Forðastu kulnun um jólin

Jólin geta verið streituvaldandi fyrir marga.
Jólin geta verið streituvaldandi fyrir marga. Unsplash/HaroldWinhjold

Jólin geta verið mikill álagstími fyrir fólk. Sumar streituvaldandi aðstæður getur maður ekki komið í veg fyrir en það er hins vegar ýmislegt sem maður getur gert til þess að draga úr líkum á að álagið beri mann ofurliði. Sálfræðingurinn Olivia Arezzolo gefur hér nokkur góð ráð:

Slepptu áfenginu

Það er gömul saga og ný að neysla áfengis dregur úr manni orku og gæði svefns verða lakari. Maður er því verr í stakk búinn til þess að takast á við verkefni dagsins. Þá dregur áfengi úr upptöku næringarefna matarins og skaðar flóru líkamans. Ef þú borðar hollt en ert samt orkulaus er áfengið kannski sökudólgurinn.

Minnkaðu snjalltækjanotkun

Bláa ljósið frá snjalltækjunum eykur magn streituhormónsins í líkamanum. Aðeins einn klukkutími af bláu ljósi getur aukið kortisólmagn líkamans um 35%. Þetta getur valdið einbeitingarskorti og pirringi auk svefntruflana. Settu þér tímamörk eða útvegaðu þér græjur sem takmarka þessa geislun, t.d. gleraugu eða hlíf á skjái.

Taktu inn hollar fitusýrur

Rannsóknir benda til þess að minni inntaka ómega-3-fitusýra hafi ákveðna fylgni við þunglyndi. Það er því gott að efla andlega heilsu með því að taka hollar fitusýrur en þær má finna í töfluformi eða í feitum fiski á borð við lax.

Farðu út í náttúruna

Að tengjast náttúrunni gerir mikið fyrir sál og líkama. Rannsóknir hafa sýnt fram á ýmsan ávinning við að verja tíma úti í náttúrunni eins og til dæmis bætt minni og aukinn sköpunarkraft.

Að sögn Arezzolo getur það verið fullkomlega eðlilegt að upplifa kulnunartilfinningu við vissar aðstæður í lífinu. Haldi kulnunin þó áfram í fleiri mánuði skal endilega leita læknis og fá ráðgjöf fyrir aukinn stuðning og úrræði. 

mbl.is