Bryndís burðast ekki með óþarfa

Bryndís Torfadóttir.
Bryndís Torfadóttir. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Bryndís Hagan Torfadóttir hefur flutt um það bil 50 sinnum og er löngu orðin vön að pakka ofan í kassa. Stundum notar hún flutningana til að grisja og gefa frá sér. 

Flestum þykir fátt leiðinlegra en að flytja. Það er svo afskaplega mikið umstang sem fylgir því að pakka stóru sem smáu ofan í kassa, sem síðan þarf að bera í tuga- og jafnvel hundraðavís upp eða niður þrönga stiga og stafla í flutningabíl eða gám. Að ekki sé minnst á níðþung húsgögnin, og svo einfaldlega það allsherjarrask sem verður á heimilislífinu á meðan. Þegar upp er staðið óskar fólk þess yfirleitt að þurfa aldrei aftur að flytja, strengir þess heit að hætta að safna þungum bókum og sparistellum, og helst kaupa aðeins lauflétt basthúsgögn eftirleiðis.

Eftir að hafa sennilega flutt um það bil 50 sinnum á lífsleiðinni – oft á milli landa – játar Bryndís Hagan Torfadóttir að hún hafi ekki mjög gaman af flutningunum en hún hefur tamið sér ákveðin vinnubrögð sem einfalda flutningana og byrjar t.d. á að tæma geymsluna.

Ástæðan fyrir þessum tíðu flutningum Bryndísar er að hún starfaði í hartnær 50 ár hjá flugfélaginu SAS. Var hún m.a. fengin til að setja ferðaskrifstofu á laggirnar á Grænlandi, opna þjónustuver í Eistlandi, og sinna fjölbreyttum verkefnum á Norðurlöndum og í Bretlandi.

Heimilið er griðastaður

Þrátt fyrir að flytja svona oft er Bryndís ekki með berstrípaða búslóð. Hún hefur oft notað flutningana til að gera tilraunir með nýjan stíl, er núna búin að útbúa heimili sitt þannig að áherslan er á hlýleika og notalegheit. „Ég hef farið frá því að vera með allt skandinavískt, ljóst og hreint, yfir í að gera heimilið eins og nú þar sem mikið er af bókum, skinnum, útsaumi og dökkum litum,“ útskýrir hún.

Bryndís gætir þess að sanka ekki að sér hlutum sem hún ekki þarf og stundum hafa flutningarnir kallað á að grisja og þá ýmist leyfa ættingjum og vinum að taka húsmuni sem gætu nýst þeim, eða einfaldlega gefa á nytjamarkað. „Ég hef reynt að njóta þess sem ég á, en sakna ekki þess sem ég læt frá mér, heldur safna bara minningum. Ef eitthvað skemmist eða glatast – eins og þegar heil búslóð týndist eitt sinn – þá hef ég hugfast að þetta eru bara dauðir hlutir og að það er fólkið í kringum mig sem skiptir raunverulega máli,“ segir hún og bendir á að af þeim sökum sé nauðsynlegt að heimilið skapi þægilegan ramma utan um þá sem þar búa, sé vagga og vistlegur griðastaður, og að gestum líði vel þegar þá ber að garði.

Bryndís á því allstóra búslóð, en burðast ekki með neitt sem hún ekki notar. Passar hún sig sérstaklega á að fylla geymsluna ekki af drasli: „Þar hef ég hluti á meðan þeir eru ekki í notkun, en tek síðan fram þegar ég skýst á golfvöllinn, í veiðiferð, eða byrja að skreyta fyrir jólin. Allt sem er í geymslunni á sitt hlutverk og situr ekki óhreyft á hillu allt árið – því þá er best að koma því einfaldlega á nytjarmarkað eða á haugana.“

Einnig gætir Bryndís að því að reyna að laga heimilið að þeim stað sem hún býr á, og t.d. haga matseldinni að matarhefðum og hráefni heimamanna. „Ég er ekki að taka íslenska matinn með mér, heldur læri á, og tem mér að njóta matarmenningarinnar á hverjum stað: að sakna aldrei neins en vera þeim mun duglegri að reyna eitthvað nýtt og safna minningum.“

Lætur fagmenn um burðinn

Eftir að búið er að tæma geymsluna segir Bryndís að eftirleikurinn sé tiltölulega einfaldur. Það þarf ekki að taka langan tíma að pakka smáhlutunum í hverju herbergi ofan í kassa og merkja vel. Viðkvæmustu hlutunum vefur Bryndís inn í pappír, og kaupir hún hvítar arkir frekar en að nota dagblaðapappír því þannig getur hún sparað sér uppvask ef blek nuddast t.d. á postulínið. „Ætli það taki ekki tvo daga að pakka öllu niður og fæ ég síðan fagmenn til að sjá um burðinn.“

Bryndís segir betra að ráða flutningamenn en að leita á náðir vina og ættingja við að aðstoða við flutningana. „Sá viðbótarkostnaður ætti einfaldlega að vera hluti af því sem lagt er til hliðar til að standa straum af flutningunum, frekar en að vera að ónáða önnum kafið fólk og níðast á vinskapnum. Það getur líka skapað alls kyns vandræði ef einn vinur kemur að hjálpa en annar kemst ekki, og fólk fær jafnvel samviskubit ef eitthvað veldur að það getur ekki lagt sitt af mörkum við flutningana. Þá er vikan orðin þannig hjá flestum að mörgu öðru þarf að sinna en að burðast með kassa og húsgögn fyrir annað fólk.“

HÉR getur þú lesið Fasteignablað Morgunblaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál