Jólaskipulagið er öðruvísi í stjúpfjölskyldum

Gísli Ólafsson er á því að jólin séu hátíð þar …
Gísli Ólafsson er á því að jólin séu hátíð þar sem samvera ætti að vera í forgangi meira en fastar hefðir. mbl.is/Hari

Gísli Ólafsson er tveggja barna faðir sem leggur áherslu á að njóta jólanna í faðmi fjölskyldunnar. Hann segir skýran ramma og væntumþykju mikilvæga á jólunum og mælir með því að setja börnin í forgrunn um jólin. Gísli býr í Laugardalnum ásamt unnustu sinni Helenu og börnum þeirra tveimur. Gísli á soninn Þórð Óla, sex ára, og stjúpdótturina Viktoríu, átta ára. Hann er forstöðumaður á frístundaheimili og hefur unnið með börnum og unglingum á frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum hjá Reykjavíkurborg síðastliðin tíu ár. Hann segir að jólin séu fjölskylduhátíð.

„Þetta tímabil getur verið svo fallegt þar sem jólaljósin lýsa upp skammdegið og mörg tækifæri til þess að njóta með okkar nánustu. Fyrir mér eru jólin fjölskylduhátíð og ég hef verið svo heppinn að það er hefð fyrir stóru fjölskylduboði bæði í föður- og móðurætt sem ég hef alltaf jafn gaman af því að mæta í. Það er því nóg af tilefnum til þess að hitta gott fólk og eiga með þeim góðar stundir. Ég hef aldrei komist inn í bakstursæðið sem getur fylgt jólunum. Ég kýs frekar kertaljós, tónlist og spil með góðu rauðvínsglasi í góðra vina hópi.“

Skipulag mikilvægt um jólin

Hvað hugsar þú sérstaklega um tengt samskiptum fjölskyldunnar um jólin?

„Í gegnum árin hef ég lært að skipulagið er ótrúlega mikilvægt þegar kemur að hátíðum sem skipta mann svona miklu máli eins og jólin. Ef skipulagið klikkar og börnin komast ekki með í veislur sem maður metur mikils getur það verið sárt. Það er hins vegar auðvitað alltaf möguleiki. Við höfum því reynt eftir bestu getu að ræða það tímanlega hvenær veisluhöld eru til þess að skipulag barnanna gangi sem best. Þetta getur verið ansi flókið fyrir börnin að hoppa á milli heimila, oft með stuttum stoppum, en þau eru ótrúlega jákvæð og ef við látum stressið ekki sigra okkur þá fylgja þau með. Ég er með börn á þeim aldri að þau njóta þess enn þá að fara í veislurnar en ég get ímyndað mér að það endist ekki að eilífu og að ætla að fara í fjölskylduboð hjá báðum fjölskyldum getur orðið ansi mikið. Það mun því koma að því að börnin fái að velja hvaða veislur þau koma í og mér finnst mikilvægt að virða það þegar að því kemur.“

Gísli segir skipulagið með öðrum hætti í samsettum fjölskyldum.

„Börnin eru ekki hjá manni alla daga. Á mínu heimili eru tvö börn sem eiga jól á tveimur öðrum heimilum. Það var því ljóst strax að okkar jól væru ekki það sem margir myndu kalla hefðbundin. Sonur minn er í nokkuð föstum skorðum hvað hátíðardaga varða og hefur myndast hefð fyrir því að hann sé alltaf hjá móður sinni á aðfangadag og hjá okkur á jóladag. Það er ekki jafn fast í skorðum hjá stjúpdóttur minni og þess vegna geta jólin verið allskonar. Sum árin höfum við verið öll fjögur saman á jóladag en sum jólin höfum við verið þrjú á aðfangadag og svo aftur þrjú á jóladag en með öðru barni. Þetta setur svo sannarlega svip sinn á hátíðarhöldin og við höfum lært að láta þetta ekki slá okkur út af laginu. Jólin koma hvernig sem fer og þau eru yndisleg á sinn hátt, hvernig sem þau verða. Við höfum í gegnum tíðina gert jóladag að meiri hátíðardag og þá eru fleiri pakkar opnaðir. Þetta er í mínum huga mjög skemmtileg hefð og mér þykir vænt um það að geta aðlagað okkur okkar aðstæðum og gert það eins yndislegt og raun ber vitni.“

Stundum eru fleiri pakkar opnaðir á jóladag en á aðfangadag …
Stundum eru fleiri pakkar opnaðir á jóladag en á aðfangadag hjá Gísla vegna barnanna.

Gísli hefur trú á því að tíminn muni leiða í ljós allskonar aðrar hefðir sem myndast í kringum samsettar fjölskyldur.

Var með hlutina í föstum skorðum

Hvað er mikilvægt að hafa í huga sem stjúpforeldri um jólin?

„Það er að ýmsu að huga sem stjúpforeldri um jólin, tími sem margir gera miklar væntingar til og ýmislegt sem getur farið úrskeiðis. Ég var mikill maður hefða og átti erfitt með að ímynda mér jólin án þess að hlusta á kirkjuklukkurnar hringja í útvarpinu, óska gleðilegra jóla, borða rjúpu, opna pakkana eftir matinn og borða svo eftirrétt með þeim. Þetta breyttist fljótt eftir að ég eignaðist mitt fyrsta barn og enn meira þegar stjúpdóttir mín kom inn í myndina. Allar þessar hefðir eru enn þá að einhverju leyti til staðar en í dag eru jólin þegar börnin eru hjá okkur og við opnum suma pakka einn daginn og aðra þann næsta. Allt eftir því hvenær börnin eru hjá okkur, hvort þau eru saman eða í hvort í sínu lagi. Maður finnur það svo innilega hvað jólin eru hátíð barnanna þegar maður fær að halda jól fyrir þau og búa til nýjar hefðir með þeim. Ein af þeim er að við opnum flesta pakka á jóladag þar sem við erum oftast öll fjögur saman þá. Mér finnst þetta viðhorf vera mjög mikilvægt, að tími barnanna stjórnar því hvenær jólin koma og það eru hátíðardagar þegar þau eru hjá okkur. Sem stjúpforeldri finnst mér líka mikilvægt að hafa í huga að tími stjúpdóttur minnar með mömmu sinni er ótrúlega mikilvægur og það þarf að passa upp á að börn fái að njóta hans með foreldrum sínum. Það þarf sérstaklega að hafa í huga yfir jólin og þá daga sem börnin eru hjá okkur er mikilægt að hafa eitthvað fyrir stafni þar sem þær mæðgur eru að gera eitthvað saman og svo við öll saman, eins gerum við feðgarnir eitthvað saman og svo við öll saman. Þetta á auðvitað alltaf við en sérstaklega mikilvægt um jólin þegar við viljum eiga sem flestar samverustundir.“

Hvað ætti að setja í forgrunn um jólin tengt börnunum?

„Þó að jólin séu hátíð ljóss og friðar eins og einhver segir þá má líka segja að jólin séu hátíð eftirvæntingar og spennu. Þessum tilfinningum getur verið erfitt að hafa stjórn á og það er eitt af því sem við þurfum að vanda okkur við að taka tillit til þegar líður að jólum. Í rauninni finnst mér bara að börnin sjálf eigi að vera í forgrunni í öllu skipulagi á jólunum því þau eru það sem gera þessa hátíð jafn yndislega og hún er. Við pössum okkur á að hér er ekki skreytt fyrir jólin nema þegar bæði börnin eru hjá okkur, eins er jólatréð ekki skreytt nema þau séu bæði hérna. Þetta eru stórar stundir sem mikilvægt er að gera þetta þegar öll fjölskyldan er saman. Þetta þarf að hafa í huga með mörg atriði þegar kemur að jólunum og börnunum þykja mismunandi atriði mikilvæg í aðdraganda jólanna.“

Getur ekki hugsað sér jólin án þess að spila

Hvað gerir þú alltaf um jólin?

„Ég spila alltaf um jólin. Þegar ég var barn var alltaf spil í möndlugjöfinni og ég get ekki hugsað mér jól án þess að spila. Við höfum verið að reyna að búa til þess hefð með börnunum og þau eru að komast á þann aldur að þau geta notið þess að spila flóknari og lengri spil sem mér finnst vera svo ótrúlega jólalegt. Ég get þess vegna ekki beðið eftir að þau komast á þann aldur að við getum eytt heilu kvöldunum í að spila saman.“

Þegar kemur að boðum og bönnum segir Gísli að hann sé ekki nógu hátíðlegur til að setja sér reglur um eitthvað sem ekki er í boði um jólin.

„Það er allt leyfilegt á réttum forsendum og ætli það sé ekki hluti af þeim hugsunarhætti sem hefur fylgt því að halda jól með svona samsettri fjölskyldu, það er ekkert heilagt og við gerum það besta úr því sem verða skal.“

Hver er besta ráðið sem þú hefur fengið í lífinu?

„Þegar ég var kennaranemi í Vesturbæjarskóla fyrir nokkrum árum fékk ég að heyra að það sem gerir góðan kennara er að finna hinn gullna meðalveg á milli þess að setja börnum skýran ramma og að sýna væntumþykju. Þetta á í mínum huga við í mjög mörgum kringumstæðum en auðvitað sérstaklega í samskiptum við fólk. Þar sem vinnan mín síðasta áratuginn hefur snúist um samskipti hef ég reynt að finna þennan gullna meðalveg og mun líklega halda því áfram svo lengi sem ég lifi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál