Var 19 ára þegar foreldrarnir skildu og finnst hún vera útundan

Íslenskt skilnaðarbarn upplifir sig útundan.
Íslenskt skilnaðarbarn upplifir sig útundan. Andrew Neel/Unsplash

Valgerður Halldórsdóttir  félags- og fjölskylduráðgjafi og sérfræðingur í stjúptengslum svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem var 19 ára þegar foreldrar hennar skildu og líður eins og hún hafi orðið útundan. 

Hæ Valgerður. 

Foreldrar mínu skildu þegar ég var 19 ára og fóru bæði fljótlega í ný sambönd. Ég var upptekin af vinum og skólanum á þessum tíma. Ég kynntist síðan núverandi manninum mínum um tvítugt og var mikið heima hjá honum. Þannig að ég kynntist stjúpforeldrum mínum lítið,  annað var með yngri systkyni mín sem voru að fara á milli heimila. Mér líður í dag eins og hafi verið einhvernvegin „skilin eftir“ og er pirruð út í foreldra mína, sérstaklega pabba og konuna hans. Það er ekki gert ráð fyrir mér eða mínum börnum.  

Kveðja, E

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi.
Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Komdu sæl E. 

Það er vond tilfinning að upplifa sig útundan, sama á hvaða aldri maður er. Það virðist því miður koma fyrir að foreldrar átti sig ekki á mikilvægi sínu í lífi eldri barna sinna við skilnað og myndun nýrrar stjúpfjölskyldu, það er þeirra sem ekki teljast börn lengur í lagalegum skilningi. Afskiptaleysi þeirra, sem og stjúpforeldra, er oft réttlætt með því að börnin séu orðin svo stór eða fullorðin og að þau þurfi ekki á þeim að halda. Í sumum tilvikum virðist vera litið svo á, að stóru börnin séu „miklu eldri“ en jafnaldrar þeirra sem búa með báðum foreldrum sínum eða stjúpbörnin sem teljast búa á heimili þeirra.

Yngri börn lúta oftast einhverju umgengnisfyrirkomulagi sem tryggir þeim regluleg samskipti við báða foreldra eftir skilnað og ná að viðhalda nauðsynlegum tengslum við þá. Eigi þau stjúpforeldri, stjúpsystkinu og/eða hálfsystkini fá þau á sama tíma tækifæri til að kynnast og mynda tengsl. Það getur því verið auðvelt að upplifa að „vera skilninn eftir“ sé ekki passað upp á tengslin við eldri börnin. Systkini þín eru orðin hluti af fjölskyldu sem þér finnst hvorki þú né börnin þín tilheyra. Mögulega að þið fáið þann stuðning sem þið þarfnist.

Breytt hjúskaparstaða foreldra getur því skipt verulega miklu máli varðandi samskipti og tengsl þeirra við eign börn,  sem og þann stuðning sem foreldrar veita þeim. Til að mynda sýna erlendar rannsóknir að fráskildir feður sem fara í samband að nýju, eiga sjaldnar samskipti við börn sín úr fyrra sambandi og veita þeim síður fjárhaglega aðstoð en fráskildir einhleypir feður. Aðstöðumunur barna er því oft mikill, en þau sem búa með báðum foreldrum eða stjúpbörn sem teljast tilheyra heimilinu eru líklegri til að fá alls kyns stuðning en önnur börn fráskilinna foreldra. Við erum einfaldlega tilbúnari til að veita börnum og stjúpbörnum, óháð aldri  stuðning séum við í góðum tengslum við viðkomandi. 

Ábyrgðin á samskiptum uppkominna barna við foreldri er stundum alfarið velt  yfir á þau. Þau „geta að sjálfsögðu komið þegar þau vilja“ eða „mega leita til mín þegar þau þurfa”. Það getur  hinsvegar verið erfitt að leita til einhvers eða biðja um eitthvað þegar við upplifum rofin eða lítil tengsl. Sérstaklega þegar efast er um ást og umhyggju foreldrisins.

Það er líka mögulegt að pabbi þinn og stjúpa upplifi áhugaleysi af þinni hálfu þar sem þú “kemur aldrei” og það verður til sársauki á báða bóga. Satt að segja held ég að oft sé um klaufaskap eða skilningsleysi að ræða sem vel má koma í veg fyrir með fræðslu og ráðgjöf, finni fólk ekki út úr þessu sjálft.  

Samvera foreldra og barna miðast oft við yngstu börnin sem gerir það að verkum að eldri börnin „nenna ekki“ ef aldrei er tekið mið af þeirra þörfum. Það þarf hinsvegar ekki að þýða að þau hafi ekki áhuga á samveru. Við þurfum að reyna vera skapandi í lausnum,  draga úr streitu og skipta okkur meira upp.  

Það hagnast allir á góðum tengslum, líka foreldrakynslóðin. Upplifi hún fjarlægð við eigin börn og stjúpbörn, treystir hún sér til að leyta til þeirra þegar hún þarf á stuðningi að halda?  Verkefnið er að skapa tilfinninguna að tilheyra!

Kær kveðja, 

Valgerður Halldórsdóttir félags- og fjölskylduráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál