Er djúpfalsað klám ein helsta ógnin?

Það getur eyðilagt líf og orðspor kvenna að lenda í …
Það getur eyðilagt líf og orðspor kvenna að lenda í djúpfölsuðu klámefni. Því er nauðsynegt að stjórnvöld og tæknigreinar um allan heimi vinni í að innleiða aðgerðir til að vernda fórnarlömb slíkra glæpa. mbl.is/AFP

Djúpfalsað klám (e deep fake porn) er ein helsta ógn við málfrelsi kvenna víða um heiminn ef marka má umfjöllun Huffington Post um málið. Konur eru að lenda í því að sjá djúpfalsað efni í dreifingu um sjálfar sig, þar sem andlit þeirra eru sett á líkama annarra kvenna í myndskeiðum. 

Það er mikil kaldhæðni fólgin í þeirri staðreynd að djúpfalsað klám sé einn af neikvæðum fylgifiskum fjórðu iðnbyltingarinnar, þar sem konur hafa lengi barist fyrir stöðu sinni innan meðal annars tæknifyrirtækja víða um heiminn.

Efnið er geymt á djúpvefnum (e. dark web) og er borgað fyrir það með netkrónum svo dæmi séu tekin. Það sem einu sinni hefur birst á veraldavefnum er erfitt að eyða. Eins er erfitt fyrir konur að fylgja eftir og stoppa dreifingu efnisins. Sér í lagi þegar stærstu vefsvæði veraldarinnar sem bjóða upp á klám eru með djúpfalsað klám í boði fyrir notendur þrátt fyrir að hafa fengið fjölmargar beðnir um að gera slíkt ekki. 

Í grein Huffington Post er vísað í nokkrar konur sem hafa lent í því að vera settar inn í djúpfalsað klámefni. Ekki er vitað hvort margir karlar hafi lent í svipuðu, en þó eru dæmi um að karlar hafi lent í því að orðræðu þeirra hafi verið breytt í gegnum svipaða tækni á netinu. Almennt er þó talið að enginn sé óhultur fyrir þessari tækni í dag. 

Ein ljósmynd það eina sem til þarf

Það sem einu sinni birtist á veraldavefnum er erfitt að taka til baka. Sér í lagi ef myndefnið er raunverulegt og erfitt að sjá að um sjálflærða tölvu sé að ræða og þá tækni sem leikja- og kvikmyndaiðnaður víða notar í dag. 

Eini efniviðurinn sem nauðsynlegur er til að hægt sé að útbúa djúpfalsað klám um einstakling er Facebook- eða Instagram-reikningur viðkomandi. Djúpfalsað klám virðist vera notað til að skemma orðspor einstaklinga, til að þagga niður í þeim og niðurlægja svo dæmi séu tekin. 

Uppgötvaði djúpfalsað klám með sér í vinnunni

Í mars mánuði á þessu ári lenti 28 ára gömul kona að nafni Kate í því að uppgötva djúpfalsað klámefni um sig á vinnustaðnum sínum þegar aðili sem vinnur með henni benti henni á myndskeið þar sem kona liggur nakin á sófa í samförum með andlit hennar á sér. 

„Kate varð veik við að sjá myndefnið af sér á meðan samstarfsfólkið hennar safnaðist í kringum hana að sjá myndbandið og stóð þögult. Djúpfalsaða klámið virkaði raunverulegt og var nafnið hennar notað í því svo dæmi sé tekið. Kate vissi að sjálfsögðu að þetta var ekki hún, enda hafði hún aldrei leikið í klámmynd. Þetta var ekki hennar líkami, en andlitið á konunni var hennar andlit. Þetta voru svik, en myndu samstarfsfélagar hennar trúa því?“

Kate sagði blaðamanni Huffington Post að þetta hefði verið hræðileg lífsreynsla. Eitthvað sem hana hefði aldrei órað fyrir. 

Myndbandið er enn þá á netinu og hafa tugir þúsunda horft á það. 

Fyrst frægar konur og nú allar konur

Í fyrstu voru frægar konur nær einvörðungu fórnarlömb á djúpfölsuðu klámi, en þar sem tækninni hefur fleygt fram eru jafnvel konur sem fáir þekkja og eru með nokkrar myndir af sér á samfélagsmiðlum að lenda í þessu.  

Í greininni ræðir blaðamaður Huffington Post við sex konur sem höfðu lent í svipuðum aðstæðum. 

Það sem er sláandi við greinina er sú staðreynd að vinsælustu klámsíðurnar um þessar mundir eru allar fullar af djúpfölsuðu klámi þrátt fyrir að stjórnendur þessara síða hafi lofað að hafa slíkt efni ekki í boði. 

Það hefur löngum verið farið frjálslega með djúpfalsað efni. Þegar …
Það hefur löngum verið farið frjálslega með djúpfalsað efni. Þegar djúpfalsað klámefni er notað til að herja á mannorð einstaklings verður að setja ramma um tæknina að mati margra. Ljósmynd/AFP

Mikilvægt er að endurskoða löggjöfina með þessar upplýsingar í huga svo fórnarlömb djúpfalsaðs kláms geti leitað réttar síns, eins ættu aðgerðir til að stemma stigu við þessum hluta tæknibyltingarinnar að koma úr tæknigreinunum sjálfum að margra mati. Það virðist vera langsótt, dýrkeypt og nær ómögulegt fyrir fórnalömb að sækja rétt sinn í þessum málum í dag. 

„Konur geta sagt við menn í dag að þær vilji ekki fara út með þeim, vilji ekki fara úr fötunum eða vera með þeim, en með einni ljósmynd geta þeir búið til efni þar sem þær einmitt gera þetta.“

Konur sem hafa lent í djúpfölsuðu klámefni vilja leita leiða til að gera ekki einvörðungu þá sem gera efnið brotlega, heldur einnig þá sem dreifa efninu. Eins og staðan er í dag virðist hættan sem stafar af djúpfölsuðu klámefni ógna málfrelsi kvenna víða um heiminn. Sumar konur sem berjast fyrir réttindum kvenna eru að lenda í óvægum árásum af þessum toga. Vígvöllur hernaðar á 21. öldinni virðist halda áfram að eiga sér stað á líkama konunnar. 

mbl.is