Kærastan gargar í hvert skipti sem hún biður hann um eitthvað

Íslensk kona gargar á kærasta sinn í hvert skipti sem …
Íslensk kona gargar á kærasta sinn í hvert skipti sem hún vill að hann geri eitthvað. Honum finnst það óþægilegt og leitar ráða. Unsplash/Getty Images

El­ín­rós Lín­dal fjöl­skylduráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá manni sem hefur áhyggjur af skapbrestum kærustu sinnar. Hún tekur trylling í hvert skipti sem hún þarf að biðja hann um eitthvað og þá hrekkur hann við. 

Hæ. 

Ég er búinn að vera með kærustunni minni í fimm ár. Sambandið er nokkuð gott þannig séð og er ég ánægður með að hafa fundið hana. Það er samt eitt sem er að trufla mig og það er hvað hún getur verið skapstór og leiðinleg. Ég veit ekki alveg hvernig ég á að snúa mér í þessu. Þegar hana vantar eitthvað, sama hversu ómerkilegt það er, þá brjótast þessir brestir fram. Hún á það til að garga á mig og mér finnst það mjög vont. 

Um daginn vantaði hana eitthvað úr búðinni og í staðinn fyrir að senda bara á mig: „Hæ, ertu til í að kaupa þetta fyrir mig á leiðinni heim?“ Þá fór hún bara á gargið og ég náði varla orð af því sem hún var að segja við mig. Ég hélt að eitthvað alvarlegt hefði komið fyrir hana. En svo var ekki.

Þótt mér þyki ótrúlega vænt um hana þá er þetta farið að hafa áhrif á það hvernig ég sé hana.

Ég upplifi að hún sé bara ekkert ánægð í sambandinu. Þegar köstin eru yfirstaðin verður hún eins og brætt smjör og sýnir skringilega hegðun. Hvað get ég gert til að vera til staðar fyrir hana í þessu?

Bestu kveðjur,

ÓL

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæll.

Eins og þú lýsir þessu í bréfinu þá er ég ekki viss um að þetta hafi neitt með þig að gera. Fólk er bara eins og það er í samböndum og oft er það ekki upp á marga fiska.

Til eru samningar sem hafa verið rannsakaðir af sérfræðingum. Þessa samninga er hægt að nota sem ramma utan um samskiptin þegar á reynir. Ég mæli með því fyrir pör eins og ykkur að reyna að taka erfið samtöl undir handleiðslu hjá sérfræðingi. Sér í lagi til að byrja með til þess að læra að tala saman. 

Sanngjörn samskipti eru ekki flókin í eðli sínu. Þau felast í því að báðir aðilar sætta sig við að vera ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir og langanir. Í sanngjörnum samskiptum er leitast við að orða hlutina á einfaldan hátt án þess að nota lýsingarorð. Þegar við ætlum að vera sanngjörn og tala um það sem okkur finnst erfitt, þá tölum við vanalega í fyrstu persónu út frá eigin tilfinningum. Við erum með mörk og gerum ráð fyrir því að annað fólk sé fullorðið og hafi sín mörk líka. Við leitumst við að halda ekki ræðu yfir fólki og að senda því ekki löng bréf með ásökunartón. Það eru samskipti á gráu svæði. Við göngum ekki út úr miðju samtali og hækkum ekki róminn þegar við erum fullorðin og tökum ábyrgð á eigin lífi. Það sem er áhugavert við sanngjörn samskipti er þau gera ráð fyrir því að fólk geti verið ósammála. Kúnstin er bara að kunna að ræða málin, gera samninga og binda undir erfiðleikana, án þess að allt fari á hvolf.

Það er vanalega breytt hegðun sem kemur fólki áfram í samböndum. Oftast hjálpar að báðir aðilar sýni breytingu í verki. 

Að reka heimili er stundum eins og að reka fyrirtæki. Ef við getum skipulagt okkur, skipt með okkur verkum og ferla hlutina, þeim mun auðveldari verður reksturinn. Mér finnst áhugavert að tala um ferla í þessu samhengi, því þá er hægt að benda á þá í stað þess að fara í persónuna. Allir þurfa að læra að taka þátt á heimilinu og að vera ábyrgir. 

Þeir sem kunna að búa einir eru vanalega þeir sem eiga auðveldast með að búa með öðru fólki að mínu mati. Því þeir vita hversu mörg verkin eru og hversu mikil fríðindi það eru að hafa maka eða ástvin til þess að deila með sér verkefnum. 

Við eigum að mínu mati að vanda okkur hvernig við komum fram við fjölskylduna okkar og þá sem standa okkur næst. Eins þurfum við að kunna að standa í lappirnar og stoppa fólk af þegar það ásakar okkur um eitthvað sem ekki er sannleikurinn eins og við sjáum hlutina. 

Samningur um sanngjörn samskipti ætti að mínu mati að vera kenndur á öllum stigum skólakerfisins og hann ættum við að nota fyrst gagnvart okkur sjálfum og svo í samskipti við annað fólk.

Gangi þér alltaf sem best. 

Kær kveðja, Elínrós Líndal ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Elínrós spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál