Keypti íbúð á árinu og heldur fyrsta jólaboðið

Rakel Hjartardóttir.
Rakel Hjartardóttir. mbl.is/Unnur Karen

Rakel Sjöfn Hjartardóttir bakari er góð í að gera fallegar kökur á jólaborðið. Súkkulaði-crêpesið hennar slær alltaf í gegn enda er sú kaka einstaklega flott og bragðgóð. 

„Þegar ég var yngri gerði ég margar tilraunir í bakstri. Ég gerði sem dæmi kransakökuna mína sjálf þegar ég fermdist. Ég hóf nám mitt sem bakari strax eftir grunnskóla og lærði hjá Jóa Fel. Seinna vann ég einnig hjá 17 sortum. Þegar ég var 21 árs þurfti ég að hætta að vinna við bakstur vegna veikinda, svo það voru nokkur ár þar sem ég bakaði ekki mikið og gerði þá aðallega kökur fyrir fjölskyldu mína og vini.“

Fyrr á þessu ári ákvað Rakel að nú væri kominn tími til að byrja að baka aftur.

„Þegar ég var yngri hafði ég miklar áhyggjur af því að kökurnar sem ég bjó til væru ekki nægilega flottar, þær voru ekki þráðbeinar og rennisléttar. Mér fannst ég ekki hafa vott af listrænum hæfileikum í mér. Nú hef ég lært að sjá fegurðina í ófullkomleikanum og þegar ég bý til kökur og eftirrétti reyni ég að hugsa ekki of mikið um útlit þeirra. Ég byrja bara að skreyta og leyfi sköpunargleðinni að ráða.“

Góð að gera kökur fyrir aðra

Rakel gerir einstakar kökur fyrir jólin. Meðal annars hvíta köku sem hún skreytir með grænu greni og rauðum berjum.

„Ég gerði þessa köku fyrst sem útskriftarköku fyrir eina af mínum bestu vinkonum. Þetta er vegansúkkulaðikaka með ganache á milli botna.

Þegar ég geri kökur fyrir fjölskyldu og vini reyni ég að hafa þær eins persónulegar og ég get.

Bragðtegundin er þá eitthvað sem ég veit að viðkomandi finnst gott eða heldur upp á. Það sama á við um útlitið.

Ég var ekkert búin að ákveða fyrir fram hvernig ég ætlaði að skreyta kökuna heldur tók ég saman það sem mér fannst passa við vinkonu mína og byrjaði svo bara að púsla einhverju saman.“

Hverju mælirðu með á jólunum sem er einfalt og gott?

„Súkkulaði-crêpes er einföld og góð kaka sem er frábær á jólaborðið. Hún sýnir að einfaldleikinn stendur fyrir sínu. Það þarf ekki meira en crêpes (pönnukökur) og rjóma, þá ertu komin/n með fallega og bragðgóða köku sem höfðar til flestra.

Maður vill auðvitað bjóða upp á góðar og fallegar kræsingar á jólaborðinu og það getur tekið tíma, en það er einmitt það sem mér finnst skemmtilegt við þessa köku. Í raun er það grófleikinn sem gerir hana flotta.

Síðan er líka mikið svigrúm til að leika sér með samsetninguna. Það er hægt að hafa hana klassíska eða fríska upp á bragðið með ganache eða berjum.“

mbl.is/Unnur Karen

Býður upp á létta og góða eftirrétti á jólunum

Þau hjónin verja jólunum með stórfjölskyldunni og mætir þá Rakel vanalega með eftirréttinn.

„Ég kem aldrei með sama eftirréttinn tvisvar. Mér finnst gaman að koma með eitthvað sem er ekki endilega talið vera klassískur jólaeftirréttur, eitthvað létt og ferskt sem getur verið gott þegar maður er búinn að borða yfir sig af jólamatnum. Sem dæmi sítrónutart.

Við ætlum samt að halda okkar fyrsta jólaboð í ár á Þorláksmessu. Við hjónin keyptum okkur íbúð á árinu og hlökkum mikið til að geta boðið fjölskyldunni heim.

Ég á örugglega eftir að búa til allt of margar tegundir af kökum og eftirréttum, en ég er löngu búin að búa til lista yfir það sem mig langar að bjóða upp á.

Ég hef svo gaman af því að baka að ég geri yfirleitt alltof metnaðarfull plön miðað við tímann sem ég hef.“

Að bjóða upp á heimalagaðar kökur hefur vanalega mikla merkingu að mati Rakelar.

„Mér finnst það allavega hafa mikla merkingu. Þegar ég bý til kökur fyrir mína gesti finnst mér ég vera gera eitthvað í þeim tilgangi að gleðja. Ég tel gestina hafa gaman af því að borða kökurnar sem ég vanda mig við að gera. Það vakna sömu tilfinningar við að gera afmælisköku fyrir einhvern eins og að gera kökur fryir heilt boð.

Tilgangurinn er að gleðja. Það gleður alla að fá blóm og mig langar að halda að það gleðji líka að fá kökur. Svo þegar ég legg vinnu í að gera kökur vona ég að það veki sömu tilfinningu og ef ég myndi gefa hverjum gesti stóran blómvönd fyrir að koma í heimsókn.“

Gott að bera sig ekki saman við aðra þegar maður bakar

Telur þú alla geta bakað?

„Já, það geta svo sannarlega allir bakað. Ég hef fulla trú á því að allir geti klórað sig í gegnum þá uppskrift sem verið er að nota, sama þótt flækjustigið sé hátt.

En það er kannski oft skreytingin sem fólki finnst draga sig niður. Það verður alltaf erfitt að herma nákvæmlega eftir einhverri mynd sem maður sá á Pinterest. Ef það er flott skreyting sem viðkomandi vill prófa, þá ættu allir frekar að gera sína útgáfu af kökunni og hafa myndina þá frekar til viðmiðunar. Það verður enginn ánægður með sína eigin vinnu ef verið er að bera sig saman við næsta mann. Ég tel ánægjulegra að leyfa sköpunargleðinni að ráða og standa með sínu.“

Hún segir kökur á netinu þannig gerðar að nánast ómögulegt sé að gera eins kökur þar sem verkfærin og umgjörðin eru flóknari en venjuleg eldhús bjóða upp á.

„Þess vegna segi ég að maður verður kannski ánægðari með útkomuna ef maður gerir sína eigin útgáfu.“

Hver eru eftirminnilegustu jól sem þú hefur upplifað?

„Það voru jólin í fyrra, árið 2020.

Sonur minn var nýlega fæddur þá, aðeins fjögurra vikna. Við vorum bara stutt í öllum jólaboðum og fórum snemma heim til að vera í rólegheitunum saman heima hjá okkur.

Mér fannst svo notaleg tilfinning að vera heima með litlu fjölskyldunni minni og búa til okkar eigin hefðir.“

Súkkulaði-crêpes-kaka

80 g smjör

670 ml mjólk

6 egg

210 g hveiti

80 g kakó

90 gr sykur

1000 g rjómi til að setja á milli

Aðferð

1. Bræðið smjörið saman við mjólkina og leyfið að kólna aðeins.

2. Setjið hveiti, kakó og sykur saman í skál. Hrærið saman og passið að það séu engir kekkir í hveitinu.

3. Bætið eggjunum saman við hveitiblönduna. Hrærið þar til blandan er orðin að þykku deigi.

4. Að lokum er mjólkurblöndunni blandað saman við deigið í skömmtum. Passið að blanda vel saman á milli til að forðast kekki í deiginu. Best er að nota písk eða handþeytara.

5. Hellið þunnu lagi af deiginu á pönnu, bæði er hægt að nota pönnukökupönnu og crêpes-pönnu. Bakið crêpes þar til þær eru farnar að þorna á yfirborðinu. Snúið kökunum við og bakið þar til ljósbrúnar á hinni hliðinni.

6. Þeytið rjómann og búið til ganache á meðan kökurnar eru að kólna.

Ganache

375 g súkkulaðidropar

250 g rjómi

50 g smjör

Aðferð

1. Setjið súkkulaðið í skál og setjið til hliðar.

2. Setjið rjómann í pott og hitið að suðu.

3. Hellið rjómanum yfir súkkulaðið og leyfið að standa í eina mínútu.

4. Hrærið blönduna saman hægt og rólega með sleikju. Mikilvægt er að gera þetta rólega til að ná blöndunni mjúkri og glansandi

Einnig er hægt að nota mjólkursúkkulaðidropa, það þarf aðeins meira af mjólkursúkkulaði til að halda þykktinni. Setja þarf 450 g af mjólkursúkkulaði í þessa uppskrift.

Einnig er hægt að setja 2-3 anísstjörnur í rjómann þegar hann er hitaður til að fá smá lakkrískeim.

Samsetning

1. Setjið kalda crêpes-köku á disk og smyrjið hana með smá ganache.

2. Smyrjið kökuna næst með rjóma, gott ef rjómalagið er svipað þykkt og kakan.

3. Endurtakið þar til þið eruð búinn að stafla öllum kökunum.

4. Endalagið á að vera kaka.

5. Hægt er að setja ganache á efstu kökuna og skreyta að vild.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál