Valgerður Halldórsdóttir fjölskylduráðgjafi rekur fyrirtækið stjúptengsl.is. Hún svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem kvíðir því að segja börnunum að þau hjónin séu að skilja og líka hvernig þau eigi að vinna sig út úr þessum aðstæðum.
Sæl Valgerður.
Ég og maðurinn minn til 11 ára höfum ákveðið að skilja. Við eigum tvö börn saman, 10 og 8 ára. Við höfum ekki sagt börnunum frá fyrirhuguðum skilnaði, en okkar nánasta fólk veit um hann. Satt að segja erum við mjög kvíðin fyrir því og viljum gera eins vel og við getum, barnanna vegna. Við höfum verið saman frá því að við vorum 18 og 19 ára og höfum bara vaxið hvort frá öðru. Allt í góðu.
Kærar kveðjur,
Sæunn.
Sæl Sæunn.
Það er góð ákvörðun hjá ykkur að ætla að gera eins vel og þið getið, sérstaklega barnanna vegna. Ykkur sjálfum mun líka líða betur. Skilnaður er sjaldnast auðveldur jafnvel þótt þið hafið komist að þeirri niðurstöðu að fara hvort í sína áttina, eins og það er nú hægt þegar fólk á börn saman. Skilnaði fylgir missir. Við töpum meðal annars draumum sem við áttum saman og þeir dagar verða færri sem við erum í daglegum samskiptum við börnin okkar þegar þau hafa eignast tvö heimili. En honum fylgir líka nýtt upphaf, nýjar áskoranir og oftast ný sambönd.
Áhrif skilnaðar
Áður en lengra er haldið er vert að minna á að rannsóknir sýna að flest börn jafna sig smám saman á skilnaði foreldra og þau geta vel aðlagast honum haldi foreldrar vel á spilunum. Í sumum tilvikum fylgir honum jafnvel léttir fyrir börn. Rannsóknir sýna að átök milli foreldra eru slæm fyrir öll börn, hvort sem þau búa með báðum foreldrum á sama heimili eða ekki. Börn sem búa með báðum foreldrum sem eiga í miklun átökum eru líklegri til að sýna verri líðan og hegðun en börn sem búa hjá einhleypum foreldri/um eða í stjúpfjölskyldum þar sem lítið er um átök. Fjölskyldugerðin skiptir því ekki öllu máli, heldur hvaða umhverfi foreldrar bjóða börnum sínum upp á.
Það getur því verið hollt að taka tékk og spyrja sig: „Hvernig er að vera Ólöf 10 ára á þessu heimili eða Elvar 8 ára?“ Hvernig lítur þeirra daglega líf út? Er ég að gera þeim hlutina auðveldari eða er ég að íþyngja þeim með framkomu minni og dæla jafnvel í þau upplýsingum sem þau vita ekkert hvað þau eiga að gera við? Ætlumst við til að þau séu í hlutverki skilaboðaskjóðu á milli foreldra? Ég er þeirrar skoðunar að ef maður treystir sér ekki sjálfur til að ræða við einhvern, af hverju ætti maður að fela börnum sínum það hlutverk? Líði okkur með þeim hætti er hægt að leita sér aðstoðar í stað þess að bíða eftir að „hinn breytist“, svo koma megi samskiptunum í viðunandi horf.
Þarfir barna
Börnin ykkar þurfa sterka og einbeitta foreldra sem leiða þau í gegnum skilnaðinn og koma á nýjum stöðugleika í lífi þeirra. Þau þurfa að fá að vita hvernig líf þeirra muni „líta út“ í kjölfar skilnaðar ykkar. Það krefst því undurbúnings að segja börnum frá skilnaði. Munu þau flytja, ef svo hvert og hvenær? Hvað með skólann, vinina og þeirra daglega líf? Hvenær eru þau hjá ykkur? Þurfa þau aðstoð við að segja vinum sínum frá? Veit kennarinn og svo framvegis? Óvíst er að þau spyrji um allt í einu eða þau séu strax tilbúin til að meðtaka hlutina, en þið verðið að vera undirbúin og styðja þau í gegnum þær breytingar sem eru fram undan. Hafið þið tök á skuluð þið reyna að gera eins fáar breytingar og hægt er í lífi þeirra samhliða skilnaðinum. Líka er gott að hafa í huga að börn hafa tilhneigingu til að kenna sér um hlutina og því mikilvægt að upplýsa þau um að þetta sé alfarið ykkar ákvörðun og þau hafi ekkert með hana að gera.
Ný og breytt verkefni
Það getur tekið tíma að finna nýjan takt í samskiptum við fyrrverandi maka og endurskilgreina foreldrasamstarfið. Við þurfum að taka við nýjum verkefnum sem snúa að börnunum sem fyrrverandi maki okkar sá um áður, og deila öðrum með honum sem við sáum alfarið um í sambúðinni.
Hver aðstoðaði við heimanámið? Tók til sundfötin? Nestið? Mætti á foreldrafundi? Fór með börnin í klippingu eða pantaði tíma hjá tannlækni? Skutlaði á æfingu? Keypti afmælisgjafir fyrir bekkjarfélagana? Þekkir vinina og foreldra þeirra? Auðvitað þarf það ekki að vera að annað hvort foreldrið í öllum tilvikum hafi séð um þessa hluti en örugglega var einhver verkaskipting hjá ykkur. Sé mikil spenna í skilnaðinum „má ekki“ spyrja hitt foreldrið hvort það hafi munað eftir hinu og þessu án þess að allt fari á verri veg í samskiptum foreldra. Sá sem spyr er kannski vændur um stjórnsemi og hvort hann „haldi eitt eða annað“ um viðkomandi foreldri. Í stað þess að átta sig á því að mögulega er það foreldri sem spyr kvíðið og vill ekki að börnin lendi í vandræðum ef eitthvað gleymist.
Foreldrasamningar
Sumir foreldrar gera með sér skriflegan „foreldrasamning“, ýmist sjálfir eða með aðstoð fagfólks um margvíslega hluti sem þeir vilja að séu í lagi og samkomulag sé um. Hann má gera við skilnað eða síðar. Aðrir heyrast reglulega um þá hluti sem þarf að ræða. Hvaða leið fólk velur til að koma á góðu foreldrasamstarfi, hvort sem um er að ræða skriflegan eða munnlegan samning, skiptir ekki öllu máli, bara að hún þjóni markmiði sínu. Mundu að það er enginn annar í heiminum sem elskar börnin þín jafn mikið og þú og foreldrið á hinu heimilinu. Leyfið hvort öðru að njóta vafans þegar eitthvað kemur upp á og reynið að skapa andrúmsloft þar sem þið þorið að spyrja og leita ráða hvort hjá öðru þegar á þarf að halda, barnanna vegna. Nú svo er alltaf hægt að leita sér líka aðstoðar hjá fagfólki sé þörf á aðstoð.
Kær kveðja og gangi ykkur vel.
Valgerður Halldórsdóttir fjölskylduráðgjafi
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valgerði spurningu HÉR.