„Sögurnar sem ég hef heyrt eru ótrúlegar“

Guðmundur Birkir Pálmason fer yfir málin með Mörtu Maríu í …
Guðmundur Birkir Pálmason fer yfir málin með Mörtu Maríu í Dagmálum dagsins. mbl.is/Hallur Már

Guðmundur Birkir Pálmason byrjaði á Instagram árið 2012 til þess að auglýsa sig sem kírópraktor. Skyndilega vissu allir hver þessi brosmildi drengur að austan var. Ekki minnkaði áhuginn á Gumma kíró, eins og hann er kallaður, þegar hann fann ástina í örmum Línu Birgittu Sigurðardóttur. Hún hefur kennt honum að tala um tilfinningar sínar og ýtt undir drauma hans. Í Dagmálum segir hann frá lífshlaupi sínu og hvernig hann sé löngu hættur að kippa sér upp við það þegar fólk heldur að hann sé samkynhneigður, vegna klæðaburðar.

„Ég man þegar ég var búinn með stúdentinn og var að reyna að finna út úr því hvað ég vildi gera. Mig langaði til að hjálpa fólki og var að hugsa um að fara í lækninn, lýtalækninn eða sjúkraþjálfarann en ég var einkaþjálfari á þeim tíma,“ segir Gummi sem sá fyrir sér á unglingsaldri með því að einkaþjálfa fólk.

Guðmundur Birkir Pálmason, Gummi kíró, er gestur Dagmála.
Guðmundur Birkir Pálmason, Gummi kíró, er gestur Dagmála. mbl.is/Hallur Már

„Þegar ég datt inn í kírópraktorinn áttaði ég mig á því að þetta væri það sem ég vildi gera. Mig langar að hjálpa fólki á þennan hátt, í raun og veru með minni getu, með höndunum og án þess að gefa fólki lyf til þess að bæta sína heilsu eða fara undir hnífinn,“ segir hann.

Gummi byrjaði á Instagram til að verða sýnilegri en svo þróaðist það út í að hann fór að vinna sem áhrifavaldur meðfram aðalstarfinu. Hann vakti strax athygli fyrir öðruvísi fatastíl og einhverjir veltu því fyrir sér hvort hann væri ekki örugglega samkynhneigður fyrst hann leyfði sér að klæða sig eins og hann gerir.

„Ef þú myndir spyrja æskuvini mína þessarar spurningar myndu þeir segja að þetta væri bara eins og Gummi er. Ég er alltaf ég sjálfur. Þótt ég sé á Instagram í einhverjum fötum þá er ég eins og ég hef alltaf verið. Þetta var bara svo náttúrulegt fyrir mér. En af því þetta var öðruvísi þá vakti það athygli.“

Svo er fólk nú stundum að tala um að þú hljótir að vera samkynhneigður fyrst þú leyfir þér að klæða þig svona?

„Sögurnar sem ég hef heyrt eru ótrúlegar. Einu sinni var ég á leið heim úr vinnunni þegar Lína hringdi í mig og spurði hvað væri í gangi. Ég skildi ekkert og spurði hvað hún ætti við. Þá kom hún með einhverja rosalega sögu um að ég væri búinn að vera úti um allt með einhverjum manni hér og þar. Þetta þróaðist út í einhverjar brjálaðar sögur. Einhver átti að hafa komið að okkur. En nei, ég er ekki samkynhneigður,“ segir hann og hlær.

En hvernig byrja svona sögur?

„Ég veit það ekki. Við vorum oft að velta því fyrir okkur hvernig svona sögur geta orðið eins og þær eru,“ segir hann og hristir hausinn og er ekkert að láta flökkusögur trufla sig.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál