Fara alltaf á stefnumót á sunnudagskvöldum

Sesselja Thorberg og eiginmaður hennar, Magnús S. Magnússon á brúðkaupsdaginn.
Sesselja Thorberg og eiginmaður hennar, Magnús S. Magnússon á brúðkaupsdaginn.

3. og 6. maí ætlar Neskirkja að bjóða pörum og hjónum á rómantískt stefnumót. Hjónin Sesselja Thorberg og Magnús S. Magnússon eru meðal þeirra sem tala um 10 boðorð hjónabandsins en þar verða líka prestshjónin Jóna Hrönn og Bjarni og Sigurður Árni og Elín. Þegar Sesselja er spurð að því hver sé lykillinn að góðu hjónabandi segir hún að það sé ekki lykill heldur lyklakippa.

„Það er í raun enginn einn lykill að góðu hjónabandi – meira svona lyklakippa. Svo er bara misjafnt hvaða lykla þú notar hverju sinni. En fyrst og fremst er mikilvægt að hlusta hvort á annað, að tala saman á hverjum degi um drauma og skemmtilega hluti, ekki festast bara í að tala um fjármálin og börnin þó það sé auðvitað mikilvægt líka. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að þrátt fyrir daglegt amstur, vinnu, bónusferðir og bleyjuskipti að það er ástin sem bindur ykkur fyrst og fremst saman. Því er gríðarlega mikilvægt að haldast stundum bara í hendur, kúra saman í sófanum á kvöldin en ekki alltaf hvort í sínu horninu og muna eftir því að kyssast bless og góða nótt,“ segir Sesselja. 

Hvað gerið þið þegar á móti blæs og það vantar meira stuð í hjónabandið?

„Þó það hljómi nú kannski órómantískt þá er það skipulag sem er lykillinn sem dugar þegar á móti blæs. Skipuleggja samveru og stefnumót. Við förum til að mynda alltaf á stefnumót á sunnudagskvöldum og skiptumst á að skipuleggja þau. Þetta er okkar tími og látum ekkert trufla það.“

Hafið þið lent í alvarlegum hjónabandskrísum? „Nei ég myndi ekki segja það. Við höfum alltaf verið frekar skotin en auðvitað mismikið eins og gengur og gerist í öllum hjónaböndum.“

Hvað er það skemmtilegasta sem þið gerið saman? „Okkur finnst æðislegt að ferðast saman bæði innanlands og erlendis. Okkur finnst líka frábært að fara á tónleika og í leikhús. En það er líka dálítið stuð í að skella sér bara í keilu eða í pool. Annars er Magnús minn bara svo fyndinn að það er alltaf gaman hjá okkur og það er mikið hlegið.“

HÉR er hægt að skoða rómantísku stefnumótin í Neskirkju nánar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál