrirmynd fyrir fólk á sínum aldri, auk þess veit hún sitt lítið af hvoru um heilsu og mataræði. Það verður þess vegna ekki hjá því komist að spyrja hana hvað hún ráðleggi fólki á öllum aldri að hafa í huga þegar kemur að því að eldast vel. „Mér finnst mjög mikilvægt að gera bara allt en í hófi og forðast allar öfgar. Ég er til dæmis alæta, borða bæði kjöt og fisk en með aldrinum hefur tilhneiging mín verið að borða léttari mat, meira grænmeti og fisk til dæmis. Þetta á líka við um hreyfinguna, það ætti enginn að vera að pína sig í eitthvað rosalegt heldur stunda íþróttir eða aðra hreyfingu sem fólk hefur virkilega gaman af og hlakkar til að fara í. Vera í einhverju þar sem hluti af hreyfingunni er til dæmis félagsskapurinn. Ekki pína ykkur heldur gerið það sem þið elskið.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál