„Dansinn spyr ekki um aldur eða útlit“

Friðrik Agni kennir dans í Kramhúsinu.
Friðrik Agni kennir dans í Kramhúsinu.

Friðrik Agni Árnason kennir dans í Kramhúsinu fyrir allt skemmtilegasta fólk bæjarins sem vill upplifa partí í tímum í Kramhúsinu án þess að vera úti allar nætur. Hann segir dansinn góðan fyrir sambönd og jafnvel efla fólk í kynlífinu. 

Friðrik Agni er danskennari, skemmtikraftur, skáld, fyrirlesari og almennur áhugamaður um geðheilsu og jákvæðan lífsstíl. Hann byrjaði að æfa dans fjögurra ára gamall.

„Mamma mín er frá Indlandi og ég hlustaði mikið á bollywood-tónlist sem barn og horfði á bollywood-tónlistarmyndbönd og þóttist geta sungið og dansað eins og fólkið í myndböndunum.“ Seinna kynntist hann stelpu sem breytti lífinu. „Þá kynntist ég svo frábærri stelpu í Svíþjóð sem er hálfegypsk. Þannig fórum við að vinna mikið saman og hún var með mikil arabísk áhrif í sínum tímum. Það fór svo að við fórum sem hópur að kenna námskeið sem hét Arabian Nights á risaráðstefnu í Flórída fyrir zumba-kennara um allan heim. Þetta var til að kynna kennurum ólíka arabíska dansstíla til að krydda tímana sína. Þetta varð mjög vinsælt og þróaðist svo þannig að vinkona mín og mamma hennar, sem er magadansari, bjuggu til arabíska dansfitness-tíma sem kallast jallabina og ég fékk að koma með smá „input“ í það ferli. Í Kramhúsinu er blanda af öllu þessu og heita tímarnir einfaldlega PARTY WORKOUT. Við förum út um allan heim í þeim! Það eru latinó-, bollywood-, popp-, diskó- og arabísk áhrif.“ Friðrik Agni notar létt lóð til að búa til stemningu í tímanum.

„Léttu lóðin gefa 80's-fíling og svo enda ég alla tíma á góðum rassi og maga. Þannig standa tímarnir vissulega undir nafni. Þetta er danspartí með diskóljósum sem endar svo með six pack! Mig langar að fólk fari úr tímum með aukna orku og sjálfstraust til að takast á við hvað sem er. Þess vegna byrja ég líka oft tímana á því sem ég kalla „Beyonce strut“ þar sem við lyftum brjóstkassanum upp í loftið og opnum bringuna á móti öllu því sem lífið hendir til okkar og bara göngum á móti því með stælum og dansi.“

Hvað er góð heilsa?

„Góð heilsa fyrir mér er þegar þú getur setið með sjálfum/ri þér í þögn og andað rólega. Enginn sársauki í líkamanum kallar á þig og engin vond tilfinning er að gerjast í hjartanu. Ef ég get byrjað daginn minn á þessum stað veit ég að ég er almennt við góða heilsu. Þess vegna er góð heilsa líka að gefa sér tíma til þess að veita líkama og sál athygli á hverjum degi og finna hvort eitthvað sé að. Ég held að allt of oft séum við bara að ruddast einhvern veginn áfram í daginn án þess að fatta hvernig okkur líður virkilega. Við hunsum merki um vanlíðan og líkamleg eymsli þangað til við keyrum á vegg sem þvingar okkur til að setjast niður. Ég hef alveg staðið sjálfan mig að þessum ruddaskap og þess vegna er ég meðvitaður um þetta í dag. Ég er 33 ára og margt í líkamanum ekki eins og þegar ég var 22 ára. Líkaminn eldist með okkur og þótt ég sé enn þá ungur verð ég samt ekki yngri héðan í frá. Það þarf að hugsa um heilsuna á hverjum degi, allt frá mataræði og hreyfingu til svefns.“Ætti fólk að fara í dans saman til að efla sambandið?

„Miðað við að dansinn sé gleðisprengja þá já. Ímyndum okkur ef við getum sameinast þeim sem við elskum mest í lífinu í þessari gleði og verið samstillt í gleðinni. Það er líka gott upp á að sleppa tökum á stjórn og fylgja.“

Stundum er dansað með léttum lóðum.
Stundum er dansað með léttum lóðum.

Hann segir að Kramhúsið sé ólíkt öllum öðrum stöðum.

„Að kenna í Kramhúsinu er svolítið eins og að kenna í svona hippakommúnu í New York þar sem allir mega vera eins og þeir eru. Það er svona mitt viðmót gagnvart staðnum. Þarna sér maður námskeið sem ekki eru í boði neins staðar annars staðar. Kramhúsið er sér á báti hvað kennaraúrval varðar og fjölbreytileika.“

Friðrik Agni er á því að menningarlega fjölbreytnin í Kramhúsinu laði fólk að staðnum.

„Ég held að það sé einmitt það sem laðar flesta að húsinu. Alla vega þá sem eru í leit að einhvers konar griðastað til að sleppa tökum aðeins í burtu frá eigin umhverfi. Þá er einhvern veginn umhverfið í Kramhúsinu tilvalið fyrir það.“

Hvernig hugarðu að heilsunni?

„Kannski er ég bara með þetta týpíska svar, en ég huga að heilsunni út frá líkama, hjarta, sál og huga. Til þess að veita öllum þessum hlutum sitt verðskuldaða vægi þarf ég að gefa mér tíma til þess. Það geri ég með því að vakna snemma á morgnana og einfaldlega gefa mér tímann þannig. Til að hugsa um líkamann þá er það hreyfing og hlustun. Teygjur, dans og styrkur. Til að næra hjartað reyni ég að gefa af mér eins mikla ást og ég get og hugsa um virði þess að þjóna lífinu á einhvern hátt. Það er hægt að gera það með alls kyns litlum hlutum eins og bara að deila mat með fólki eða veita fólki óskipta athygli þegar það er að tala. Til að næra sálina hugleiði ég og reyni að koma ró og jafnvægi á hugann svo hann sé ekki alltaf í viðbragðsstöðu en svo til að rækta hugann þá læri ég. Ég vakna klukkan fimm á morgnana og nota fyrsta klukkutíma dagsins í að huga að öllu þessu að ofan. Ég mæli með því en geri mér fullkomlega grein fyrir því að það hentar ekki öllum.“

Hvað gerir þú aldrei, út af heilsufarslegum ástæðum?

„Ég nota ekki eiturlyf né reyki.“

Að kenna í Kramhúsinu er svolítið eins og að kenna …
Að kenna í Kramhúsinu er svolítið eins og að kenna í hippakommúnu í New York þar sem allir mega vera eins og þeir eru.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál