Reglulegir matartímar hafa áhrif á húðina

Lára G. Sigurðardóttir læknir.
Lára G. Sigurðardóttir læknir. Ljósmynd/Saga Sig

Lára G. Sigurðardóttir læknir segir að það sé ekki nóg að bera bara á sig dýr krem til þess að viðhalda fegurð húðarinnar. Hún segir að nætursnarl dragi úr ljóma húðarinnar og að óreglulegur svefntími sjáist á andliti fólks.

Þeir sem hafa vakað næturlangt kannast sumir við að sjá fölari útgáfu af sér í speglinum þegar líða tekur á nóttina. Það er ekki einvörðungu vegna þreytu, heldur lækkar líkamshiti á næturnar. Aftur á móti erum við líklegust til að vera rjóð í kinnum um eftirmiðdaginn þegar líkamshiti nær hámarki. Starfsemi í húðinni, líkt og önnur líkamsstarfsemi, er nefnilega háð gangi lífklukku sem staðsett er í heilanum.

Til að starfsemi húðarinnar sé sem best þarf að hafa annað í lífinu nokkuð reglufast, svo sem háttatíma og matartíma. Óregla á matartíma hefur reynst hafa áhrif á húðfrumur, en rannsókn ein sýndi að nætursnarl dró úr getu húðarinnar til að verjast sólargeislum og viðgerðarhæfni. Eins er talið að óreglulegur svefntími trufli endurnýjun húðarinnar og auki líkur á húðvandamálum. Húðin hegðar sér þannig mismunandi eftir tíma dags. Því er vert að hafa í huga nokkur atriði sem varða húðrútínu kvölds og morgna,“ segir Lára og bendir á að næturnar séu miklu dýrmætari, fyrir þá sem vilja vera frísklegir í útliti, en fólk geri sér kannski grein fyrir.

„Gegnflæði húðar er meira á kvöldin og nær hámarki um klukkan fjögur að nóttu. Það minnkar svo hægt og rólega eftir því sem líður á daginn. Húðin tapar meiri vökva þegar gegnflæði eykst og því er líklegra að þurrkur og kláði geri vart við sig á kvöldin og næturnar. Að sama skapi geta bólgusjúkdómar versnað á nóttunni. Því er gott að nota feitari krem að kvöldi til að fanga betur raka í húðinni, en næturkrem eru almennt feitari. Húðin endurnýjar sig hraðast á nóttunni. Hún grær hraðar og framleiðir meira kollagen. Viðgerð á erfðaefni sem hefur orðið fyrir skaða (til dæmis af völdum útfjólublárra geisla) er einnig í hámarki á næturnar. Því eru krem við öldrun sögð virkari séu þau borin á húðina fyrir svefn, en aukið gegnflæði greiðir einnig leið húðvara inn í húðina.“

Svefn- og matarvenjur hafa áhrif á húðina.
Svefn- og matarvenjur hafa áhrif á húðina. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

Hvernig ætti morgunrútínan að vera til þess að hugsa sem best um húðina?

„Til að húðin haldi áfram að endurnýja sig af fullum krafti þarf að huga að fleiru en svefninum. Sólarvörn gerir til dæmis meira gagn en rétt á meðan hún ver húðina. Ef þú sleppir að verja húðina gegn sólinni geta sólargeislar valdið skaða allt fram á nótt, á þeim tíma sem húðfrumurnar ættu að vera að byggja sig upp. Sólarvörn sem notuð er að degi hjálpar þannig líka til á nóttunni. Athugaðu að sólarvörn þarf ekki alltaf að vera sólkrem, heldur getur það verið að halda sér í skugga, klæða af sér sólina, nota hatt og sólgleraugu. Síðan er framleiðsla á húðfeiti mest upp úr hádegi en minnst á nóttunni. Því hentar olíukenndri húð að fá krem án fituefna að degi til,“ segir hún.

Það er líklega aldrei brýnt nógu vel fyrir fólki að það eigi að fara að sofa fyrir miðnætti og vakna á sama tíma á morgnana. Lára segir að það skipti mjög miklu máli að taktur húðarinnar sé sem bestur.

„Taktur húðarinnar er bestur þegar við höfum rútínu á lífinu. Blátt ljós að degi til hefur jákvæð áhrif á lífklukku og svefn. Ef þú dvelur mikið innandyra gæti verið ráð að stíga út í hádeginu eða um bjartan dag í tíu mínútur hið minnsta. Frumurnar í augnbotninum nema birtuna og senda skilaboð áleiðis til lífklukkunnar, sem styrkist og setur meiri kraft í framleiðslu á melatóníni. Dagljósalampar geta gert saman gagn. Að borða og sofa á sama tíma styrkir einnig réttan takt.

Bláa ljósið frá snjallsímum og öðrum raftækjum að kvöldi ruglar hins vegar takt lífklukkunnar því það sendir heilanum skilaboð um að það sé dagur (og alls ekki háttatími) enda er bláa ljósið allsráðandi um hábjartan dag. Rautt ljós og lítil birta er hins vegar róandi, líkt og sólsetur. Þá getur hjálpað að lesa bók við dauft ljós – samt ekki of spennandi!“

Lára bendir á að fólk sé einstaklega heppið að vera með svona fullkomið líffæri eins og húðina sem getur endurnýjað sig á meðan það sefur.

„Til að koma sér í ró fyrir nóttina er hægt að hræra saman afurðum úr eldhúsinu í yndismaska, svo sem Þrotabanann,“ segir Lára en uppskriftin birtist í Húðbókinni sem hún gaf út í fyrra ásamt Sólveigu Eiríksdóttur.

Þrotabaninn inniheldur meðal annars banana.
Þrotabaninn inniheldur meðal annars banana. Ljósmynd/Hildur Ársælsdóttir

Þrotabaninn

„Þessi maski er mildur en næringarríkur. Bananar innihalda kalíum sem heldur vökva í frumum og raka í húð, kísil sem bætir kollagen-nýmyndun og B6-vítamín sem styrkir húðina en skortur getur valdið húðbólgu, C-vítamín sem er nauðsynlegt fyrir kollagen-nýmyndun og andoxunarefni til að verja húðina gegn bólgu. Hunang er náttúrulegt rakaefni og hreinsiefni auk þess að vera bakteríudrepandi og túrmerik er þekkt bólguhamlandi efni.

Það sem þú þarft:

1 cm af þroskuðum banana
½ tsk. hunang
¹∕8 tsk. túrmerik

Aðferð:

1. Stappaðu banana og hrærðu saman túrmerik og hunang.

2. Berðu á hreina húð og nuddaðu með hringhreyfingum í tvær mínútur.

3. Leyfðu að virka í 15 mínútur.

4. Hreinsaðu af með volgu vatni og berðu á húðina gott rakakrem.

5. Slakaðu á og njóttu þess hve húðin er mjúk og ljómandi.

Varúð! Ef þú ert með ofnæmi fyrir latex getur verið að bananar henti þér ekki. Sumir ávextir innihalda prótein sem líkjast ofnæmisvaldi í latexi, þ. á m. bananar. Athugaðu að túrmerik getur skilið eftir sig gulleitan lit og erfitt er að ná því úr fatnaði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál