Opnaði mig fyrir sorginni

Kristborg Bóel skrifaði bók um skilnað sinn.
Kristborg Bóel skrifaði bók um skilnað sinn. Ljósmynd/Jónína G. Óskarsdóttir

Skilnaður er iðulega í raun eins og maki hafi dáið og ekki bara einhver einn einstaklingur, heldur heil fjölskylda og sameiginlegir vinir. Depurðin sem fylgir skilnuðum er þó ekki viðurkennd af samfélaginu þó að hún geti verið lamandi og lífshættuleg. Kristborg Bóel Steindórsdóttir fjallar um sinn skilnað í bókinni 261 dagur og þá leið sem hún rataði út úr sorginni.

Í bókinni 261 dagur rekur Kristborg Bóel Steindórsdóttir 261 dag í lífi sínu og átta dögum betur; byrjar söguna síðla árs 2015, átta dögum áður en hún fer í fóstureyðingu og skilur við sambýlismann sinn og barnsföður sama daginn, og síðan 261 dag sem hún er að glíma við sorg og lamandi depurð. Eins og hún lýsir bókinni er engu logið og engu bætt við og ekkert dregið undan.

Kristborg segist hafa skrifað texta síðan hún man eftir sér og í þessu tilfelli hafi skrifin verið hennar líflína út úr ömurlegum aðstæðum. „Þegar ég horfi til baka man ég varla eftir fyrstu dögunum af því að ég bauð sjálfri mér upp á tvöfaldan skell, fóstureyðingu og sambandsslit á sama sólarhringnum. Ég skrifaði í rauninni til að komast í gegnum hvern dag, þetta var mín leið til að lifa af óbærilega klukkutíma og daga og ég tók þetta ekki í dögum, ég tók þetta í kortersskömmtum.“

– Þú skiptir bókinni niður eftir dögum, frá – 8 til 261, og fyrir vikið er hún eins og dagbók.

„Ég hef ekki skrifað dagbók áður, en þarna skrifaði ég bara og mér finnst það svolítið súrrealískt, þegar ég horfi til baka, að ég hafi gert það. Ég skrifaði dagbók frá degi eitt, opnaði bara Word-skjal í tölvunni minni og byrjaði að skrifa um það hvernig mér leið.

Ég veit ekki hvenær sú hugmynd kviknaði svo að gera eitthvað með þetta en sennilega var það á fjórða eða fimmta mánuði. Svo varð sú hugmynd til í spjalli við hana Sigríði Láru, sem var þá búin að stofna Bókstaf, lítið bókaforlag hérna fyrir austan, um að hún myndi gefa bókina út. Í september í fyrra, þegar bókin var í raun tilbúin, lenti ég aftur á móti á vegg.

Það var tveimur árum eftir sambandsslitin og ég var löngu farin að fúnkera. Ég var á heilsugæslunni, hafði farið í venjulega blóðprufu, og svo stend ég þarna og varð allt í einu bensínlaus, gat ekki meira. Ég man að ég sagði steinhissa við hjúkrunarfræðinginn: af hverju núna, af hverju gerðist þetta ekki fyrir ári, ég hefði skilið það þá. Það er þó bara mjög eðlileg og algeng skýring að þetta gerist bara, maður er bara búinn með allt, búinn að keyra sig áfram á síðustu bensíndropunum og olían búin og allt.“

Bakkaði út úr jólabókaflóðinu

„Það var undarlegt að lenda í þessu og ég tók þá ákvörðun að bakka út úr jólabókaflóðinu. Ég sá að ég var ekki manneskja til að standa undir bæði almennu kynningarferli og ati og líka að ég veit að bókin er og verður umdeild og ég átti ekki það bensín til að standa í þessu. Í dag sé ég að þetta var gæfuspor, nú er ég staðin upp og til í slaginn.“

– Þú nefnir það í bókinni, og kemur oft að því, að skilnaður er eins og að maki hafi dáið og ekki bara einhver einn einstaklingur, „heldur skolast heil fjölskylda í burtu á einu bretti, sem og sameiginlegir vinir oft og tíðum“ eins og þú orðar það.

„Þetta er í rauninni punkturinn sem ég gekk út frá þegar ég ákvað að gefa út þessa bók. Guðný Hallgrímsdóttir, prestur fatlaðra, hefur rannsakað þetta og skrifaði ritgerð um það að sorgarferlið er nákvæmlega það sama. Það eina sem skilur að er að samfélagið stendur ekki með þér í skilnaði.

Ef þú missir maka þá syrgja allir með þér; það fer oft í gang söfnun, fólk býðst til að þrífa fyrir þig eða taka börnin, er á vaktinni – er hjá þér jafnvel heilu sólarhringana, það er formleg sorgarathöfn sem er jarðarför og þá formleg lokun, þú færð jafnvel veikindafrí í marga mánuði. Það standa allir með þér. Yfirleitt færðu líka að sitja í óskiptu búi, þarft ekki að flytja út af heimilinu. Samfélagið hlúir að þér og vinirnir standa þétt við bakið á þér.“

„Þegar þú skilur færðu sama áfallið“

„Þegar þú skilur færðu sama áfallið, maki þinn er tekinn út úr lífi þínu. Stundum eru líka svik ofan á allt saman og stundum sérðu maka þinn fara í fangið á annarri manneskju. Fólk á mínum aldri er kannski líka að missa börnin til hálfs. Það verður til ný heimsmynd, það er rifist um húsið og það þarf að skipta innbúi, það passar ekki lengur að fara í kaffi til tengdó, þér er hent út úr matarklúbbnum af því að þú ert ekki lengur hluti af pari.

Allt þetta og svo fyrir utan að fólkið í kringum þig segir: „Þú verður nú bara að fara að halda áfram, eigum við ekki bara að fara upp á Esjuna? Þú hefur svo gott af því að fara út! Það eru nú fleiri fiskar í sjónum.“ Það myndi enginn segja þetta við ekkju eða ekkil.

Skilnaðurinn var mér svo mikið áfall að ég missti hárið, ég missti minnið og það er fullt af fólki sem hefur fyrirfarið sér af því að það hefur ekki séð út úr þessum aðstæðum.“

Vantraust í vöggugjöf

– Snemma í bókinni segir þú um þinn fyrrverandi: „Það væri næstum auðveldara ef hann hefði dáið. Þyrfti þá ekki að vera að hugsa allan helvítis sólarhringinn um hvað hann væri að gera.“

„Já, og ég lýsi líka í bókinni hvernig ég fékk þetta vantraust í vöggugjöf, ég treysti ekki heiminum alveg eins og ég treysti ekki mínum nánustu.

Faðir minn var alkóhólisti og eins og gengur hjá börnum alkóhólista þá varð ákveðið traustrof. Ég tek það með mér inn í mín sambönd, treysti ekki, og ég var því með þráhyggju að hann væri að fara eitthvað annað þó að hann væri kannski ekki að fara neitt. Eins og ég lýsi í bókinni, og vona að skíni í gegn, þá átti sumt og jafnvel margt enga stoð í raunveruleikanum. Ég veit að þótt þetta gangi ekki svo langt hjá öðru fólki þá kemur þetta alltaf upp: er hann farinn að deita? og maður fer að leita á samfélagsmiðlum. Ég vildi bara að hann væri dáinn og þá þyrfti ég ekki að vera með þessar framhaldsáhyggjur.“

– Þú ræðir alkóhólisma pabba þíns í bókinni en líka það að löngu síðar áttaðir þú þig á því að það var ekki bara hann sem var vandamálið, heldur líka mamma þín.

„Ég áttaði mig á því úti á Balí, hundrað árum síðar, að reiði mín og vantraust beindist aldrei að pabba, þó að hann væri vandamálið – það var ekki hann sem ég treysti á sem barn. Rannsóknir hafa sýnt fram á að maður hlýtur varanlegan skaða af líkamlegu ofbeldi eða kynferðislegu og líka af andlegu ofbeldi og það er andlegt ofbeldi þegar enginn tími er fyrir barnið því allir eru bara að verja sig.“

Með ógeðslega mikið drasl í bakpokanum

„Ég er með svo ógeðslega mikið drasl í bakpokanum mínum og ég held að það skipti líka svo miklu máli. Auðvitað er ég búin að reyna að fara til allskonar sálfræðinga og eins og ég segi í bókinni myndi ég vilja getað farið í opna heilaskurðaðgerð til að láta hreinsa þetta út. Ég held að því meira drasl sem þú burðast með, því meira sem þú hleður í bakpokann, því meira verður vandamálið. Ef ég hefði verið búin að losa eitthvað af því væri ég á allt öðrum stað í dag. Ég vona að ég fari aldrei á þennan stað aftur og ætla bara ekki að fara þangað. Ég leyfi mér skella því fram að sama hvað muni ganga á í lífi mínu fer ég aldrei á þennan stað aftur.“

– Það vantar ekki að allir eru með góð ráð handa þér í bókinni og þú gengur í gegnum ýmislegt, prófar allan andskotann, en niðurstaðan er að það er engin töfralausn.

„Núna finnst mér ég vera orðin svo sigld,“ segir hún og hlær við. „Eftir að ég fór í viðtal við Vikuna og síðan á N4 sá ég mér ekki fært annað en að opna grúppu á Facebook af því að ég var að taka við svo miklu af bréfum sjálf að ég gat ekki sinnt þeim, því vandinn er þarna úti. Í grúppunni er fólk að kasta á milli sín ráðum, en það er engin töfralausn.“

„Opnaði mig fyrir þessu sorgarferli“

„Það sem ég gerði var að ég opnaði mig fyrir þessu sorgarferli, leyfði þessu að flæða yfir mig og reyndi ekki að stjórna því. Guð hjálpi þér ef þú reynir að hoppa yfir þetta, það kemur bara í bakið á þér seinna. Ég held að besta gjöf sem fólk sem er að skilja getur gefið sér er að gefa sér tíma til að syrgja, átta sig á þessum nýju aðstæðum og vinna að því að elska og virða sjálft sig og þá kannski verður það einhvern tímann tilbúið að hefja nýjan kafla.

Algengasta lausnin er að rúlla sér á hina hliðina og yfir í nýtt samband, því það er ekkert betra en nýtt samband til að blörra allar vondu tilfinningarnar, það er svo æðislegt þegar þú kynnist nýjum maka. Þá ertu hinsvegar bara að setja sorgina á pásu. Ég las svo viðtal við Heru Björk í Man þar sem hún er að tala um þessi tvö ár sem sérfræðingar hafa komið sér saman um að þurfi til að lenda á löppunum og í viðtalinu segir hún einmitt að það sé svo ósanngjarnt að draga nýjan maka inn í uppgjör á gömlu sambandi. Við vitum alveg að storminn hefur ekki lægt eftir þrjá mánuði og hversu rómó er það að bjóða nýjum maka að vera í storminum af einhverju gömlu sambandi.

Í dag er ég orðin svo vandræðalega sátt við að vera ein að ég nýt þess og þá kannski verð ég einhvern tímann tilbúin.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »