Gönguskíði eiga erindi við alla

Hilmar Már Aðalsteinsson.
Hilmar Már Aðalsteinsson. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Fólk þarf ekki að vera með takmarkalaust þrek til að geta notið útiveru að vetri til á göngu- og fjallaskíðum. 

Sumir halda að þegar veturinn gengur í garð sé ekki lengur hægt að stunda útivist, nema í besta falli bruna niður brekkurnar í Bláfjöllum og Hlíðarfjalli þegar færi gefst. Hilmar Már Aðalsteinsson segir þetta viðhorf þó óðum að breytast eftir því sem fleiri uppgötva hve gaman það er að skoða landið á göngu- og fjallaskíðum.

Hlynur er útivistarmaður í húð og hár og leiðsögumaður í fjallaskíðaferðum Ferðafélags Íslands. Hann ólst upp í skátunum, starfaði lengi með björgunarsveit og vann það m.a. sér til frægðar að vera hluti af þriggja manna hópi sem ferðaðist í fyrsta skipti í einni ferð á skíðum yfir Vatnajökul, Hofsjökul og Langjökul að vetri til.

Hann segir það útbreiddan misskilning að göngu- og fjallaskíðaiðkun sé ekki nema fyrir hraustustu íþróttamenn. „Það má líkja þessu við sund, þar sem annars vegar er hægt að iðka sundið sem keppnisgrein og synda mörg þúsund metra á fullri ferð í viku hverri, eða gera eins og allur þorri fólks gerir og synda nokkrar ferðir sér til heilsubótar en fara svo í heita pottinn. Á gönguskíðum er hægt að velja flatar og þægilegar leiðir og skíða um á viðráðanlegum hraða á fallegum vetardegi eða fara alveg yfir í hinn endann og fjárfesta í fullkomnasta og dýrasta búnaði og ganga bæði hratt og langt eftir krefjandi leiðum.“

Auðvelt að byrja

Segir Hilmar að það þurfi ekki einu sinni að fjárfesta í sérstökum fatnaði til að byrja að stunda gönguskíðaíþróttina. „Þeir sem iðka sportið af fullri alvöru eiga vitaskuld alvöru spandex-galla og bæði skíði og stafi úr laufléttum koltrefjaefnum, en fyrir alla hina er alveg nóg að vera í þægilegum útivistarfatnaði og á einföldum skíðum.“

Rétt er að gera greinarmun á ólíkum undirgreinum gönguskíðasportsins. „Fjallaskíði og gönguskíði eru sitt hvor hluturinn, þó hvort tveggja feli í sér að ferðast gangandi á skíðum,“ útskýrir Hilmar. „Hefðbundin gönguskíði notar fólk í troðnum brautum eins og má t.d. finna uppi í Bláfjöllum. Síðan eru til ferðagönguskíði sem eru breiðari og með stálköntum og notuð þar sem ekki eru troðnar brautir, s.s. til að ferðast upp í Landmannalaugar eða á Hellisheiði, eða til að þvera hálendið og heilu jöklana.“

Fjallaskíðin eru síðan þannig hönnuð að það má nota þau til að bæði ganga upp töluverðan bratta og síðan skíða tiltölulega þægilega niður aftur. „Á þeim er hægt að festa niður hælinn og eru fjallaskíðin ekki ósvipuð svigskíðum en þau eru þó þannig hönnuð að spenna er í skíðunum svo að þegar þau eru lögð niður snertir miðjuhlutinn ekki jörðina. Þar er borið á klístrað efni, n.k. kertavax, sem grípur í undirlagið þegar þungi líkamans liggur á öðru skíðinu svo að spyrna má áfram. Einnig er hægt að fá skíði með hreistri eða rifflum og þekkist líka að festa skinn undir skíðin til að ná gripi.“

Sigrast á vitlausu veðri

Það sem hrífur Hilmar við göngu- og fjallaskíðamennskuna er m.a. hvað landið getur verið fagurt og friðsælt í vetrarskrúða og fjallaloftið tært. Skemmtilegast af öllu þykir honum þó að takast á við náttúruöflin og halda af stað í vonskuveðrum. Hann varar lesendur við að þeir sem fari óvarlega á göngu- og fjallaskíðum séu að bjóða hættunni heim og fólk verði m.a. að huga að veðurspánni og gæta að möguleikanum á snjóflóðum. Ef skíðað er yfir jökla bætist síðan við hættan á að falla ofan í sprungu. „En með rétta búnaðinn, þjálfunina og reynsluna, og eftir að hafa lesið í veðurspána, er hægt að bjóða náttúruöflunum birginn og ganga á skíðum í brjáluðu veðri.“

Er gott að byrja á námskeiði fyrir byrjendur til að læra undirstöðurnar og í framhaldinu stunda æfingar á öruggum slóðum. Nefnir Hilmar að gönguskíðaferð um Heiðmörk eigi að vera á allra færi og síðan megi slást í för með reyndara fólki í meira krefjandi göngur og læra betur á sportið og öryggisatriðin.

Bendir hann líka á að gönguskíðafólk hafi það umfram hina sem eru háðir skíðalyftum og brekkum að það þarf ekki að vera þykkt lag af snjó á jörðu til að taka megi gönguskíðin fram. Eru gönguskíðaleiðir oft færar þegar brekkurnar eru lokaðar vegna snjóleysis: „Svo fremi sem undirlagið er gott – mosi og gras frekar en úfið hraun – þarf gönguskíðafólk ekki mjög þykkt lag af snjó.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál