Hilmar hætti að drekka og fékk nýtt líf

Hilmar Sigurðsson ásamt eiginkonu sinni Rosemary sem gengur með þeirra …
Hilmar Sigurðsson ásamt eiginkonu sinni Rosemary sem gengur með þeirra annað barn. Ljósmynd/Eggert

Hilmar Sigurðsson sneri lífi sínu við eftir að hafa farið í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Hann segir alkóhólismann vera sjálfhverfan sjúkdóm og ein besta leiðin til að sigrast á honum sé að hjálpa öðrum. Hann sagði sögu sína í nýjasta hefti tímarits Samhjálpar og er það birt hér með leyfi: 

Hilmar er fæddur og uppalinn á Akranesi. Hann ólst að eigin sögn upp á fínu heimili og stundaði fótbolta meginþorra æsku sinnar, að sjálfsögðu með ÍA. Eins og svo margir unglingar fór hann á sitt fyrsta fyllerí 15 ára gamall. Í kjölfarið tók við hefðbundið djamm sem ágerðist á stuttum tíma. Þegar hann var 17 ára gamall varð vendipunktur í lífi hans þegar hann mætti ölvaður í æfingarleik og var í kjölfarið settur út úr liðinu.

„Ég varð svo móðgaður að ég hætti í kjölfarið í fótbolta, það var misráðin ákvörðun,“ segir Hilmar þegar hann rifjar þetta upp.

„Um leið losnuðu allar hömlur og við tók 20 ára mynstur í alkóhólisma og síðar í neyslu allt þangað til að ég varð 37 ára.“

Þrátt fyrir að hafa aukið við drykkju sína náði Hilmar að klára stúdentspróf frá Framhaldsskólanum á Akranesi. Eftir útskrift flutti hann til Reykjavíkur, að eigin sögn til að falla inn í fjöldann.

„Það þekktu mann færri í borginni og það var auðveldara að sækja skemmtanalífið þar,“ segir Hilmar.

„Á þessum tíma var ég að vinna og náði alveg að sinna þeirri vinnu þó að ég væri farinn að drekka mikið. Margir félaga minna fóru í meðferð á þessum tíma, en ég leit einhverra hluta vegna þannig á málið að ef ég gæti sinnt vinnu minni þá væri ég í lagi. Samt var ég farinn að fá mér kannabis á hverjum degi eftir vinnu og síðan var vakað allar helgar með aðstoð örvandi efna.“

Upp úr 1995, þegar Hilmar var tvítugur, má segja að alda örvandi efna hafi riðið yfir landið. Spurður um það hvernig hefðbundin helgardrykkja, þótt mikil sé, stigmagnist upp í það að nota önnur efni, rekur Hilmar það að hluta til fyrrnefnds tímabils, en bætir þó við að félagsskapurinn hafi skipti miklu.

„Það er erfitt að útskýra það, en þetta fer mikið eftir þeim félagsskap sem maður sækir í,“ segir Hilmar.

„Ég breytti um félagsskap af því að hann var ekkert mikið í þessu, mínir gömlu félagar af Akranesi voru ekki í nógu miklu rugli fyrir mig. En það er engin ein skýring, kannski er maður alltaf að leita að einhverju meira og finnst ekkert nóg. En það má líka rekja þetta til þunglyndis og annarrar vanlíðunar á unglingsaldri. Ég taldi mig upplifa vellíðan og frelsi þegar ég fékk mér áfengi, þá fannst mér ég geta verið ég sjálfur. Ég komst einhvern veginn úr skelinni, þorði að tala við stelpur og svo framvegis. Það gerði ég aldrei edrú. Síðan stigmagnast það bara þegar maður er alltaf að berjast við að brjótast út úr skelinni. Einn daginn er áfengið ekki nóg og maður leitar í eitthvað annað.“

Hilmar lifði að eigin sögn hálfgerðu bóhem-lífi næstu ár á eftir. Hann stundaði skemmtanalífið á fullu, en lét annað sitja á hakanum, þó að hann væri í vinnu.

„Ég fór á milli herbergja og flutti alltaf út án þess að greiða leigu. Og það var fleira sem var ekki til eftirbreytni. Ég rændi mér bensíni af bensínstöðvum, þetta var áður en þær tóku öflug myndavélakerfi í notkun. Ég var sjálfum mér nógur, en greiddi aldrei fyrir neitt nema neyslu áfengis og fíkniefna. Þróunin var svona í mörg ár, ég var bara þessi gæi sem vann og fékk sér kannabis á virkum dögum og sterkari efni um helgar,“ segir Hilmar.

Ömurlegur tími

Það var ekki fyrr en árið 2007 sem Hilmar fór í sína fyrstu meðferð. Hann hafði þá kynnst stúlku og eignast með henni barn, litla dóttur. Eftir það lenti hann þó í algjörum brotsjó eins og hann orðar það.

„Þegar ég hitti hana ákvað ég að reyna að halda mér edrú, en í raun var ég farinn að leika mann sem ég var ekki í raun og veru,“ segir Hilmar.

„Ég náði nokkrum þokkalegum mánuðum og mér tókst að stilla neyslunni í hóf, en gat aldrei hætt henni. Dóttir mín var ekki nema nokkurra mánaða þegar ég fór út, þá var fíknin orðin svo mikil, en ég var ekkert búinn að viðurkenna það. Ég bara lét mig hverfa af heimilinu til að fá frelsi til að vera ég sjálfur og sinna mínum alkóhólisma. Þarna var ég orðinn málarameistari og var með mitt eigið fyrirtæki, en svo hrundi þetta allt á skömmum tíma. Ég brotnaði saman og viðurkenndi minn vanda og fór í meðferð, fyrst á Vog og síðar á Staðarfell.“

Það var á þessum tímapunkti sem Hilmar viðurkenndi fyrir fjölskyldu sinni hvernig lífi hann hefði lifað undanfarin ár. Það var stórt skref, því feluleikurinn hafði verið mikill fram að því.

„Það leið ekki langur tími frá því að ég lauk meðferð og var fallinn aftur. Þá sá ég í raun eftir því að hafa sagt frá öllu, því þá var erfiðara að byrja feluleikinn aftur, feluleikinn sem ég hafði verið góður í,“ segir Hilmar.

Þrátt fyrir að vera fallinn tók hann dóttur sína í pabbahelgar og sinnti sinni vinnu. En honum tókst ekki að halda sér edrú og sökk lengra niður í neyslu. Hann fór aftur í meðferð og flutti í kjölfarið aftur heim til barnsmóður sinnar. Það gekk þó ekki lengi þar sem hann, að eigin sögn, breytti í raun aldrei um lífsstíl. Eftir að upp úr sambandi þeirra slitnaði flutti hann aftur upp á Akranes og opnaði þar vídeoleigu með bróður sínum. Neyslan hélt áfram þótt hann færi nokkrum sinnum í meðferð á næstu árum. Hann fór á Vog, en féll fljótlega aftur, og síðar í Hlaðgerðarkot þar sem hann dvaldi aðeins í nokkra daga án árangurs. Líklega má segja að tímabilið á árunum 2010-12 hafi verið það versta í lífi Hilmars. Á þeim tíma var hann hættur að vinna og hafði það eina verkefni að rækta kannabis heima hjá sér.

„Þarna lokaði ég mig alveg af, ég var kominn í geðrof og í raun í mjög krítískt ástand,“ segir Hilmar.

„Ég var búinn að einangra mig frá lífinu og orðinn mjög andlega veikur. Það magnaðist alltaf upp eftir því sem ég reykti kannabis, ég heyrði raddir og var haldinn ofsóknaræði. Þetta var ömurlegur tími og mjög sjúkt ástand.“ Eftir að hafa barist við það í mörg ár að brjótast út úr skelinni eins og áður hefur verið fjallað um, hafði öll sú barátta skilað því einu að Hilmar var kominn enn lengra inn í skelina og algjörlega einangraður í slæmu ástandi.

Ljósmynd/Eggert

Átti við edrú vandamál að stríða

Það var síðan árið 2012 sem Hilmar fór í meðferð í Hlaðgerðarkoti. Það reyndist hans síðasta meðferð og hann hefur verið edrú síðan þá, eða í um sjö ár.

„Þarna voru allir, þar á meðal foreldrar mínir, búnir að gefast upp á mér, og það var enginn að ýta á mig að fara í meðferð. Eftir á að hyggja var það gott, ég fór í meðferð á mínum eigin forsendum og ég trúði því og vonaði að ég gæti orðið edrú,“ segir Hilmar.

„Ég vissi að starf Samhjálpar væri byggt á kristnum grunni og ég lét það ekki trufla mig. Þvert á móti trúi ég því í dag að vegna trúarinnar hafi ég orðið edrú. Þarna var ég mjög einbeittur á það að gera allt það sem fyrir mig væri lagt í meðferðinni. Hugarfarið var breytt um leið og ég stimplaði mig inn. Ég var ákveðinn í því að láta reyna á það að verða edrú og leggja allt annað til hliðar.“

Spurður um það af hverju þessi tiltekna meðferð skilaði árangri ólíkt fyrri meðferðum segir Hilmar að fyrri meðferðir hafi skilað bata í skamman tíma, hann hafi komið ferskur út úr þeim, en aldrei náð að höndla lífið almennilega þar sem ekki hafi verið tekið á rótum vandans.

„Ég get orðað þetta svo að ég hafi líka átt við edrú vandamál að stríða,“ segir Hilmar til nánari útskýringa.

„Eins og ég nefndi áður þá leið mér ekki vel þegar ég var edrú og leið alltaf betur í vímu. Þegar ég var orðinn edrú og fínn þá fannst mér það ekki spennandi ástand, mér leið illa andlega, var þungur á mér og taldi hið hefðbundna fjölskyldulíf ekki henta mér. Auðveldasta leiðin út úr því ástandi var að detta í það aftur. Það var í raun aldrei tekið á upprunalega vandanum, sem var það að vera feiminn og fastur inni í skel á unglingsaldri. Í síðustu meðferðinni fékk ég aðstoð við þetta. Mér hefur aldrei liðið betur á allri minni ævi en síðustu sjö ár.“

Að sögn Hilmars gekk vel að fóta sig edrú að meðferð lokinni.

„Fyrsta árið var það að halda mér edrú í raun eina alvöruverkefnið sem ég sinnti. Ég fór á tvo fundi á dag og stundum fleiri um helgar, tók sporin og sinnti þessu af heilum hug. Ég var á tímabili með fundi á Litla-Hrauni, á geðdeild Landspítalans og fleiri stöðum þar sem ég gat miðlað af minni reynslu og hjálpað öðrum.

Alkóhólisminn er mjög sjálfhverfur sjúkdómur, og til að losna út úr honum þarf maður að sinna öðrum og gera sitt besta að til að hjálpa öðrum,“ segir Hilmar.

„Það skiptir máli að hafa eitthvað fyrir stafni, hafa verkefni að sinna og skýran fókus. Margir alkóhólistar eru mjög atorkumiklir. Það er ekki hægt að segja þeim að taka því rólega í tvö ár til að reyna að halda sér edrú. Það besta sem menn gera er að koma sér í vinnu eða hafa allavega einhverja dagskrá sem þeir fylgja. Ég hafði verkefni þetta fyrsta ár mitt, en var samhliða farinn að mála aftur.“

Ljósmynd/Eggert

Fótaði sig upp á nýtt

Sem fyrr segir hafa síðustu sjö ár verið þau bestu í lífi Hilmars. Á þeim tíma sem liðinn er hefur hann eignast konu, Rosemary, sem hann kynntist í Nígeríu, þegar hann fór þangað til að sinna hjálparstarfi. Þau eiga saman eitt barn og eiga nú von á öðru. Hann er í góðu sambandi við eldri dóttur sína sem hann á úr fyrra sambandi og um leið þakklátur fyrir að hafa haft tækifæri til að byggja líf sitt upp á ný. Þá starfar hann sem sjálfstæður málarameistari og reksturinn gengur vel.

„Mér hefur tekist að snúa lífinu við. Eignast fjölskyldu, koma fjármálum mínum í lag, eignast vini og þannig mætti áfram telja,“ segir Hilmar.

„Ég tel mig vera mjög blessaðan mann. Staðan núna er mun betri en hún var fyrir 4-5 árum og þetta var ekki alltaf auðvelt. Ég þurfi að koma fjármálum mínum í lag eftir tvo áratugi af óreiðu og það tókst með góðu skipulagi. Ég var líka það heppinn að kynnast Rosemary sem hjálpaði mér mikið að skipuleggja fjármálin. Mér hefur tekist að fóta mig upp á nýtt í lífinu og fyrir það er ég þakklátur.“

Fortíðin skilgreinir mig ekki

Aðspurður segist Hilmar ekki líta á það sem baráttu að halda sér edrú.

„Það er alls engin barátta og eftir að ég lauk meðferð hef ég aldrei látist freistast,“ segir Hilmar.

„Þess vegna á ég í raun erfitt með að segja, ef ég fer á AA fund, að ég sé alkóhólisti. Það er af því að ég lít ekki á mig sem alkóhólista lengur. Ég tel ekki að maður þurfi að skilgreina sig eða kynna sig af fortíð sinni. Ég lít þannig á að ég hafi náð fullum bata, og þessi löngun hefur verið tekin frá mér. Ég er vissulega meðvitaður um það að ég myndi falla um leið og ég myndi neyta áfengis eða fíkniefna, en ég fell ekki í þær freistingar. Ég fer ekki lengur á AA fundi, en ég mæli mikið með því að menn geri það eftir meðferð. Þó ekki sé nema bara upp á félagsskapinn. Ég átti enga edrú vini eftir að ég kláraði meðferðina og þurfti að kynnast nýju fólki.“

Það verður ekki hjá því komist að spyrja Hilmar að lokum hvort hann sjái eftir þeim 20 árum sem fóru í neyslu áfengis og fíkniefna.

„Það hefur lítið upp á sig, en auðvitað hugsa ég stundum um það þegar ég lít á bekkjarfélaga mína úr skóla. Þeir eru löngu búnir að eignast fjölskyldu og jafnvel komnir með börn sem eru flutt að heiman, búnir að koma undir sig fótunum og svo framvegis. En ég lít bara þannig á að ég hafi ekki haft þroskann til að stofna fjölskyldu fyrr en á seinni árum, ég hlýt að vera svona seinþroska,“ segir Hilmar og hlær við.

„En ég veit að í dag er ég ábyrgur faðir og eiginmaður. Ég hefði líklega aldrei kynnst trúnni og því góða lífi sem ég á í dag nema fyrir þessa leið sem ég fór í lífinu. Ég er spenntur fyrir framtíðinni og það er bara bjart fram undan.“

mbl.is