c

Pistlar:

25. febrúar 2016 kl. 11:22

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Lifðu lengur: Fjárfestu í nánum samböndum

Ég verð að syngja reglulega óð til vináttunnar, fjölmargar rannsóknir hafa staðfest að vinir auka ekki bara hamingju og vellíðan heldur lengja lífið. "Traustur vinur getur gert kraftaverk" söng hljómsveitin Upplyfting einhvern tímann fyrir löngu og þar höfðu þeir rétt fyrir sér.

Þegar skoðað hvað skiptir mestu máli í lífi fólks sem lifir lengst (mjög þekkt rannsókn á yfir 700 karlmönnum í Boston sem hófst 1939) þá eru það náin sambönd. Ekki hversu ríkir, frægir eða horaðir, þeir eru heldur hversu náin sambönd þeirra eru við fjölskyldu, vini og aðra. Mesta spágildi um lífshamingju og lífslengd um fimmtugt eru hvort þeir voru í nánu sambandi við maka og fjölskyldu og vini. Náið samband við maka þýddi ekki að sambandið væri hnökralaust, aldeilis ekki, fólk getur rifist eins og hundur og köttur en samt verið náið. Þá er þögnin verri.

Þekkt er rannsókn var gerð á heilsufari fólks í bæ einum í Bandaríkjunum á sjöunda áratug aldarinnar þar sem hjarta- og æðasjúkdómar þekktust varla. Rannsakandur fóru á staðinn til að skoða málið og héldu að skýringin hlyti að vera heilbrigt matarræði og líferni en bæjarbúar voru yfirleitt af fyrstu kynslóð innflytjenda frá Ítalíu. Þeim til mikillar furðu komustu þeir að því að fólkið borðaði hefðibundin ítalskan mat, reykti og drakk vín. Hins vegar voru þau ennþá með mjög náin sambönd innbyrðis, fólk læsti ekki dyrum því nágrannar fylgdust með hver öðrum og stórfjölskyldan bjó nálægt hvort öðru. Samfélagið breyttist seinna í takt við tímann og um leið fór tíðni hjartasjúkdóma upp.

Hjartað í okkur er ekki gert til að vera eitt, það vill samhljóm. Það er fátt betra en að vera með góðum vini þar sem hjörtu slá í samhljómi og hægt er að tala um viðkvæm mál og spegla sig. Slíkar stundir eru næstum helgar því heilunin sem þeim fylgir græðir lífsins sár.

Það er gott að fjárfesta í löngum stundum með einhverjum sem manni þykir vænt um? Gera eitthvað fyrir aðra, vera til staðar, hlusta og hlægja, finna til með og taka þátt í lífi annarra.  Sú fjárfesting skilar raunverulegum arði, eins og blóm sem þrífst og dafnar með góðri umhirðu. "Því stundum verður mönnum á styrka hönd þeir þurfa að fá..."