45 ára og í sínu besta formi

Keppendur í fitness þurfa ekki aðeins að vera duglegir í …
Keppendur í fitness þurfa ekki aðeins að vera duglegir í ræktinni, því þeir þurfa einnig að læra að stilla sér upp á svokölluðum pósunámskeiðum. Ljósmynd / Mummi

Einkaþjálfarinn Lilja Ingvadóttir stendur í ströngu þessa dagana, enda er hún að fara að keppa í fitness á næstunni. En hvernig skyldi undirbúningur ganga?

„Hann er búinn að ganga hrikalega vel og hefur verið svo skemmtilegur. Ég tók mér góðan tíma í þennan undirbúning, enda er það eina vitið. Ég hef smátt og smátt hert mataræðið og náð að halda góðum æfingum í botni, hef í raun eingöngu bætt við um 30-45 mínútna brennslu aukalega við mínar lyftingaræfingar sem eru að jafnaði sex í viku. Ég er í þjálfun hjá Konráð Val Gíslasyni hjá Iceland Fitness og hef verið síðan í haust. Í raun hef ég verið undir hans handleiðslu síðastliðin tvö og hálft ár. Hann er reynslubolti sem veit hvað hann syngur í þessum bransa. Það er bráðnauðsynlegt að vera með réttan þjálfara í slíku verkefni. Maður gerir þetta ekki einn, sama hvað maður er klár. Og lærdómurinn sem ég sem einkaþjálfari fæ út úr þessu er gríðarlega mikill og get miðlað áfram. Því slíkur undirbúningur er ekki ósvipaður því og þegar maður er að breyta um lífstíl, þú ert bara komin lengra með það,“ segir Lilja sem hefur á undanförnum 17 vikum losað sig við 10 kíló.

 „Ég er búinn að léttast um rúm 10 kíló og reikna með að á mótsdegi verði ég örugglega 12-13 kílóum léttari en fyrir 17 vikum. Annars er þyngdin aukaatriði, það er samræmið, vera vel tónaður. Spegillinn er það sem skiptir máli uppá slíka keppni.  Að allt sé í toppstandi.“

Lilja borðar afar hreina fæðu, en eftir því sem nær dregur móti tekur hún meira til í mataræðinu.

 „Eftir því sem líður að móti hreinsa ég enn meira til, tek út öll aukefni, sætuefni og þess háttar. Það þarf að taka þetta út algerlega síðustu tvær vikurnar. Þetta er þó í raun bara það sama og ég borða alla daga, kjöt, fisk, kjúkling, sætar kartöflur og hrísgrjón, egg og eggjahvítur, möndlur, ljúffengu hafrapróteinvöfflurnar mínar og þess háttar. Ég borða á tveggja til þriggja tíma fresti eins og ávallt, og passa mjög vel uppá það,“ segir Lilja.

Fyrir átta árum ákvað Lilja að breyta um lífstíl.
Fyrir átta árum ákvað Lilja að breyta um lífstíl. Ljósmynd / Úr einkasafni

„Ég hef borðað mikinn fisk í þessum undirbúning, þá lax og núna hvítan fisk síðustu vikurnar fyrir mót.   En í slíkum undirbúning þá er allt sett uppí Excel-forritinu, allt vigtað og undirbúið fyrir hvern dag.  Það þarf að halda magni af mat og hitaeiningum á vissu bili til að ná að skera af sér fituna, halda í vöðvamassann og hafa orku í daginn. Ég hef ekki tekið út kolvetnin eins og svo margir gera, því mér finnst skynsamlegra að gera þetta frekar á löngum tíma og fá líkaman með í verkið. Ég hef alltaf haft eina góða „gourmet“ máltíð að eigin vali og eitthvað sætt einu sinni í viku allan undirbúningstímann, nema núna síðustu þrjár vikurnar.“

Það tekur enginn þátt í fitness án þess að æfa af kappi, en sjálf æfir Lilja sex sinnum í viku?

„Ég lyfti sex sinnum í viku, eins og ég geri alltaf. Tek mismunandi vöðvahópa fyrir á hverjum degi, svo brenni ég sex sinnum í viku, frá 30-60 mínútum í senn. Allt eftir því hvernig brennslu ég tek. Ég er mjög hrifinn af lotuþjálfun eða HIIT, þar sem púlsinn er keyrður upp og niður. Það hefur heldur betur skilað sér í góðri brennslu og góðu þoli. Svo er hvíldin mjög mikilvæg, ég hlusta vel á líkamann og hvíli vel á milli. Enda skilar allt puðið sér til líkamans í hvíldinni,“ segir Lilja, en hvernig skyldu síðustu vikurnar fyrir mót vera?

 „Í mataræðinu er maður komin í frekar litla skammta og búinn að skera kolvetnin töluvert niður, þannig að maður tekur aðeins léttara á því í ræktinni. Ég er algerlega í hvítum fiski og grænmeti núna og mikið af eggjahvítum. Þannig að hver dagur er eins. En á móti þá eyk ég við allskyns dekur og húðmeðferðir til að fá húðina stinna fyrir daginn og fá slökun í vöðva. Það losnar ansi mikið um húðina þegar maður missir fitu. Ég hef verið í allskyns líkamsmeðferðum hjá stelpunum Söndru, Birnu og Guðrúnu í Heilsu og útlit í Kópavogi frá því síðan fyrir jól og ég gæti ekki verið þakklátari fyrir hvað þær eru búnar að gera mikið fyrir mig. Það skiptir gríðarlegu máli  að ná húðinni góðri, losa um stíflur og aðrar gamlar syndir þegar maður stígur á svið. Það er eins mikilvægt og allar æfingarnar að geta sýnt það sem maður er búinn að vera að vinna að. Svo má ekki gleyma að núna er maður á fullu að æfa framkomuna og pósurnar til að skila vinnunni vel frá sér í keppninni. Þannig að það er í mörgu að snúast,“ segir Lilja, og þvertekur fyrir að ferlið hafi verið afar erfitt.

Lilja var ekki jafn hraust fyrir átta árum.
Lilja var ekki jafn hraust fyrir átta árum. Ljósmynd / úr einkasafni

„Fáránlegt eins og það er, þá hefur mér liðið alveg frábærlega í öllu þessu ferli. En síðustu tvær vikurnar eru erfiðastar, einfalt matarræðið sem verður leiðigjarnt, vatnslosun, þreyta fer að koma fram þannig að maður þarf að nýta orkuna sína, hvílast vel og hlusta á líkamann. En þegar maður er með hausinn rétt skrúfaðan á, þá lætur maður ekkert vera leiðinlegt. Þetta er hluti af verkefninu og verðlaunin eru algerlega þess virði. Að vera komin á þennan stað er bara ljúft og mikill persónulegur sigur. Þar sem ég hef verið á svo algerlega öðrum stað veit ég hvernig sú tilfinning er. Kannski er erfiðast að neita öllum skemmtiferðunum með vinunum, en hvað eru fjórir til fimm mánuðir af einni ævi. Enda verður gulrótin mín skvísuferð til útlanda tveimur vikum eftir mót,“ segir Lilja, sem lét sérsauma á sig sundföt fyrir keppnina.

 „Ég verð í geggjuðum sundfötum sem hún Freydís, bikínímeistari, er búin að sauma sérstaklega á mig. Þau eru svo sjúklegt að það hálfa væri nóg. Ég gæti ekki verið sáttari.“

Lilja hefur ekki alltaf verið í hörkuformi, enda átti hún í basli með aukakílóin áður en hún tók líf sitt í gegn.

 „Ég er  45 ára og gjörsamlega komin langt fram úr mínum björtustu vonum, og er í besta formi lífs míns. Ég er hrikalega sátt, og það sem skiptir mig öllu máli í þessu er að mér líður frábærlega bæði andlega og líkamlega. Ég hef verið í góðu jafnvægi bæði í æfingum og mataræði, en það má alltaf gera betur. Hreint og gott matarræði og regluleg hreyfing gerir manni gott og bætir öll lífsgæði. Það er allt skýrara í kollinum, einbeitingin er betri, ég er rólegri og yfirvegaðri og streitan er í lágmarki. Ég er svo glöð að hafa fundið minn veg. Fitness er ekkert annað en lífstíll, hvort sem þú skellir þér á svið til að keppa eða ekki.“

Lilja segir að fyrir nokkrum árum hafi hana aldrei grunað að hún ætti sjálf eftir að standa á sviði til þess að keppa í fitness.

„Aldrei. Ég fylgdist oft með fitness-keppnum og fannst þetta mjög spennandi. Innst inni hugsaði maður hvað það væri nú æðislegt að geta náð slíku markmiði einhvern tímann í lífinu. En hér er ég, átta árum eftir að ég tók mig taki og breytti lífstílnum. Komin á sviðið í mínu besta formi.“

 „Þetta er uppskeruhátíðin af löngu ferli og persónuleg sigurhátíð eftir margra ára púl. Þarna er maður drottning í einn dag í sínu besta formi. Maður kynnist svo mörgu skemmtilegu og flottu fólki sem er að gera góða hluti í þessu og skemmtileg stemming í kringum slíkt mót.  Svo fæ ég mér súkkulaði þann daginn líka,“ segir Lilja og hlær.

„En sjálft verkefnið er ekki búið þó að mótið sé búið, eftir mót tekur við annað prógramm sem að kemur manni hægt og rólega aftur í venjulegar skammtastærðir og almennt gott matarræði. Þar bæti ég inn fæðutegundum sem ég hef verið að taka út fyrir mót og set inn hægt og rólega. Svo minnkar maður smátt brennsluæfingar og fer í sína gömlu rútínu. Þetta er nokkurra vikna ferli  og ég segi að það sé það allra mikilvægasta og því miður mjög oft sem að óreyndir fitness-keppendur hafa klikkað á,  enda er aðalmarkmiðið að vera alltaf í góði formi allt árið um kring,“ segir Lilja að endingu.

Lilja æfir grimmt, en hún segir að fitness sé lífstíll.
Lilja æfir grimmt, en hún segir að fitness sé lífstíll. Ljósmynd / Úr einkasafni
mbl.is