Langar í mann en vill ekki hanga á bar til að reyna að finna hann

Elínrós Líndal svarar spurningum lesenda Smartlands.
Elínrós Líndal svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Samsett

El­ín­rós Lín­dal fjöl­skylduráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem langar að finna ástina en finnst stefnumótaappið Tinder glatað. 

Blessuð. 

Ég er kona á besta aldri sem gengur mjög vel í vinnu. Ég á góðar vinkonur, mörg áhugamál og skortir ekki peninga. Líf mitt er eins gott og það gæti verið fyrir utan þá staðreynd að ég er mikið ein. Mig langar að eignast mann og helst börn en ég er farin að sætta mig við að ég muni líklega ekki eignast barn. Vinkonur mínar hafa verið að hvetja mig til að fara á Tinder, en ég fæ alltaf sjokk þegar ég skrolla í gegnum það. Mér finnst eins og menn séu einungis á höttunum eftir einnar nætur gamni.

Mig langar ekki í mann með mörg börn og flókið líf því ég veit að ég myndi ekki ráða við það. Það að finna einhvern barnlausan án farangurs á um fertugt er eitthvað sem ég held að sé ekki til.

Mig langar ekki niður í bæ um helgar til að reyna að finna mér einhvern. Jafnvel þótt ég heyri að allir sætu mennirnir í bænum séu á Kalda. Í stað þess að fara á Kalda um helgar sit ég ein heima og horfi á „Matchmaking“ þættina á Netflix. Í hinum fullkomna heimi myndi ég ráða einhvern góðan aðila í þetta verkefni með mér. Er slíkt til hér? Ætli til sé maður á Íslandi sem er að leita sér að félaga til að ferðast með og gera eitthvað skemmtilegt í framtíðinni?

Bestu kveðjur,

Sælar og takk fyrir bréfið. 

Ég þekki mjög margar konur á Íslandi sem eru á sama stað og þú. Því miður veit ég ekki til þess að svona „matchmaking“ þjónusta sé í boði hér. En af hverju ekki að fá góðan erlendan sérfræðing til að vinna með þér í þessu? Ég gæti trúað að það yrði áhugavert ferðalag. Þú ert örugglega góð í að raða og flokka og finnur fljótt hver hentar best í þetta verkefni. 

Eins eru til erlendar viðburðarsíður sem leggja áherslu á að setja saman fólk í rómantískum hugleiðingum, með fókusinn á félagslíf, menningu og skemmtun. 

Ég trúi því að til séu margar leiðir til að finna lífsförunaut. Ef þú veist hvað þú vilt og hvað þú vilt ekki. 

Það eru til karlmenn á Íslandi sem hafa verið með fókusinn á svipuðum stað og þú og eru að leita að því sama. Það eru kannski ekki þeir menn sem mest ber á. Þeir taka sér tíma til að fara á stefnumót og þeir verða ekki að vera á föstu. Þessa menn finnur þú í sundi, í ræktinni, á góðum veitingastöðum og í golfi sem dæmi. 

Ef þú telur eitthvað hafa gerst í fortíðinni sem er vert að skoða sem gæti verið ástæða þess að þú ert ein í dag þá ekki hika við að fara í ráðgjöf og skoða það betur. Það er sniðugt að fara í hópvinnu með svona verkefni og ætti að koma þér fljótt á betri stað. Því þá færðu endurgjöf frá öðrum og getur speglað þig í hegðun fleiri kvenna sem eiga eftir að leysa þennan hluta lífs síns. 

Ef eitthvað gefur lífinu gildi og er skemmtilegt, þá er það ferðalagið inn á við. 

Þú ert kona þinna drauma! Þú munt finna manninn þinn, þegar þú ert tilbúin í það. 

Bestu kveðjur,

Elínrós Líndal ráðgjafi. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál