c

Pistlar:

30. apríl 2020 kl. 9:45

Hulda Björk Svansdóttir (huldabjorksvansdottir.blog.is)

Mikilvægt að biðja um hjálp.

Þegar áföll dynja á í lífinu er gott að eiga góða að. Ég var og er svo heppin að eiga gríðarlega gott bakland í vinum, fjölskyldu og samfélaginu hér á Höfn líka. Þegar ég lenti í mínu áfalli voru allir boðnir og búnir að bjóða fram aðstoð sína og komu til mín og sögðu mér það. Vandamálið var einfaldlega að ég hafði enga hugmynd um hvernig allir gátu hjálpað mér. Hvað vantaði mig? Hvernig hjálp þurfti ég? Maður er svo vanur að vera ekkert að biðja um hjálp heldur þjösnast bara áfram endalaust, þetta hlýtur að reddast er það ekki? 

Það kannast eflaust allir við að segja við einhvern sem lendir í áfalli: ef það er eitthvað sem ég get gert láttu mig þá vita. Ég hef meira að segja sagt það sjálf en svo ekkert gert því ég vissi ekki hvað ég gæti gert.  Þetta kemur frá fallegum stað og auðvitað meinar maður vel með því að segja þetta en svo er erfitt að vita hvað hægt er að gera í raun og veru til að hjálpa. Hvernig á maður að vera sem best til staðar fyrir viðkomandi?

Loksins fattaði ég svo að það voru þessir litlu hlutir sem gátu hjálpað mér. Ég get nefnt sem dæmi að ég hef alltaf haft frumkvæði til að hafa samskipti við fólk en eftir að Ægir greindist þá var það alls ekki svoleiðis. Alls konar hlutir fóru að vaxa mér í augum og ég treysti mér stundum ekki einu sinni í búðina. Eitt af því sem ég ákvað að gera til að biðja um hjálp var að biðja bróður minn og konuna hans að hringja í mig mjög reglulega bara til að heyra í mér hljóðið og ræða daginn og veginn. Ekki það að þau hafi ekki hringt í mig fyrir áfallið en núna þurfti ég á því að halda að þau hefðu alltaf frumkvæðið. Þau gerðu þetta samviskusamlega og gera enn og mikið sem mér þykir vænt um það. Það er ótrúleg hvað einn svona lítill hlutur getur hjálpað manni.

Fyrir þá sem lenda í áföllum geta litlu hlutirnir nefnilega oft virst óyfirstíganlegir og þar koma aðstandendur sterkir inn.   Litlir hlutir sem er gott að fá aðstoð við eins og að fá einhvern til að koma í stutta heimsókn, fara fyrir mann í búðina þegar maður treystir sér ekki til þess að fara, hringja fyrir mann í Tryggingastofnun til að athuga með umsóknir eða önnur réttindamál ef maður hefur ekki orkuna í það, passa í stutta stund svo maður komist í göngutúr. Alls skonar svona smáir hlutir sem geta létt manni lífið svo mikið. Verum því ekki hrædd um að biðja um hjálp við þá því við þurfum ekki alltaf að vera á hnefanum og reyna að gera allt sjálf, nýtum okkur kærleikinn sem er í kringum okkur.

Ég get líka ímyndað mér að það sé oft erfitt fyrir aðstandendur að standa á hliðarlínunni og langa svo mikið að hjálpa en finnast þeir lítið geta gert. Við ykkur vil ég því segja að ef  einhver sem þið þekkið á erfitt getið þið ef til vill boðist til að gera þessa litlu hluti því þeir geta skipt miklu máli. 

Það er engin skömm af því að biðja um hjálp og við ættum að gera meira af því. Það gefur manni svo gott í hjartað að geta hjálpað öðrum sem erfitt eiga og við viljum öll hjálpa er það ekki?

Vertu ei hræddur hjálpar að leita

Það lífi þínu kann að breyta

Ástvinum segðu hvað best er að gera

Byrðina þarft ekki einn að bera

 

Hulda Björk ´20

20190824_094040

 

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda Björk Svansdóttir

Hulda heiti ég og er tilfinningabúnt sem elskar að syngja, dansa og dunda við það að semja ljóð líka annað slagið. Ég á eiginmann til 16 ára og saman eigum við yndislega tvíbura sem eru 18 ára og 8 ára dreng sem er hetjan mín og aðal ástæða þess að ég skrifa hér. Hann þjáist af alvarlegum vöðvarýrnunarsjúkdómi sem kallast Duchenne. Mig langar að vekja vitund um hvernig það er að eiga langveikt barn og lifa með því. Ég hef brennandi ástríðu fyrir því að gleðja aðra, fá fólk til að brosa og láta gott af mér leiða.

Meira