Elsta kona í heimi elskar vín og súkkulaði

Systir André er elsta manneskja í heimi.
Systir André er elsta manneskja í heimi. AFP/ NICOLAS TUCAT

Hin 118 ára gamla systir André varð elsta manneskja í heimi á dögunum. Franska nunnan hætti ekki að vinna fyrr en hún varð 108 ára. Hún er með einfaldan matarsmekk og elskar að fá sér súkkulaði og vínglas. 

„Fólk segir að vinna drepi en hún hélt í mér lífinu. Ég vann þangað til ég varð 108,“ sagði hin kaþólska André við fjölmiðla í frönsku borginni Toulon. André er blind og notast við hjólastól en annaðist sjálf eldra fólk þegar hún var ung. 

André var elsta manneskja í Evrópu en tók við heimsmeistaratitlinum nýlega þegar hin japanska Kane Tanaka dó 119 ára að aldri. 

Guð veit leyndarmálið

Systir André fæddist árið 1904 og hét Lucile Randon áður en hún gekk í klaustur. Hún biður bænir sínar, borðar og fær heimsóknir frá öðrum á spítalanum og starfsfólki. Hún fær reglulega bréf og svarar þeim flestum. Hún er nokkuð hraust og hristi af sér kórónuveiruna í fyrra. Hún vill hins vegar ekki láta greina erfðaefnið sitt og segir guð vera þann eina sem veit leyndarmálið að langlífinu. 

Starfsmaður á elliheimilinu segir að systir André borði allt og hún sé ekki með sérstakar þarfir. „Hún er með mjög einfaldan smekk. Auðvitað er sælgætið, sérstaklega súkkulaðið hennar sakbitna sæla,“ segir starfsmaðurinn og bætir við að systir André fái sér líka reglulega vínglas og það sé mögulega leyndarmálið á bak við langlífið. Hann vill þó ekki mæla með að fólk drekki vín á hverjum degi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál