„Fjölskyldan er mér allt en hún er náttúrlega ekki hlutur“

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra hætti á þingi árið 2016. Hann er þó langt í frá hættur að láta sig samfélagið varða og segir tilganginn með lífinu að gera heiminn að betri stað.

„Þessa dagana er ég aðallega að fylgjast með heimsmálunum og óhugnanlegri framvindu þeirra og þá sérstaklega öllum þeim huldu stríðum sem aldrei komast í fréttir. Viðfangsefnið ætti að vera að koma þeim þangað,“ segir Ögmundur um það sem honum er ofarlega í huga um þessar mundir.

Hvað borðar þú í morgunmat?

„Hafragraut og lýsi.“

Ögmundur borðar hafragraut í morgunmat.
Ögmundur borðar hafragraut í morgunmat. Ljósmynd/Unslpash.com/Yente Van Eynde

Stundar þú reglulega hreyfingu?

„Teygi úr mér og reyni á mig í nokkrar mínútur á hverjum morgni og geng síðan að jafnaði tvo tíma á dag.“

Hvaða borg er í uppáhaldi hjá þér og af hverju?

„Kaupmannahöfn frá því ég bjó þar í tvö ár sem fréttamaður Sjónvarpsins á Norðurlöndum.“

Kaupmannahöfn á stað í hjarta Ögmundar.
Kaupmannahöfn á stað í hjarta Ögmundar. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Ef þú gætir farið hvert sem er í frí, hvert væri förinni heitið?

„Ég gæti hugsað mér að heimsækja Yasnaya Polyana í Rússlandi, ekki langt frá Moskvu, þar sem Leo Tolstoj var borinn og barnfæddur og bjó alla tíð. Þar skrifaði hann sín miklu meistaraverk sem eru í uppáhaldi hjá mér.“

Hvaða hlutur í þínu lífi er ómissandi?

„Fjölskyldan er mér allt en hún er náttúrlega ekki hlutur, það er tölvan hins vegar, hún er aðgangur minn að heiminum.“

Tölvan er gluggi út í heiminn.
Tölvan er gluggi út í heiminn. AFP

Hvaða snjallforrit notar þú mest?

„Ég veit ekki hvað snjallforrit er. Sennilega hef ég þar með fallið á prófi um að geta talist til alvöru nútímamanns. Ég þarf að spyrja einhvern sex ára áður en ég lendi aftur í svona viðtali.“

Snjallforrit halda Ögmundi ekki uppteknum.
Snjallforrit halda Ögmundi ekki uppteknum.

Hvaða bók er á náttborðinu?

„Nýbúinn að lesa bókina Heaven frá Angústúru, les allar bækur í áskriftarröð þeirrar útgáfu. Svo er Einar Már Guðmundsson kominn á borðið með Því dæmist rétt vera og undir þeirri bók bíður svo Ófeigur Sigurðsson með sína bók um skylt efni. Í jólapakkanum verður svo vonandi Alþýðuskáldin á Íslandi eftir Þórð Helgason.“

Bókin Alþýðuskáldin á Íslandi er á óskalista Ögmundar.
Bókin Alþýðuskáldin á Íslandi er á óskalista Ögmundar.

Hvaða sjónvarpsefni ert þú að horfa á þessar vikurnar?

„Ég er hættur að horfa á línulegt sjónvarp – vel úr efni en hlusta mest á Youtube-þætti um málefnin sem á okkur brenna. Mikið og vaxandi framboð á gagnrýnu vekjandi efni um heimsmálin er þar að finna. Svo er Samstöðin að ná miklu flugi.“

Hvernig heldur þú þér ungum í anda?

„Með því að viðhalda þeirri hugsun sem hefur alltaf verið rík með mér, að finnast ég vera rétt að byrja lífið, næra gagnrýna hugsun og leita uppi fólk sem er jákvætt og baráttuglatt.“

Hvað gefur lífinu gildi?

„Að reyna að leggja af mörkum til að heimurinn verði betri. Það er ekki alltaf auðvelt nú í seinni tíð. En svo birtir. Ég er sannfærður um það. Sú vissa má aldrei hverfa. Hún gerir lífið þess virði að lifa því.“

Því dæmist rétt vera eftir Einar Má Guðmundsson.
Því dæmist rétt vera eftir Einar Má Guðmundsson.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál