Hönnuðu og smíðuðu sinn eigin sælureit í Kópavogi

Alma María Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Guðmundur Guðnason tölvunarfræðingur.
Alma María Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Guðmundur Guðnason tölvunarfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Vorið 2017 festu hjónin Alma María Rögnvaldsdóttir hjúkrunarfræðingur og Guðmundur Guðnason tölvunarfræðingur kaup á 220 fermetra einbýlishúsi við Hrauntungu í Kópavogi. Með húsinu fylgdi stór garður sem hefur tekið algerum stakkaskiptum á síðustu tveimur árum og er það aðallega að þakka eljusemi feðganna Guðmundar og Marteins sem er 21 árs. 

Við erum búin að gera allan garðinn upp sunnanmegin og nú erum við að taka hina hliðina sem snýr í norður í gegn,“ segir Alma. Hún segir að hugmyndirnar að pallinum og umhverfinu hafi komið smátt og smátt. Til dæmis af Pinterest þar sem hægt er að útbúa myndamöppur og sækja innblástur en líka úr görðum annarra. Svo fengu þau arkitekt til að aðstoða við að útbúa teikningar.

Eins og sjá má á myndunum er þessi pallur, og garður, svolítið öðruvísi en við eigum að venjast. Til dæmis bara gróðurhúsið og beðið þar við hlið. Þessi hugmynd er nýstárleg og frábær lausn fyrir fólk sem langar að rækta eitthvað en langar ekki að viðhalda stórum garði með trjám og tilheyrandi.

„Ég smitaðist eiginlega af garðyrkjuáhuga í gegnum Martein son minn, sem vann í garðyrkju í fjögur ár. Við keyptum gróðurhúsið strax árið 2018 þegar framkvæmdirnar stóðu sem hæst og þetta er því þriðja sumarið sem við erum að rækta,“ segir hún og bætir við að þau séu þannig bara algjörir byrjendur. „Svo erum við líka með innigarð þar sem við getum forræktað fyrir gróðurhúsið. Þar erum við með sumarblóm kryddjurtir, hindber, jarðarber, vínber, tómata, chilli, paprikur, gúrkur og fleira spennandi.“

Eins og fyrr segir unnu hjónin verkið alveg sjálf og gáfu sér því ágætan tíma í það, eða nokkra mánuði.

„Ég á mjög handlaginn og nákvæman eiginmann sem hannaði og smíðaði sjálfur með minni aðstoð. Þeir feðgar skelltu sér svo í kvöldskóla í húsasmíði í vetur vegna óþrjótandi áhuga á smíðum og endurgerð húsnæðisins,“ segir hún glöð.

Eins og gengur með ástríðufólk er verkinu að sjálfsögðu ekki alveg lokið enda garðar og umhverfi húsa þess eðlis að það er alltaf hægt að breyta og bæta við. Þau hjónin ætla til dæmis að helluleggja fyrir framan húsið og setja upp skjólvegg og beð og þar verður grillaðstaða. „Svo ætlum við að setja upp heitan pott og útisturtu ásamt útisvæði með sófa og pergólu sunnanmegin,“ segir Alma að lokum og þá er alveg spurning hvort útsendari garðablaðsins mæti ekki aftur að ári, eða þegar allt er klárt í þessum sælureit suður í Kópavogi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »