c

Pistlar:

17. júlí 2015 kl. 12:02

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Leti hefur sína kosti.

Ég stend mig að því að finnast ég eigi að gera eitthvað sniðugt á sumrin. Garðvinna, veiðar, fjallaferðir, og golf - eða bara hlaupa Laugarveginn, allt svo fjallaleiðina, vera í miðnæturhlaupum og hestaferðum. En undanfarið hefur mig bara langað að gera ekki neitt. Bara akkúrat ekki neitt. Helst liggja bara upp í sófa og góna eða sitja úti og spjalla. Ég hef reynt að berja á mér en ekkert gengur, það gerist ekkert annað en að ég færi mig úr einum sófa í annann. Ég reyni að hlaupa einn sprett en svo áður en ég veit af er ég farin að tölta rólega og vill helst setjast við á eða læk og stara í árfarvegin. Þetta er ekkert angur bara svona meira sumarleti.

Nú vill svo til að ég gær fékk ég góða ástæðu til að sætta mig við þetta ástand því ég las grein um að rannsóknir í taugalífeðlisfræði sýndu fram á að það væri gott og hollt fyrir heilann að gera ekki neitt! Þar sem ég sat á kaffihúsinu og gerði ekki neitt annað en að lesa blöð og drekka kaffi með dóttur minni þá lyftist brúnin á mér. Ég er sem sagt að stunda heilbrigt líf með þessari iðju :-). Greininn benti á að þegar maður er alltaf tengdur með því að hafa stöðugt símann á sér með öllum sínum skyldum og samfélagsmiðlum þá er maður ekki að gera ekki neitt. Maður gerir sem sagt ekki neitt með því að hanga bara, bara hanga án alls áreitis. 

Sumarið er tíminn til að gera allt það skemmtilega sem mann langar eins og veiða, hlaupa, ganga, hittast, finnast, týnast og lesa en líka til að gera ekki neitt... það er staðfest að það er hollt. Slökkva bara á öllu og öllum og leggjast í leti og safna orku fyrir veturinn. Mikið er ég fegin að ég las um þetta í gær og get nú leyft mér að halda þessari iðju áfram þangað til að ég hef orku til annars. Njótið sumardagana vel og vandlega.